Föstudagur 20. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

Halldór Kristján Baldursson teiknari: Stundum í lagi að fara létt yfir strikið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Halldór Kristján Baldursson teiknari ræðir við Reyni Traustason meðal annars um afleiðingar þess að danskir teiknarar teiknuðu skopmyndir af Múhameð spámanni og minnst er á tabú sem þarf að hugsa um. Hann tók við af Sigmund á Morgunblaðinu sem hann segir að hafi verið sitt „idol“ þegar hann var strákur. Davíð Oddsson varð svo ritstjóri og segir Halldór að það hafi blasað við að pólitík þeirra á leiðarasíðunni hafi ekki runnið vel saman. Halldór hætti síðar á Morgunblaðinu og fór yfir á Fréttablaðið. Hann teiknaði skopmynd af Davíð eftir að hann hóf störf á sama vinnustað og segi Halldór að almennt megi stundum fara létt yfir strikið.

 

„Einhvern tímann á tímabili fékk maður skot frá kvótafólkinu. Það fannst ég vera að misskilja svolítið. Veiðigjöld og eitthvað þannig. Sendu mér bréf út af því. Ég reyni að skoða hluti frá mörgum hliðum og reyni oftast ekki að fella endanlegan dóm heldur súmmera upp málið,“ segir Halldór Kristján Baldursson teiknari í viðtali við Reyni Traustason.

Það er verið að drepa teiknara úti í heimi.

„Já, þessir dönsku teiknarar voru hérna á árshátíð í kringum 2007-8 og fóru mjög leynt og þorðu ekki að koma í viðtöl,“ segir Halldór en árið 2006 birtist í Jyllandsposten skopmynd af Múhameð spámanni sem múslímar voru ekki sáttir við.

Það var búið að gefa á þá veiðileyfi. Þetta er rosalegt hatur. Skildir þú hvað er á bak við þetta?

- Auglýsing -

„Ég skil ekki af hverju fólk gaf skopmyndinni þetta vægi.

Ef við förum í grunnsöguna þá var verið að gefa út bækur í Danmörku um trúarbrögð og það var búið að gefa út eina um Búdda og þessi höfundur vildi gera bók um Múhameð. Það hófst herferð gegn því af því að það má ekki teikna Múhameð og Jyllandsposten fékk teiknara til að teikna Múhameð í nafni tjáningarfrelsisins. Þannig að þetta var einhvers konar ögrun gagnvart því að þessi viðkomandi höfundur í landi sem metur tjáningarfrelsið mikils fékk ekki að gefa út bókina sína. Og það var nýr veruleiki fyrir Dani. Jyllandsposten fór út í þetta. Síðan gleymdist þessi forsaga með þessa bók. Og ritstjóri Jyllandsposten sagði „hver vill teikna Múhameð? Okkur finnst það mikilvægt til þess að leggja áherslu á tjáningarfrelsi teiknara.“ Síðan var þessu tekið sem mikilli ögrun frá þeim sem eru íslamstrúar. Þetta bar blásið út og það var bætt við ljótari myndum. Í súpunni sátu síðan þessir teiknarar á endanum. Margar af þessum myndum eru mjög saklausar. Aðrar hafa dálítið rasískt yfirbragð. En alltaf þarf maður að hugsa hver er það sem ræður hvað við megum teikna; hvenær getur þú fært ný gildi yfir á samfélagið því við teiknum auðvitað ekki hvað sem er. Ég er ekkert að teikna alla hvernig sem er. Það er alls konar tabú í gangi. Og þarna var búið að bæta við tabú sem við vorum nýbúin að losna við varðandi kristnina; það mátti gera grín að kristninni sem mátti ekki einhverjum örfáum áratugum áður. Hvað þá öldum áður. Það hefur verið dauðasök einhvern tímann.“

Það er hluti af okkar samfélagi svolítið að takast á við þessi tabú.

Jesús með brjóst.

- Auglýsing -

„Já, akkúrat. Þá er kominn nýr flötur sem er transumræðan sem er viðkvæm í dag.“

Þetta er jarðsprengjusvæði. Það eru tabú sem þú þarft alltaf að hugsa um.

„Já, það eru tabú. Það er hluti af okkar samfélagi svolítið að takast á við þessi tabú og reyna að melta hvað er viðeigandi að gera og hvað ekki. Stundum vill maður kannski brjótast aðeins út úr því. Það eru ekki allir sammála. Það eru ekki allir sammála hvað er bannað og hvað er ekki bannað. Svona í prinsippinu viljum við meira frelsi.“

Halldór hefur teiknað Múhameð. Þá var Múhameð kominn til himna. „Það voru tvær myndir. Ég man ekki hvernig þær voru. Maður dælir út mynd eftir mynd eftir mynd og það er kannski tilviljun hvað það er sem fólk grípur,“ segir teiknarinn og bætir við að það skipti almennt máli hver sér myndina og ákveður að móðgast og gera frétt úr því; móðgast samkvæmt sínum gildum.

 

Geðheilsan eða lífsbaráttan

Halldór Kristján Baldursson er Reykvíkingur. Byrjaði ungur að teikna.

„Maður byrjaði að mótast svolítið á bernskuárunum. Barnaskólaárin teljast vera mjög mótandi. Ef ég rifja upp þá sem voru með mér í skóla; þeir eru jafnvel að gera eitthvað svipað og þeir voru að gera í 11 ára bekk. Ég er búinn að rannsaka þetta aðeins. Þetta rataði aðeins inn í lokaverkefnið mitt í listkennslufræðunum,“ segir Halldór sem er nýútskrifaður með meistaranám. „Þar skoðaði ég svolítið sjálfan mig og mína menntasögu í samhengi við listkennslufræðin og fór að rifja upp skólagönguna. Það kom í ljós að allir gaurarnir sem voru með mér í bekk eru meira og minna að gera það sama. Það er einn hjá Pfizer í dag og hann var nördinn í bekknum; lærði rosalega vel og kunni allt – alla stærðfræði og líffræðina að sjálfsögðu. Svo voru þrír með 10 í smíði og mjög flinkir og þeir fóru allir út í þetta. Ég var gaurinn sem var að teikna myndir; fékk eitthvað út úr því að teikna skemmtilegar myndir. Það eru til myndir frá því ég var 11 ára. Mér finnst að mér hafi átt að fara meira fram þegar ég horfi á þetta. Ég festist í að gera skemmtilegar myndir af kennurunum og maður fékk smáhlátur.“

Ég ólst upp við ákveðna róttækni.

Halldór segir að fyrsta djobbið hafi hann fengið 12 ára gamall. „Það kom í gegnum mág minn sem var að prenta Stéttabaráttuna þegar ég var 12 ára. Ég teiknaði mynd í tilefni af 1. maí og þar var mynd af útifundi og það var einn hundur að horfa á. Þeir voru ekkert ánægðir með þetta í stjórn kommúnistahreyfingarinnar. Ég hélt alltaf að þetta hefði birst en ég fletti þessu upp einhvern tímann, blaðinu, af því að nú getur maður fundið þetta en ég fann hvergi þessa mynd. Mér skilst að hún hafi verið ritskoðuð út. Þetta voru Marx-Lenínistarnir. Eldri systkini mín voru í þessu. Ég ólst upp við ákveðna róttækni og þá kom hin hliðin inn – áhugi á pólitík sem fór þá inn í skopmyndirnar sem er sambland af list og húmor þeim megin og svo pólitíkinni hinum megin.“

Það hefur alltaf verið þannig að þú ert með boðskap. Þetta er ekki bara eitthvað djók.

