Hin 39 ára gamla Halla Vilhjálmsdóttir, eða Halla Koppel, eins og hún heitir nú, muna eflaust margir eftir.
Halla er menntaður leikari og var um árabil afar áberandi í íslensku leiklistarsenunni. Hún lék til að mynda í kvikmyndinni Astrópíu, fór með aðalhlutverk í söngleiknum Footloose sem settur var upp í Borgarleikhúsinu árið 2006, lék í áramótaskaupinu sama ár og var kynnir í fyrstu seríu X-Factor á Íslandi.
Undanfarin ár hefur Halla hins vegar búið, starfað og stundað nám í Bretlandi. Hún er gift Harry Koppel sem er kólumbískur, en alinn upp að miklu leyti á Englandi. Saman eiga þau þrjú börn, Louisa sem er fædd 2015 og Harry Þór, sem fæddur er 2017 og Anitu sem fæddist á síðasta ári.
Óhætt er að segja að Halla hafi aldeilis ekki setið auðum höndum síðustu ár, því fyrir utan það að ganga með og eignast þrjú börn, hefur hún lokið MBA gráðu í Oxford háskóla og er nú að taka próf frá Cambridge í sjálfbærum fjármálum og fjórða stig í CFA sem snýst að miklu leyti um umhverfisvænni og sjálfbærari fjárfestingar.
Halla hefur að undanförnu starfað hjá ameríska fjárfestingabankanum Goldman Sachs í London, en hún sagði upp starfi sínu fyrir nokkrum mánuðum, til þess að geta sinnt börnum sínum.
„Í mínum bransa er ekki óeðlilegt að vera komin í vinnuna fyrir sjö og fara heim klukkan átta. Það kom tímabil þegar ég eignaðist fyrsta barnið mitt að ég sá hana í korter. Ég var farin til vinnu áður en hún vaknaði og hljóp eins hratt og ég gat heim úr lestinni til að ná að sjá hana í korter áður en hún færi að sofa. Ég kom heim sveitt, silkiblússan límd við bakið á mér, hljóp upp stigann því það var fljótara en að bíða eftir lestinni. Það tókst oft ekki og barnfóstran reyndi að hugga mig með því að hún hefði verið svo þreytt að hún hefði bara sofnað. Þetta var ömurlegt. Ég tók ákvörðun um að bjóða ekki upp á þetta,“ sagði Halla í helgarviðtali DV fyrir skemmstu.
Halla virðist skara fram úr í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur og verður spennandi að fylgjast með henni í framtíðinni og sjá hvert hennar næsta verkefni verður. Því ljóst er að hér er kona sem lætur sér ekkert vaxa í augum.