Karlmaður á fertugsaldri sem lögreglan á Suðurnesjum handtók í Flugstöð Leifs Eiríkssonar fyrr í mánuðinum reyndist vera með tæplega 300 grömm af metamfetamíni og 1600 stykki af sterkum lyfseðilsskyldum lyfjum í fórum sínum.
Tollgæslan stöðvaði manninn við komuna til landsins og fann pakkningu með metamfetamíninu sem var vafin föst við maga hans. Maðurinn lét ófriðlega við afskipti tollvarða og lögreglu. Hann var vistaður í fangaklefa en síðan úrskurðaður í gæsluvarðhald að skýrslutöku lokinni.
Maðurinn hefur áður komið við sögu hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Þá fundust fíkniefni við húsleit hjá honum, auk kylfu, rafbyssu og rúmlega tveggja milljóna króna í íslenskri og erlendri mynt, sem lögregla taldi vera ágóða af fíkniefnasölu. Einnig fundust níu lítrar af landa.
Rannsóknin nú snýr að brotum á lögum um ávana- og fíkniefni, brot á lyfjalögum og peningaþvætti.