Sunnudagur 27. október, 2024
2.1 C
Reykjavik

„Hann hefði átt að fá að lifa“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Frá fallegu húsi við Suðurgötu 10 heyrast hamarshögg og vélsagarhvinur, enda allt á fullu við að aðlaga húsnæðið að framtíðarstarfsemi Bergsins Headspace sem stefnt er því að opna í júnímánuði. Auk tveggja eða þriggja iðnaðarmanna sinnir Sigurþóra Bergsdóttir, framkvæmdastjóri og upphafskona að Berginu, vinnu sinni og dagarnir eru langir um þessar mundir. Sigurþóra sjálf missti son sinn sem svipti sig lífi fyrir þremur árum í kjölfar kynferðisofbeldis.

 

„Við viljum að það verði sem léttust skrefin að stíga hingað inn og að hér verði gott að vera,“ segir Sigurþóra og brosir en það leynir sér ekki að Bergið og sú starfsemi sem þar er áætluð er henni hjartans mál.

Sigurþóra segir að Bergið Headspace byggi í grunninn einfaldlega á þeirri hugmynd að það þurfi að vera til sérstakur staður þar sem ungt fólk í hvers konar vanda geti komið og fengið þjónustu.

„Í Danmörku segja þau að allir hafi rétt á því að hafa eyra, stað þar sem er hægt að tjá sig og það er einhver sem hlustar. Í Ástralíu, þaðan sem þetta fyrirbæri Headspace er komið, er lögð áhersla á að það að vera ung manneskja er sérstakt aldursskeið og að það þurfi með einhverjum hætti að aðlaga þjónustuna að því. Það þurfi að búa til stað sem þessi aldurshópur vill sækja og treystir þeim sem þar eru til þess að hafa skilning á þeirra þörfum. Þannig að Headspace er í raun ekkert eitt, heldur miði við aldurshópinn og að hér hafi hann rétt á lágþröskuldaþjónustu.“

Það er eftirtektarvert að fólkið sem stendur að baki Berginu Headspace var í raun búið að móta hugmyndina án þess að þekkja á þeim tíma til sambærilegrar starfsemi erlendis. „Við vorum komin með grunninn þegar við svo kynntumst Headspace sem slíku. Okkar hugmyndafræði og markmið var alltaf að búa til stað þar sem ungt fólk, upp að 25 ára, gæti komið og sótt sér grunnþjónustu á sínum forsendum. Komið og fengið stuðning, aðstoð og faðmlag alveg óháð því á hvaða stað það er í sínu lífi þegar hingað er komið.“

Stundum líður okkur bara illa

- Auglýsing -

Sigurþóra bendir á að til þess að fá aðstoð innan kerfisins hafi fólk þurft að vera með sjúkdóm eða einhvers konar greiningu. „Þú þarft að vera fíkill eða með klíniskan kvíða eða annað – það verður í hið minnsta að heita eitthvað svo þú getir fengið þjónustuna. Þessu viljum við losna undan. Þó að greiningar geti verið góðar eru þær ekki okkar markmið heldur að vera til staðar og beina á réttar brautir. Þótt þú sért með kvíða þá ertu ekki endilega með klínískan sjúkdómskvíða. Þú ert ekki endilega með einhverja greinanlega röskun þó að þér líði illa. Stundum líður okkur bara illa.

Sigurþóra segir að Bergið Headspace byggi í grunninn einfaldlega á þeirri hugmynd að það þurfi að vera til sérstakur staður þar sem ungt fólk í hvers konar vanda geti komið og fengið þjónustu.

Slíkt er bara hluti af því að vera ungmenni og öll þekkjum við það að hafa farið í gegnum miserfið skeið og stundum ekki liðið neitt sérstaklega vel, jafnvel illa. En það þarf ekki að þýða að eitthvað stórkostlegt sé að. Það getur einfaldlega verið hluti af því að vera á þessum aldri að takast á við lífið. Auðvitað getur verið að það sé eitthvað að en þá getur fyrsta skrefið verið að koma hingað og vera svo beint á rétta braut í framhaldinu.“

Aðspurð um hvort það fylgi því sérstaklega mikið álag að vera ungmenni í íslensku samfélagi í dag, segir Sigurþóra að það sé erfitt að fullyrða um slíkt. „Það er bara öðruvísi en það var fyrir fyrri kynslóðir. Að einhverju leyti er það erfiðara en að öðru leyti auðveldara. En er ekki alltaf sú kynslóð sem er uppi hverju sinni sú erfiðasta til þessa?“ segir Sigurþóra og brosir. „En það breytir því ekki við viljum alltaf gera eins vel og við getum gagnvart ungmennunum. Það er það sem skiptir máli.“

- Auglýsing -

Allir vissu að maðurinn var sekur

Það er skiljanlega hjartans mál fyrir Sigurþóru að vel takist til við stofnun Bergsins Headspace en sonur hennar, Bergur Snær Sigurþóruson, svipti sig lífi þegar hann var aðeins 19 ára, í mars árið 2016. