„Áskoranir mínar eru breytilegar frá einu tímabili til annars. Eitt sinn var heilsa sonarins mín helsta áskorun, en síðustu árin hefur það verið mín eigin heilsa, sem hefur verið mikil áskorun. Ég er með ólæknandi sjúkdóm, lungnaslagæðarháþrýsting, sem hefur skert getu mína til að starfa við það sem ég hef fengist við síðustu áratugi. Ég hef starfað sem leiðsögumaður og ferðast með spænskumælandi ferðamenn um íslensk fjöll og firnindi auk þess að sinna kennslu í framhaldsskóla þar sem ég hef kennt sögu og umhverfisfræði.
Ég þarf samt að sníða mér stakk eftir vexti og forðast mikið álag og streitu
Fyrir 15 árum fór ég að finna fyrir mikilli þreytu og mæði og gekk á milli lækna til að leita að orsökinni. Þetta ástand var sérlega óvenjulegt fyrir mig, sem alltaf hafði hreyft mig mikið, gengið á fjöll og hjólað í vinnuna. Það var ekki fyrr en fimm árum síðar sem í ljós kom hvað að mér amaði og ég sett á lyf sem hægðu á þróun sjúkdómsins og um leið minnkaði mæðin og þreytan. Ég þarf samt að sníða mér stakk eftir vexti og forðast mikið álag og streitu.
Ég fer í rólegheitaferðir með túristana, ekki miklar göngur eða eitthvað sem krefst mikillar áreynslu. Þar til fyrir 20 árum voru meðallífslíkur fólks með þennan sjaldgæfa sjúkdóm aðeins þrjú ár eftir greiningu, en ný lyf hafa breytt þessum lífslíkum og nú eru 10 ár frá því að ég greindist og ég er bara ansi góð. Ég þarf að beita öllum verkfærunum í náttúrulækningatöskunni til að vinna með hinum vestrænu lyfjum sem halda sjúkdómnum í skefjum og fylgja góðum siðum í næringu og lífsstíl og mjög mikilvægt er að lágmarka stress.
Ég nota jurtir, fæðu og æfingar til að vinna gegn einkennum sjúkdómsins og óæskilegum aukaáhrifum af lyfjunum og hef tekið eftir því að andlegt og tilfinningalegt álag er verst fyrir mig. Þá hrakar mér og þarf að leggja sérlega hart að mér til að ná mér upp aftur. Það er kannski ekki skrýtið, því samkvæmt ayurveda er rót hugans í hjartanu. Hugur og hjarta eru þannig nátengd og tilfinningar hafa bein áhrif á hjarta. Ég er einmitt rétt nýkomin heim frá Spáni, þar sem ég var á heilsuhóteli í ayurveda-lækningameðferð sem kallast panchakarma. Þar var ég hresst við aftur eftir dýfu niður á við síðustu tvö ár.“
Þetta segir Heiða Björk Sturludóttir, jógakennari, næringarþerapisti, ayurveda-ráðgjafi, sagnfræðingur, umhverfisfræðingur, ökuleiðsögumaður og kennari. Mannlíf heyrði í Heiðu og fékk að fræðast um náttúrulækningarnar, lífið og jógað.
Húsið fór á bólakaf í vikur og ekki hægt að grafa það upp
Heiða segist vera hamfaraflóttakona úr Eyjum. Hún var á sjötta ári þegar gaus þar árið 1973 og fjölskyldan endaði í Viðlagasjóðshúsi í Mosfellsbænum þar sem myndaðist Vestmanneyinganýlenda. Húsið fór á bólakaf í vikur og ekki hægt að grafa það upp og lappa upp á það, eins og raunin var með mörg önnur hús. Það hefur sennilega ýtt undir að foreldrarnir fóru aldrei aftur til baka, heldur komu sér fyrir „uppi á landi“ og bjuggu sér þar til nýtt líf.
„Þar sem ég ólst upp í Mosfellsbænum fór ég að sjálfsögðu að vinna við garðyrkju að Reykjum, taka upp rófur á sumrin, vinna á Álafossi í lopanum og síðast en ekki síst að vinna við umönnun sjúkra á Reykjalundi, sem átti sérlega vel við mig. Enda var og er Reykjalundur einstök vin í skjóli Helgafellsins og umvafinn skógi og með svo góðan anda innanborðs.
