Anna Lóa Ólafsdóttir er eigandi Hamingjuhornsins, kennari og náms- og starfsráðgjafi með diplóma í sálgæslu. Hún hefur skrifað pistla í rúm 10 ár og gefið út eina bók; Það sem ég hef lært. Hún er móðir, tengdamóðir og amma, starfar hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði og var að klára jógakennaranám hjá Yogavin sem hún segir að hafi gefið henni ótrúlega mikið. Anna Lóa kom í spjall við Mannlíf um erfiða reynslu, sorg, sigra og áskoranir. Hún segir okkur að hún vilji landsátak í tengslavinnu.
Einfaldir þættir sem geta aukið hamingju okkar
„Hamingjuhornið varð til fyrir rúmum 10 árum þegar ég byrjaði að skrifa pistla í Víkurfréttir í Reykjanesbæ. Í kjölfarið fór ég að skrifa á Facebook og lesendahópurinn hefur vaxið og dafnað í gegnum árin. Tilgangurinn frá upphafi hefur alltaf verið sá að hvetja lesendur til að líta inn á við til að auka hamingjuna, í stað þess að bíða eftir því að einhverjir aðrir eða eitthvað annað færi okkur hana á silfurfati. Rannsóknir hafa sýnt að það eru frekar einfaldir þættir sem geta aukið hamingju okkar, eins og að iðka þakklæti, vinna í sjálfstraustinu, eiga góða vini, finna tilgang með lífi okkar og upplifa að við séum við stjórn en séum ekki að lifa lífi sem aðrir velja fyrir okkur.“
Þurfum að minnka streituna í lífi okkar eins og við getum, því líkaminn er í mikilli streitu fyrir og við þurfum að virða það
Anna finnur að margir hafi verið að glíma við „Covid-þreytu“. „Þegar við höfum farið í gegnum óvissutíma myndast spenna í líkamanum. Svo þegar það sér fyrir endann á óvissutímanum og við slökum á, er rétt eins og líkaminn taki af okkur ráðin og segir; hei, ég er búin að vera til staðar fyrir þig í gegnum þetta tímabil, nú þarf ég að fá smá hleðslu! Ráðið sem ég mundi gefa ÖLLUM í dag, er að fólk hugi að því hvernig það ætlar að hlaða batteríin eftir þetta erfiða tímabil. Við þurfum að vanda okkur og velja það sem við vitum að geri okkur gott, þurfum að minnka streitu í lífi okkar eins og við getum, því líkaminn er í mikilli streitu fyrir og við þurfum að virða það. Svo skilaboð mín eru; njótum þess á heilbrigðan hátt að jafna okkur eftir síðustu tvö ár. Því skiptir svo miklu máli að við skoðum hvert og eitt okkar, hvernig við getum tekið að móti vetri og vori á góðan en nærandi hátt, og að við bíðum með að taka stórar ákvarðanir þar til við erum komin í gott jafnvægi.“
Ráð til að feta veginn áfram og forvarnarpunktar
Anna talar um að það vanti efni þar sem fjallað er um sjálfstraust og samskipti, andlega og líkamlega líðan, áföll og erfiðleika og hvernig best sé að takast á við áskoranir. „Þegar ég bjó í Reykjanesbæ voru Suðurnesin að takast á við erfiða tíma. Varnarliðið fór árið 2006 og mörg hundruð manns misstu vinnuna og tveimur árum síðar fylgdi bankahrunið með þeim afleiðingum sem allir þekkja.
Ég starfaði sem ráðgjafi á þessum tíma og fékk vanlíðan og vonleysi fólksins beint í æð. Mig langaði að leggja eitthvað af mörkum og skrifa frá hjartanu um leiðir til að takast á við áskoranir lífsins. Það sem gerist þegar maður skrifar eða talar frá hjartanu, er að maður áttar sig á því, að það eru allir að fást við eitthvað og fólk fagnar því að geta tengt við sögur annarra og sjá að það eru fleiri að upplifa það sama.