„Nei, það verður að vera í þessum myndum. Ég fer vítt og breitt. Ég tek bæði þessi pólitísku átakamál og svo er ég aðeins í því sem fólk er að glíma við frá degi til dags. Ég tek stundum geðheilsuna með eða lífsbaráttuna á breiðari grundvelli.“

 

Einhver kergja

Halldór byrjaði að teikna fyrir Viðskiptablaðið í kringum 1994. „2005 fór ég að gera þetta daglega fyrst fyrir Blaðið ef einhver man eftir því sem var fríblað sem kom í samkeppni við Fréttablaðið og 24 stundir. Síðan rann það inn í Moggann. Ég kom inn á Moggann með Ólafi Stephensen sem var ritstjóri 24 stunda og tók síðan við Mogganum. Þannig að ég er eiginlega eini maðurinn sem fékk vinnu í miðju hruni. Þetta var akkúrat í október 2008 sem ég fór þarna yfir.“

Þú tókst við af Sigmund.

„Ég tók við af Sigmund sem var mitt „idol“ í sjálfu sér. Ef þú talar um æskuna þá hugsa ég að á einhverjum tímapunkti 11-12 ára hafi ég viljað verða næsti Sigmund.“

Sem þú varðst svo.

„Ég bjóst ekkert þannig við því. Ég bjóst frekar við að verða arkitekt eða eitthvað. Það var ákveðið að hann teiknaði áfram í sunnudagsblaðið og ég átti að teikna á virkum dögum. En það var einhver kergja í kringum þetta. Einhverjir vildu ekki missa Sigmund sinn og hann var kannski ekki mjög sáttur heldur. Það kom verr út heldur en þetta stóð til. Ég held að þetta hafi verið passlegt fyrir hann að kúpla niður í eina mynd á þessum tíma.“

En það varð ekkert.

„Hann hætti þá. Og ég tók þá við.“

Maður sá á netinu að það voru einhverjir fúlir.

Varðstu fyrir einhverjum ónotum?

„Nei, ekkert persónulega. Maður sá á netinu að það voru einhverjir fúlir. Maður skilur það ef manni fer að þykja vænt um eitthvað sem hefur alltaf verið. Fólk sem er íhaldssamt vill ekkert sleppa því sem hefur alltaf verið á staðnum. Það má ekki breyta borginni og það má ekki breyta lífinu á neinn hátt.“

 

Að skrifa með strokleðri

Svo kom Davíð Oddsson á Moggann.

„Davíð tók við; ætli það hafi ekki verið 2009. Það var auðvitað mikill styr í kringum það. Hann með sína forsögu auðvitað. Það fór ekkert vel í alla. Það var ekkert verið að ýta mér í burtu en það blasti hins vegar við að okkar pólitík á leiðarasíðunni rann ekkert rosalega vel saman. Ég var á þessum tíma mjög Evrópusinnaður og klassískt frjálslyndur svolítið; með einhverja sýn á lífið þannig. Hann er miklu íhaldssamari maður. Icesave var þarna og mismunandi skoðanir á hvað átti að gera í því máli. Eiginlega fór manni að líða illa við að teikna mynd og svo voru Staksteinar við hliðina á að segja eitthvað þveröfugt. Ég var mjög hress með að fara yfir á Fréttablaðið 2010.“

Hann var að skrifa með strokleðri.

Halldór teiknaði Davíð í Morgunblaðið eftir að Davíð settist þar í ritstjórnarstólinn. „Ég teiknaði Davíð; þetta er svolítið hart þegar ég hugsa um það eftir á. Textinn var Davíð endurskrifar söguna. Hann var að skrifa með strokleðri. Ég hélt samt vinnunni áfram. Í eitt og hálft ár allavega.“

Var þetta ekki bara kjarni málsins?