Á Reykjalundi vann ég samhliða námi bæði í framhaldsskóla (Menntaskólanum við Hamrahlíð) og síðar á háskólaárunum. Þetta var nánast fjölskylduvinnustaður, því þarna vann móðir mín líka árum saman sem sjúkraliði og annar bróðir minn vann þar lengi í söludeild.
Ég var mikil íþróttastelpa, þótt það hljómi ótrúlega í eyrum margra kunningja og samstarfsmanna í dag. Enda er ég þekkt fyrir það í dag að vita sjaldnast hvenær er t.d. HM, ólympíuleikar eða Íslandsmeistaramót í einhverju og þekki enga landsliðsmenn með nafni, nema síðustu mánuði vegna me-too … öhömm. En á mínum yngri árum keppti ég mikið í frjálsum íþróttum og handbolta og náði svo langt að vera boðið að æfa með landsliðinu í handbolta. Ég mætti á eina eða tvær æfingar, en gafst þá upp á alvörunni og hætti í íþróttum, enda orðin tvítug og áhugamálin orðin önnur. Ég var mikið að grúska í alls kyns heimspeki og þá úr öllum áttum; grískri heimspeki, heimspeki Austurlanda, jóga-heimspeki, að lesa um árur og fyrri líf og ég veit ekki hvað. Um leið hafði ég mikinn áhuga á öllu gömlu, að lesa um fyrri tíma í sagnfræðiritum og klæða mig í gamaldags og skrýtin föt úr verslununum Fríðu frænku og Laura Ashley.“
Íhugaði með áttræðri vinkonu sinni
Ég hef í raun alltaf haft mikla þörf fyrir einveru
Tvítug fór hún að læra innhverfa íhugun með vinkonu sinni áttræðri, sem hún var heimilishjálp hjá. Þær notuðu þessa hugleiðsluaðferð báðar í talsverðan tíma á eftir og fundu hvað hugleiðslan gerði þeim gott. Heiða segist alltaf hafa verið mikil ævintýramanneskja og haft gaman af því að skondrast eitthvert ein eða reyna eitthvað nýtt. Henni datt í hug að taka sér hlé úr sagnfræðinámi til þess að vinna eitt ár sem kennari í heimavistarskóla í Svarfaðardal, sem hún segir að hafi verið stórkostleg reynsla. Hún hefur oft ferðast ein til Spánar í málaskóla, til að vinna við barnapössun eða ganga Jakobsveginn. Hann gekk hún t.d. ein sumarið 2006 og segir það hafa verið frábæra upplifun. Hún kynntist þar fjölskrúðugri flóru af fólki, en fékk um leið heilmikinn tíma í að ganga ein og hugsa, hnusa af náttúrunni og fylgjast með mannlífinu. Sumarið á eftir gekk hún sömu leið með æskuvinkonunum og segir það hafa verið gerólíka reynslu – mikið fjör – en að hún hafi ekki kynnst jafn mörgu áhugaverðu fólki, því að fólk nálgist mann síður ef maður er í hóp.
„Ég hef í raun alltaf haft mikla þörf fyrir einveru. Inni á milli þess sem ég baða mig í félagsskap fjölskyldu og góðra vina, hef ég samt mikla þörf fyrir einveru. Að draga mig í hlé og hafa næði og þögn með mér sjálfri. Þurfa ekki að halda uppi samræðum eða almennt að tala við neinn. Ég man eftir því hvað mér fannst spurningin furðuleg, þegar ég hjólaði frá heimili mínu í Hraunbæ í vinnuna á Reykjalundi, sem var svona 45 mínútna hjólatúr fyrir mig, en vinkona spurði mig hvort mér leiddist ekki hrikalega á leiðinni! Fyrir mér var þetta bara góð stund. Svona erum við nú öll ólík.
