Á Facebook-síðunni Fangaverk má sjá glæsilegt verk þar sem Hallgrímskirkja hefur verið smíðuð úr pappa og grillpinnum, eða eins og segir í færslu þar sem vakin er athygli á þessari frábæru listsmíð:
„Þessi fallega kirkja var gerð á Hólmsheiði og kláraðist í dag. Kirkjan er 115cm á hæð, 102cm á breidd og 115cm á lengd. Mótið var handgert úr pappa og svo klætt með grillpinnum.“
Og það var engin smá vinna sem fór í verkið:
„Í verkið fóru alls 9300 grillpinnar, 3 mánuðir af vinnu og gríðalegt magn af þolinmæði.
Einu verkfærin sem notuð voru eru sandpappír, naglaklippur og dúkahnífur.
Grillpinnarnir voru litaðir í bökunarofni með matarolíu. Það er stórkostlegt að sjá lokaútkomuna en þessi hugmynd kemur frá fanga sem hafði ákveðnar hugmyndir af því sem hann langaði til þess að gera. Magnað ekki satt?“
Þess má geta að handgerðar vörur, hannaðar og framleiddar af föngum í fangelsum landsins er að finna í netversluninni fangaverk.is.