„Jú, við skrifum öll söguna. Við lifum öll í sitthvorri sögunni svolítið. Við erum með okkar sögu. Og við skrifum okkar sögu. Hún stangast á við eitthvað annað. Sumt eru auðvitað staðreyndir. En mikið snýst um að velta upp viðhorfum í samhengi við okkur sjálf. Og hann kom auðvitað með allt aðra sýn en ég.“

Þetta er gamla sagan hálffullt / hálftómt. Sumir sjá það hálftómt. Aðrir hálffullt. Þannig að þú fórst ekkert ósáttur frá Davíð eða Mogganum?

„Nei, hann er náttúrlega svo dularfullur, karlinn. Ég hitti hann bara tvisvar þarna á þessum tíma.“

Það var ekki oftar.

„Nei, og það var vinsamlegt.“

Maður hafði á tilfinningunni að hann hefði húmor fyrir eins og þegar Spaugstofan var að djöflast á honum og einhverjum teikningum því að flestir skilja það að með því að þú ert teiknaður þá skiptir þú máli. Er það ekki?

„Jú, það er klassískt viðhorf í pólitíkinni að vilja komst í mynd. Af því að pólitíska skopmyndin á svo djúpar rætur. Hún er alveg 2-300 ár aftur í tímann; kannski um aldamótin 1800 sem þetta form skapast. Á þeim tíma voru ráðamenn kannski í vandræðum með það og reyndu jafnvel að banna það eins og í Frakklandi og setja lög um að það megi ekki gera skopmynd af einhverjum nema með leyfi viðkomandi. En smám saman vann þetta sér sess sem hluti af því að vera viðurkenndur; vald þitt sé viðurkennt myndi ég halda. Þannig að eftir því sem þú ert oftar í mynd því fleiri valdastig færðu væntanlega. Hann hefur held ég alveg skilið það þannig. Ég býst við því.“

Sumum finnst þeir sjálfir einhvern veginn algildur mælikvarði á hinar hreinustu dyggðir samanber þetta Múhameðsmál; teikningarnar.

Halldór segir að stundum finnist sér vera í lagi að fara létt yfir strikið. „Stundum þarf fólk að hafa þol fyrir því að eitthvað sé kannski ekki nógu gott, eitthvað gangi aðeins of langt og eitthvað sé ekki því að skapi. Fólk verður að hafa þol fyrir því en þannig er veruleikinn. Skopmyndir verða að fá að gera þetta líka. Sumum finnst þeir sjálfir einhvern veginn algildur mælikvarði á hinar hreinustu dyggðir samanber þetta Múhameðsmál; teikningarnar. Þeim finnst að þeirra hreina sýn á tilveruna og algilda, góða sýn eigi bara að ráða og að það eigi ekki að gefa því séns að einhverjir aðrir geti haft að hluta til rétt fyrir sér.“

 

Fjölbreytt verkefni

Jú, Halldór er nýútskrifaður með kennsluréttindi.

„Ég hef kennt í mörg ár; ég hef gert meira en að gera þessar skopmyndir í blöðin. Ég hef myndskreytt fjölda bóka og auk þess kennt teikningu lengst af í Myndlistarskóla Reykjavíkur síðustu 15 árin og Listaháskólanum eitthvað. Ég kláraði Myndlista- og handíðaskólann á sínum tíma og nennti alls ekki að vera í meira námi; mér fannst þetta bara orðið fínt. Það var þessi tilfinning að það væri alltaf verið að segja manni hvað maður átti að gera og maður sat bara á einhverjum stól. Maður er kannski svolítið undirsettur sem nemandi. Manni fer að líða þannig. En þetta snýr öðruvísi að manni þegar maður er kominn á sextugsaldur. Þetta er síðasti séns að fara í skóla ef maður hefur áhuga á því.“

Aðalstarfið er að teikna. „Ég er með fjórar myndir í Fréttablaðinu í viku og eina í Viðskiptablaðinu.“ Svo myndskreytir hann jú bækur – nokkrar á ári – og svo eru það alls konar verkefni svo sem fyrir auglýsingastofur. Og svo hefur hann kennt módelteikningu á kvöldnámskeiðum og myndskreytingu.

Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -