Nokkuð líflegar kappræður tólf frambjóðenda til embættis forseta Íslands fóru fram á RÚV í gærkvöld.
Já, umræðurnar voru bara nokkuð sprækar og barasta alls ekki leiðinlegar, og það var fyrir mestu.
Sé litið lítillega yfir skrif um umræðuþáttinn á samfélagsmiðlum er ekki annað sjá en að áhorfendum hafi beinlínis líkað vel þetta efni, eins og kom fyrst fram hjá DV.
Jakob Bjarnar Grétarsson, blaðamaður á Vísi, sagði einfaldlega:
„Besta tv í heimi. En ég er í enn meiri bobba en áður — þau voru öll frábær!“
Kristín Reynisdóttir var þó alls ekki eins hrifin og Jakob Bjarnar:
„Hélt út í 20 mín af þessu sjónvarpsefni og er sködduð fyrir lífstíð. Þó verður ekki hægt að rekja skaðann til hans Baldurs míns. Áfram Baldur.“
Erla Hlynsdóttir, blaðamaður á Heimildinni, var á því að Katrín Jakobsdóttir hefði nýtt tímann vel:
„Sigurvegarinn í „frambjóðandi spyr frambjóðanda” var klárlega Katrín. Hún valdi að spyrja fyrrverandi borgarstjóra hvort sú reynsla myndi nýtast honum í embætti forseta, og fékk svar sem kom mjög vel út fyrir hana sjálfa sem fyrrverandi forsætisráðherra. Síðan voru nokkrir sem greinilega vildu reyna að koma höggi á Katrínu með því að spyrja hana að því sem þeir töldu krefjandi spurningu sem varð til þess að hún fékk mun meira kastljós en aðrir frambjóðendur í þessum lið.“
Þá var nokkuð rætt og ritað um handahreyfingar Höllu Hrundar, og um þær ritaði Bjartmar Þórðarson eftirfarandi orð:
„Mér finnst tilraun Höllu Hrundar til að táknmálstúlka sjálfa sig virðingarverð.“