Þess vegna á það mjög vel við mig að búa í kyrrðinni í Grímsnesinu, þangað sem ég flutti fyrir þremur árum með manni og þremur öldruðum köttum. Ég er hér ein, oft dögum saman, því maðurinn vinnur sem leiðsögumaður og fer stundum í vikulanga túra. Það á vel við mig að dunda mér hér ein heima, með köttum, fuglum og músum, og sinna hugðarefnunum.“
Greindist með góðkynja æxli í höfði
Heiða segist alltaf hafa haft áhuga á náttúrulækningum, hafa keypt sér bókina Íslenskar lækningajurtir um tvítugt og farið á sveppatínslunámskeið og lært innhverfa íhugun. Þegar hún var 29 ára gömul greindist hún með góðkynja æxli í höfði og fór í kjölfarið dýpra í alls kyns náttúrulækningar til að reyna að stöðva vöxtinn. Hún fór mikið í nudd, höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun, spáði í næringu og leitaði í hugleiðslu og jóga. Allt þetta gerði að verkum að henni leið betur, en æxlið hélt áfram að vaxa og á endanum var það fjarlægt með skurðaðgerð í Svíþjóð.
„Lof sé guði fyrir vestræn læknavísindi, en stundum eru þau það eina sem virkar. Ég er þannig mikil talskona samvinnu milli heilbrigðiskerfa, eins og tíðkast t.d. í Sviss, Þýskalandi og Austurríki þar sem margir eru með það góðar sjúkratryggingar að þeir fara í panchakarma-meðferð til t.d. Indlands eða Srí Lanka og sjúkratryggingarnar þeirra borga. Panchakarma er læknismeðferð ayurveda-vísindanna, sem notuð er þegar líkaminn er kominn í mikið ójafnvægi. Þessi meðferð styrkir líkamann til sjálfsheilunar sem getur stutt mjög vel við lyfja- og geislameðferðirnar Vestrænu. En stundum eru það náttúrulækningarnar sem eru það eina sem virkar. Bæði kerfin hafa þó sínar takmarkanir.“
Sonurinn greindist með Tourette’s
Það var þó ekki fyrr en sonur hennar greindist, níu ára gamall, með ólæknandi taugaröskun sem kallast Tourette´s sem hún fór á kaf í náttúrulækningarnar. Þegar hann var orðinn það slæmur að það þurfti að fara að prófa lyf, brugðu hún og barnsfaðir hennar á það ráð að nota leið náttúrulækninga. Hún segir að þau hafi vitað að oft fylgi þessum lyfjum óæskilegar aukaverkanir og að árangur gæti dregist á langinn meðan verið væri að prófa stærð skammta o.s.frv.
Við breyttum mataræði og lífsstíl, losuðum heimilið við eiturefni og notuðum bætiefni með frábærum árangri
„Ég fylgdi þannig bók, sem ég uppgötvaði á netinu, bandarískra samtaka hefðbundinna lækna og náttúrulækna sem vinna saman að lækningu við Tourette´s. Við fylgdum bókinni í þaula og þeim ráðum sem þar voru gefin. Við breyttum mataræði og lífsstíl, losuðum heimilið við eiturefni og notuðum bætiefni með frábærum árangri. Fórum með drenginn í markvissa hreyfingu ásamt höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð ásamt fleiru. Kippirnir og kækirnir sem höfðu gert honum lífið leitt voru á bak og burt eftir rúman mánuð. Ég skrifaði grein um þessa aðferð til að fleiri gætu farið þessa leið og sú grein leiddi til þess að fjöldi fólks hafði samband við mig til að leita ráða og eitthvað var um að mæður kæmu í heimsókn til mín til að fá að líta í skápana og sjá hvað ég notaði af matvælum.
Til að verða betur fær um að hjálpa fólki vildi ég mennta mig í fræðunum og fór í nám til Kanada, í skóla þar sem heitir Canadian College of Naturopathic Medicines, og fór þar í efnafræði og lífefnafræði til að undibúa mig undir frekara nám í náttúrulækningum. Ég lauk þessum forkröfuáföngum, en hélt þó ekki áfram þar, því hrunið hafði gert að verkum að skólagjöldin ruku upp. Þess í stað fór ég í þriggja ára nám í næringarþerapíu, Naturopathic Nutritional Therapy, í enskan skóla, Natural Healthcare College á Englandi. Þar var kennt í lotum og því þurfti ég ekki að búa á Englandi meðan á náminu stóð. Þegar ég var í náminu í Kanada, kynntist ég indverskum lækni sem stundar fornar lækningaraðferðir Indlands.
Þegar óútskýrð veikindi herjuðu á son minn, fjórum árum eftir að hann jafnaði sig á Tourette’s, var ég stödd í Kanada og þessi indverski læknir tók hann í meðferð og setti hann á mjög einhæft, heilandi fæði og setti honum fyrir að gera vissar jógaæfingar þrisvar á dag og hreinsa meltingarveginn með saltvatnsaðferð. Með aðferðum indverska læknisins losnaði sonurinn loks við verkina og orkuleysið sem hafði hrjáð hann í nokkra mánuði, en læknar heima höfðu reynt margt og voru orðnir ráðþrota því ekkert dugði. Það má geta þess að síðan eru liðin 12 ár og syninum hefur varla orðið misdægurt síðan.
Ayurveda-vísindin eru svo praktísk og skemmtileg og geta útskýrt margt
Þessi reynsla gerði að verkum að ég fór í jógakennaranám til að geta notað aðferðir jóga samhliða næringarþerapíunni, enda vinnur þetta tvennt mjög vel saman. Í næringarþerapíunáminu var örlítið fjallað um ayurveda, indversku lífsvísindin sem eru talin elstu heilbrigðisvísindi mannkyns. Ég hreifst af ayurveda-vísindunum og ákvað síðan fyrir tveimur árum að mennta mig í þeim fræðum og fór alla leið og skráði mig í virtan skóla sem heitir Kerala Ayurveda Academy, þar sem fylgt er hefð Kerala-héraðs á Indlandi, en þar liggja rætur ayurveda. Þessi skóli er með höfuðstöðvar og lækningastöðvar á Indlandi og rekur tvö útibú í Bandaríkjunum. Nú er ég í framhaldsnámi í ayurveda-lífsvísindunum til að geta betur greint rætur veikleika hjá einstaklingum ásamt því að farið er dýpra í virkni jurta sem notaðar eru við heilun líkama og hugar. Ayurveda-vísindin eru svo praktísk og skemmtileg og geta útskýrt margt.
Eftir að ég lærði ayurveda horfi ég á fólk og aðstæður í kringum mig með öðrum og skilningsríkari augum. Ég horfi á stjórnmálamenn og finnst borðleggjandi að þar sé kannski kapha-týpa á ferðinni eins og t.d. Sigurður Ingi, eða vata-týpa eins og hún Katrín Jakobs, eða pitta eins og hann Bjarni Ben. Mjög skemmtilegt. Sem dæmi get ég tekið sjálfa mig – ég er haldin óslökkvandi fróðleiksfýsn og nýjungagirni. Ég hef nánast alla ævi verið í einhverju námi – sem ég hef núna lært að stýrist að nokkru leyti af því að mín meðfædda líkamsgerð er vata – þ.e. vata-orkan er sú orka sem er ríkjandi í mínum líkama og huga. Það er glíma að halda þessari orku í skefjum, en hún stýrir einnig hreyfingu og breytingum sem hafa verið ansi einkennandi á minni ævi fram til þessa.“
Hefur búið á 31 mismunandi stað
„Ég held að fáir toppi mig í fjölda heimila. Ég hef búið á 31 mismunandi stað hingað til, sem minn ástkæri eiginmaður á erfitt með að ímynda sér, en hann er gerólíkur mér í þessum þeytingi og breytingagleði og hefur aðeins búið á 11 stöðum um ævina. Þessar orkutegundir sem stýra virkni líkama okkar og huga kalla ayurveda-vísindin vata, pitta og kapha. Allir eru með allar þrjár orkutegundirnar í sér, en í mismiklum mæli. Þær ríkja síðan í mismunandi líkamshlutum og líkamsstarfsemi hjá hverjum og einum. Út frá þessu er síðan líkamsgerð hvers og eins skilgreind. Þannig er ayurveda-heilsufræðin meira einstaklingsmiðuð en önnur heilsuvísindi, því það er ekki það sama sem hentar hverjum og einum og alls ekki í hvaða aðstæðum sem er eða á hvaða árstíð sem er, svo eitthvað sé nefnt.
Fyrir suma virkar vel að hætta að væla og byrja að kæla, en fyrir aðra er það hreinlega veiklandi fyrir heilsuna. Eins með ketó o.s.frv.
Eins meðal getur þannig verið annars eitur, eins og sagt er. Þannig er það alls ekkert sniðugt að borða mikið hrásalat og hráfæði fyrir þá sem eru mikið vata og allra síst á veturna í íslenska kuldanum. En fyrir þá sem eru mikið pitta getur það verið fínt í hitanum á sumrin. Tískusveiflur í heilsugeiranum eru því missniðugar fyrir fólk. Fyrir suma virkar vel að hætta að væla og byrja að kæla, en fyrir aðra er það hreinlega veiklandi fyrir heilsuna. Eins með ketó o.s.frv.“
Núllstilla líkamann
Heiða segist oft vera með jóga- og djúpslökunarnámskeið heima hjá sér í Grímsnesinu, þar sem hún er með jógatjald úti í garði, en stundum er hópurinn inni í rúmgóðri stofunni ef veður er leiðinlegt og á veturna. Hún heldur regluleg námskeið í samvinnu við Systrasamlagið og í Síðumúla þar sem hún er með skrifstofu.
Reglulega býður hún upp á vor- og hausthreinsun í anda ayurveda. Þá er fæði, jurtir og æfingar notaðar til að leiða eitur- og úrgangsefni út úr líkamanum og síðan er styrkur líkamans byggður jafnt og þétt upp aftur. Þannig má segja að verið sé að núllstilla líkamann aftur eftir það ójafnvægi sem hefur náð að safnast upp með óhollri næringu og lífsstíl. Í ayurveda er mælt með slíkum hreinsunum einu sinni til tvisvar á ári.
Ekki hægt að forðast sársaukann endalaust
Að missa það sem okkur er kært skapar sársauka
„Mér hefur verið hugleikið undanfarið hvernig hugarfarið getur annaðhvort styrkt okkur eða veiklað. Hvaða innréttingar við höfum valið í hugarhúsið okkar. Fyrir mér er lífið endalaust hindrunarhlaup og ég reyni að forðast að líta á það sem sjálfsagt mál að allt leiki alltaf í lyndi hjá mér og mínum. Lífið er ekki þannig og ef svo væri myndum við sennilega verða leið á endanum. En hindrunarhlaupið er þannig, að það er hindrun sem þú stekkur yfir og síðan er sléttur kafli þar sem þú brunar áfram án erfiðleika og síðan önnur hindrun. Maður verður að njóta sléttu kaflanna, vitandi að það mun koma önnur hindrun, því ekkert er í heiminum eilíft eins og svo mörg austræn heimspekikerfi benda okkur á.
Við munum aldrei vera að eilífu ung, falleg eða heilsuhraust. Við erum sífellt að tapa einhverju, hvort sem það er æskuþokki, heilsa, æra, starf, maki, vinir, foreldrar og börn. Að missa það sem okkur er kært skapar sársauka. En við þurfum að halda áfram vitandi að þetta er eðli tilverunnar. Hlutir verða til og hlutir eyðast. Eins og hringrás náttúrunnar.
Við getum iðkað reglulega hugleiðslu og hreyfingu og gefið líkama og huga fæðu sem styrkir okkur frekar en veiklar okkur
Ekki er hægt að forðast sársaukann endalaust, en með því að vera undirbúin andlega og samþykkja að það munu verða hindranir, getum við þjálfað okkur í að stökkva yfir þær eins auðveldlega og hægt er. Við getum iðkað reglulega hugleiðslu og hreyfingu og gefið líkama og huga fæðu sem styrkir okkur frekar en veiklar okkur. Með góðri næringu, hreyfingu, reglulegri andlegri iðkun stælum við líkama og huga og erum betur í stakk búin til að takast á við hindranir og erfiðleika.“
Fólk leitar til hennar með meltingarkvilla, orkuleysi og kvíða
Þegar meltingu er kippt í lag, batnar orkan og andleg líðan um leið
Meltingarkvillar er ansi algengir og leitar fólk mikið til hennar með hægðatregðu, fæðuóþol, brjóstsviða og slíkt. Einnig eru margir að glíma við liðabólgu, orkuleysi og andlega vanlíðan. Hún segir að það sé ótrúlegt hversu mikið sé hægt að bæta andlega líðan í gegnum betri næringu, enda hafa vestræn læknavísindi núna uppgötvað áhrif þarmaflórunnar á andlega líðan. Þetta vissu ayruveda-vísindin fornu fyrir 5.000 árum og lýsa litlu verunum í iðrum okkar sem hafa áhrif á heilann og taugakerfið. Í ayurveda er enda lögð mikil áhersla á ristilheilsu í andlegum veikindum.
„Breyting á mataræði og lífsstíl hefur líka margoft leitt til betri andlegrar líðunar hjá þeim sem leita til mín. Oft er margt sem hrjáir manneskjuna og melting er kannski eitt vandamál af mörgum. Þegar meltingu er kippt í lag, batnar orkan og andleg líðan um leið, því meltingin er miðstöðin í líkama okkar þar sem orka er mynduð og öll önnur starfsemi er háð því sem þar fer fram.
Ayurveda-fræðin hafa líka reynst mér mjög vel í glímunni við einkenni breytingaskeiðs, eins og hitabylgjur sem koma reglulega yfir landið og svefntruflanir. Ég veit hvað ég þarf að gera þegar sú óáran byrjar og ástandið snarlagast með því að fylgja ströngu mataræði og gera æfingar.“
Lögmálið í ayurveda til að halda heilsu og lifa góðu lífi býður okkur að flæða með hrynjanda náttúrunnar. Ayurveda gengur mikið út á það. Þannig erum við hluti af náttúrunni og hún hefur áhrif á okkur, hvort sem það eru árstíðir, tími dagsins, matvæli, jurtir eða hugsanir. Þannig skiptir t.d. máli hvenær við gerum hlutina. Það er ekki sama hvort þú borðar hrásalat í sumarhita eða vetrarkulda hvenær þú ferð á fætur og að sofa. Allt hefur þetta ólík áhrif á líkamann og hugann. Ef þú ferð gegn hrynjandanum fer dýrmæt orka líkamans í það. Rétt eins og ef þú kýst að brölta upp á móti straumnum í ánni.
Það tekur tíma að brjóta upp vana
Við vitum að eitthvað er óhollt og veiklar okkur, en kjósum samt að gera það
„Margir telja ekkert virka þegar heilsubrestur bankar upp á, nema vestræn lyf og í mesta lagi sálfræðimeðferð, en ekkert meira út fyrir boxið. Aðrir eru komnir það langt að sjá að næringin hefur líka heilmikil áhrif á heilsu, en finnst samt allt tal um bætiefni og slíkt öfgafullt. Síðan er þeim að fjölga mikið sem nota bætiefni markvisst, eins og steinefni, olíur og D-vítamín, en dettur ekki í hug að gefa hugleiðslu eða jurtum séns. Það finnst þeim allt of langt gengið. En nú er sem betur fer að fjölga í þeim hópi sem áttar sig á og hefur fundið það á eigin skinni að hugleiðsla, jógaæfingar og jurtir hafa einnig heilmikil áhrif á andlega og líkamlega heilsu og hlakka ég til að vinna með fólki sem tilbúið er að hafa áhrif á eigin heilsu með þessum aðferðum náttúrulækninga.
Ayurveda segir að ein helsta ástæðan fyrir veikindum sé glæpur gegn gáfum. Við vitum að eitthvað er óhollt og veiklar okkur, en kjósum samt að gera það, þrátt fyrir að vita betur. Ekki nægir að taka inn pillur og vonast til þess að lækning fáist við öllu. Fólk verður sjálft að leggja sitt af mörkum, nota gáfurnar og gera það sem þarf að gera. Lagfæra mataræðið, hreyfa sig, hugleiða og gera slökunaræfingar. Það tekur tíma að brjóta upp vana og þess vegna er gott að taka eitt skref í einu og bæta góðum siðum hægt og bítandi inn í dagsrútínuna. Það er kannski hægt að setja sér það markmið að bæta einum heilsueflandi vana inn í dagsrútínuna á mánuði.“
Hægt er að skoða vefsíðu Heiðu hér.