Þá er ég ekkert síður að skrifa til mín þegar ég er að skrifa pistlana mína
Það er ekki nóg að birta áfallasögur einstaklinga, við þurfum líka að vera með einhver ráð til þeirra um að feta veginn áfram og forvarnarpunkta um hvernig sé hægt að auka seigluna og sáttina í lífinu svo einstaklingar séu betur undirbúnir þegar þeir mæta áskorunum. Þar fyrir utan, þá er ég ekkert síður að skrifa til mín þegar ég er að skrifa pistlana mína, en ég hef sjálf þurft á því að halda að skoða bjargráðin mín í gegnum erfið tímabil og deili með með öðrum því sem ég hef lært.“
Líkaminn geymir erfiðar upplifanir
„Þegar ég varð 29 ára var mér ráðlagt að eignast ekki fleiri börn eftir endurtekin fósturlát og því fylgdi ákveðin sorg sem ég kunni ekki að takast á við. En þar sem líkaminn geymir vel allar erfiðar upplifanir hef ég þurft að fara til baka, skoða áhrifin sem þetta hafði á mig og leyfa mér að finna til, án þess að dæma það. Þetta gerði ég með aðstoð fagmanneskju sem bjó til rými þar sem ég viðurkenndi að hafa upplifað bæði vanmátt og skömm á þessum tíma og þessa óþægilegu tilfinningu að ég væri eitthvað gölluð, en líka að ég hefði ekki leyfi til að syrgja þar sem ég átti tvo heilbrigða drengi.“
Anna útskýrir að þegar við upplifum skömm gefum við ekki rými fyrir samkennd og kærleika, sem er einmitt það sem við þurfum á erfiðum tímum. „Það tók mig tíma að huga að því hvernig mér leið og hvaða áhrif þetta hafði á mig, í stað þess að vera föst í því að aðrir hefðu nú lent í því verra og ég ætti því bara að harka af mér. Mín reynsla skiptir hins vegar ekki minna máli vegna þess.“
Ég er ör og lausnamiðuð að eðlisfari og munstur mitt í lífinu hefur svolítið verið að breyta aðstæðum mínum og gera eitthvað þegar ég upplifi vanlíðan
Þegar Anna var rúmlega þrítug missti hún föður sinn skyndilega og hún var rúmlega fertug þegar mamma hennar dó. „Ég skrifaði mikið á þessum tíma, en bara fyrir mig. Dagbókarskrif hafa reynst mér vel í gegnum erfiðustu áföllin og þá er það ekki það sem maður skrifar sem skiptir máli, heldur það sem gerist innra með manni þegar maður skrifar. Mér fannst erfitt að sitja í sorginni og geta ekki breytt neinu. Ég er ör og lausnamiðuð að eðlisfari og munstur mitt í lífinu hefur svolítið verið að breyta aðstæðum mínum og gera eitthvað þegar ég upplifi vanlíðan. En svo þegar maður missir einhvern sem er manni kær þá getur maður engu breytt og ekki getur maður flúið sorgina. En maður getur verið góður við sjálfan sig, stigið varlega til jarðar, beðið um stuðning og reynt að halda áfram án þess að deyfa líðan sína.
Ég mun aldrei halda því fram að mér hafi alltaf tekist að fara eftir þessu, en ég gerði mitt besta til að vera til staðar fyrir mig, syni mína og fjölskyldu og nota þau bjargráð sem ég hafði á þeim tíma.“
Sleppa takinu og byrja upp á nýtt
Hennar helstu áskoranir hafa verið að taka U-beygjur í lífinu þar sem hún hefur sleppt takinu og byrjað upp á nýtt. Hún hefur farið gegnum þetta ferli nokkrum sinnum og síðast þegar hún varð fimmtug. Hún upplifir sig enn í því ferli. „Þá fylgir maður því sem maður telur vera rétt fyrir sig og þau gildi sem maður vill lifa eftir, án þess að hafa nokkra vissu um hvernig það komi til með að ganga. Þetta hefur oft tekið mikinn toll af mér og ég man að síðast þegar ég tók U-beygju, leit ég í spegil og sagði við sjálfa mig; Anna Lóa, í alvöru, ertu tilbúin í þetta einu sinni enn! Ég hef lifað fjölbreyttu lífi, en hef líka verið dugleg að taka ábyrgð á því að breyta þegar mér hefur þótt ástæða til. Við getum haft áhrif á fólkið og aðstæður í kringum okkur, en þurfum sjálf að taka ábyrgð á því að velja hvernig lífi við viljum lifa.“
Hugrekkið og hennar helstu sigrar
Anna segir að hennar helstu sigrar tengist líka áskorunum hennar; „og því, segi ég, að hafa hugrekki til að taka U-beygjur. Ég sagði t.d. upp ágætlega launuðu starfi, flutti á stúdentagarðana með syni mína til að fara að mennta mig sem kennari. Það voru margir óvissuþættir og miklar breytingar fyrir okkur öll, en klárlega sigur fyrir mig. Að hafa kjark til að birta opinberlega það sem ég skrifa og seiglu til að skrifa pistla í hverri einustu viku í rúm 10 ár þrátt fyrir að fjölmiðlar landsins (nema Víkurfréttir) hafi sagt við mig á sínum tíma að það væri ekki eftirspurn eftir „svona“ efni.
Það var ákveðinn sigur að gefa sjálf út bók án þess að vita nokkuð um bókaútgáfu og selja hana svo í stóru upplagi í miðjum Covid-stormi, án þess að hafa dreifingaraðila eða auglýsendur á bak við mig. Að hafa vit á að kveðja verkefni sem eiga ekki lengur við mig og standa með sjálfri mér þegar á brattann hefur verið að sækja. Svo er auðvitað stærsti sigurinn að eiga syni, tengdadóttur og barnabarn sem ég elska út af lífinu, svo ég tali nú ekki um yndislegan systkinahóp, fjölskyldur þeirra og góða vini sem gera líf mitt svo innihaldsríkt.“
Við deyfum okkur með því að beina reiði fyrir utan okkur
„Ég held að við gætum verið duglegri að skoða okkur sjálf þegar okkur líður illa, í stað þess að benda á umhverfið eða fólkið í kringum okkur. Þurfum að þora að segja hvernig okkur líður og byggja þannig upp tengsl við aðra, í stað þess að vera svona dómhörð á allt og alla. Þegar við erum að fara í gegnum krefjandi tíma erum við meira að hugsa um okkur sjálf og minna að huga að heildinni og þá byrjum við að gliðna í sundur. Við deyfum okkur jafnvel með því að beina reiði okkar gagnvart einhverju eða einhverjum fyrir utan okkur. Ekkert samtal á sér stað, engin tengsl, bara ásakanir eða ofbeldi. Öskrum mikið – hlustum lítið. Ég vel að lifa ekki þannig. Með því að viðurkenna að líðan okkar er alls konar og við séum oft að upplifa vanmátt og óöryggi, aukum við líkur á tengslum sem við þurfum svo sannarlega á að halda í dag.
Það er erfitt að viðurkenna vanmátt sinn, sérstaklega þegar dómstóll götunnar gerir lítið úr honum. Þess vegna eru margir í dag farnir að hugsa sig tvisvar um áður en þeir gefa færi á sér opinberlega. Þeir sem hafa hugrekki til að deila erfiðum sögum, þurfa umfram allt að upplifa öryggi og tengsl. Við deilum með þeim sem geta veitt okkur öryggistilfinningu og hafa burði til að tengjast okkur á heilbrigðan hátt.
Ég held að eitt af mikilvægari „bóluefnunum“ í dag sé heilbrigð, jákvæð og uppbyggileg tengsl
Ég vildi óska þess að við tækjum okkur saman og værum meira til staðar fyrir hvert annað. Við erum lítið land og höfum alla burði til að hlúa vel að fólkinu sem hér býr. En við þurfum að gera það saman, það er enginn sem gerir þetta fyrir okkur. Ég held að eitt af mikilvægari „bóluefnunum“ í dag sé heilbrigð, jákvæð og uppbyggileg tengsl. Við þurfum landsátak í tengslavinnu segi ég! Þarf ekki að vera flókið að efla tengslin, en það sem ég geri er:“
Góð ráð til að huga að andlegu hliðinni:
- Minni sjálfa mig á að þegar mig langar ekki að hitta neinn þá þarf ég mest á því að halda.
- Stunda útivist en 15 mínútur í náttúrunni duga t.d. til að fá fram heilunaráhrif. Göngutúr með vini getur gert kraftaverk.
- Iðka þakklæti fyrir það sem lífið hefur fært mér – skrifa það jafnvel í dagbókina.
- Deili líðan minni með einhverjum sem ég treysti og er til í að hlusta og gerir ekki lítið úr því sem ég er að upplifa.
- Afmarka fréttainntöku og samfélagsmiðlanotkun. Heilinn hefur neikvæða slagsíðu og eftir hálftíma þar, finnst mér allt vera að fara fjandans til.
- Hlusta á uppbyggilegar bækur. Er núna að hlusta á Love Your Enemies eftir Albert C. Brooks, en hann deilir áhyggjum mínum um tengslaleysi og fyrirlitningarmenninguna sem er í gangi í heiminum í dag.
- Er í kringum fólk sem lifir heilt í sér og hefur hugrekki til að vera það sjálft með kostum og göllum.
- Skrifa og deili með öðrum, sem hefur verið mikilvægt bjargráð fyrir mig síðustu ár.
- Svo hvet ég lesendur til að kíkja í Hamingjuhornið mitt en ég hef svo oft sagt, að lesendahópurinn minn er einstakur, sýnir mér og öðrum bæði virðingu og þakklæti sem skiptir ekki litlu máli í dag.