Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Handtökuskipun gefin út á Siggu Kling: „Er samt ekki að meika neina líkamsleit“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég fékk handtökuskipun, fjóra daga á Hólmsheiðinni. Haltu á ketti hvað mér finndist ofsalega forvitnilegt að kíkja við og sitja inni í sveitinni í nokkra daga. Sennilega leiðist föngunum og fangelsisyfirvöldum vantaði einhvern til að hressa þá við, klappa á bakið og svona. Það er eina skýringin sem mér dettur í hug að þeir hafi áhuga á mér því mér skilst að það sé þvílíkt löng bið eftir afplánun,” segir Sigga Kling, lífskúnstner með meiru.

„Mér finnst agalega gaman að horfa á heimildamyndir um fangelsi og var bara spennt fyrir þessu. Ég er samt ekki að meika neina líkamsleit, ekki séns að einhver fái að skoða undir júllurnar á mér!” segir Sigga skellihlæjandi.

Kom hágrenjandi heim

Sigga segist vera löghlýðin með afbrigðum og ekki nenna neinu veseni en hún hafi lent nýlega í því að vera stoppuð af lögreglunni fyrir að vera yfir hraðamörkum.

„Sem er merkilegt því ég keyri eins og túristi, alltof hægt og með hasardljósin á svo það er sífellt verið að flauta á mig. Ég er til dæmis alveg skíthrædd við stóra bíla og kom heim hágrenjandi um daginn þegar einn af þessum stóru trukkum með risadekk hræddi mig til dauða. Hann var næstum búinn að keyra yfir mig, held ég.“

Sigga sést sjaldan hattlaus enda smekkkona.

„Ég ráðlegg alltaf konum sem eru í makaleit að finna sér mann sem er góður við aðra í umferðinni og öskrar ekki á fólk eins og mig. Það segir margt um karlmann hvort hann kemur vel fram við fólk sem ekki er að gera hlutina rétt”.

- Auglýsing -

Sigga segir að hún muni að öllum líkindum ekki sitja inn þar sem hún sé ekki spennt fyrir að fara á sakaskrá.

„Ætli ég endi ekki á að borga sektina í staðinn. Allavega mælir vinkona mín sem er lögfræðingur með því. En ég ætla pottþétt að ramma inn handtökuskipunina og finna veglegan stað uppi á vegg fyrir hana”.

Hin alíslenska redding

- Auglýsing -

Sigga er spennt fyrir sumrinu og framtíðinni almennt. „Ég vona að við dettum ekki í sama normið og fyrir þessa blessuðu Covid óværu því normið er svo leiðinlegt. Núna er yfir svo mörgu að gleðjast sem maður hugsaði ekki út í áður, maður getur til dæmis alveg pissað í sig af gleði yfir að losna við grímuna. Nú er tækifærið til að hugsa hlutina upp á nýtt. Á meðan þetta gekk yfir fundum við ný tækifæri og nýjar leiðir til að lifa þessa ömurð af. Ég var til dæmis atvinnulaus í heilt ár en lærði bara að hugsa hlutina upp á nýtt og fann leiðir til að gera hitt og þetta.

Við skulum ekki gleyma því að hið alíslenska „þetta reddast” er ekki til í neinu öðru tungumáli.

 

Sigga er í bullandi stuði fyrir sumrinu.

Fyrir utan reiða bílstjóra er ekki margt sem pirrar Siggu. Nema biðraðir. „En lærði það í tveggja metra reglunni að bíða í biðröðum sem þroskaði þolinmæði mína. Svo gleymdi ég alltaf grímunni og komst ekki inn í matvöruverslanir svo ég léttist um 7 kíló af gleymskunni einni

Hættu að vera leiðinleg!

Sigga heldur fyrirlestra út um allt, í skólum, stofnunum og fyrirtækjum þar sem hún hvetur til jákvæðni og gleði. „Það er ekki eðlislægt að vera jákvæður, það er ákvörðun sem maður þarf að taka með sjálfum sér á hverjum degi. Ég gæti skilið við karl og komið uppkomnum krökkum úr húsi en ég þarf að lifa með sjálfri mér. Stundum segi ég við sjálfa mig á morgnana: „Sigga! Ef þú hættir ekki að vera svona leiðinleg fer ég ekki út með þér í dag. Tek sjálfa mig í hnakkadrambið og trixa mig til. Og hlæ að sjálfri mér.”

Sigga er reyndar síhlæjandi. Og alltaf óaðfinnanlega útlítandi.

„Mottóið er að vera alltaf tilbúin til að fara í fimmtugsafmæli með engum fyrirvara. Þú myndir ekki hitta mig á Esjunni nema með bleikan lippara. Ekki séns”.

Spræk eins og nýhreinsaður hundur

Húmorinn er allt að mati Siggu. Hún getur ekki lifað án hans og segir neikvæðnina éta fólk upp.

„Það bjargar manni að hressa aðra við enda erum við öll ein heild. Og það er blessunarlega smitandi. Ég er jafn spræk og nýhreinsaður hundur eftir þennan faraldur og gleðst meira yfir litlu hlutunum. Ég held að við höfum lært margt og munum hætta að böðlast um á þessu endalausa hamstrahjóli við vorum föst í. Við munum snerta meira, elska meira, kunna að meta landið okkar og finna til meiri samkenndar hvort með öðru, ekki síst gamla fólkinu. Sjáðu til dæmis börn! Ef þau fæ ekki snertingu deyja þau og sjálf erum við ekkert annað en stór börn sem þurfum að gefa hvort öðru klappa á bakið. Sjálf er ég valhoppandi af kæti og knúsa ókunnuga núna þegar ég fæ loksins tækifæri til“.

Mottóið er að vera alltaf til fara eins og maður sé að fara í fimmtugsafmæli segir Sigga sem aldrei sést án varalits.

Ekkert samviskubit í sumar!

Komandi sumar er Siggu mjög í huga þessa dagana. „Það er alltof margi fullir af samviskubiti á sumrin og gera þá kröfu á sjálfa sig að vera á yfirsnúningi alla daga í sumardressi, fullir af fyrirætlunum um að skemmta börnunum hægri og vinstri á sólardögum. Ég segi bara eins og í AA: Taka einn dag í einu. Það þarf svo lítið til til að finna hamingjuna. Ég hef til dæmis farið reglulega upp að Hvaleyrarvatni síðustu 40 ár. Þar veiðum við síli, grillum og börnin sulla. Heillandi! Það er yndislegt og margar bestu minningar barnanna minna eru þaðan. Svo má ekki gleyma hvítu ströndinni á Álftanesi sem er í beinu flúkti við Snæfellsjökulinn. Það er bara nákvæmlega eins og að vera komin til útlanda“.

Sigga aftekur með öllu að eyða þurfi miklu til að njóta komandi sumardaga.

„Ég fór oft í labbitúr í Heiðmörkina með krakkana þegar ég var ung og blönk. Setti bara djús á brúsa og smurði nesti og pakkaði í kerruna. Þetta er hlutirnir sem gleðja börnin okkar, þau þurfa ekki mikið, það þarf bara að skilja þau, vera góð þau og elska þau. Ég elska börn út af lífinu og er svo heppin að eiga stóran hóp af barnabörnum“.

Lifði af fallhlífastökkið af

Hún er full af plönum.

„Ég viðurkenni reyndar að ég er fíkill í alls kyns loppumarkaði, ég kaupi svo mikið að húsið er smekkfullt. Núna kem ég ekki meiru fyrir og er búin að redda mér sendiferðabíl á morgun og ætla að fylla hann af barnafötum og dóti og selja í gullinu mínu í Holtagörðum um helgina, það er svo gott fyrir umhverfið að geta endurnýtt og ég ætla að selja þetta á einhverja hundraðkalla. Þá get ég byrjað að safna aftur.“

Hvað annað dreymir Siggu um? „Ég er með „bucket lista”. Sumt af því er búið. Ég fór til dæmis í fallhlífastökk og grenjaði úr mér augun þegar ég kvaddi krakkana, en þorði því samt. Og lifði það af. Var samt hræðilegt. Næst er það sjósund, það er í næstu viku. Svo langaði mig að koma upp upp aðstöðu fyrir hlaðvarp heima hjá mér en ég ætla að byrja með alls konar útsendingar. Húmor og skemmtilegheit með alls konar fólki. Ég minntist á það við æskuvin minn sem bara gekk í málið og nú er allt reddí“.

Sigga þarf að hlaupa. Hún er á sífelldum hlaupum. Orkan og lífsgleðin er endalaus.

„En má ég bæta einu við í lokin áður en ég rýk? Hættið að slá allan gróður niður í svörð! Leyfum okkur smástund að njóta þess grass og þeirra blóma sem vilja blessunarlega byggja landið okkar eftir langan vetur. Plís,“ segir Sigga í sumarskapi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -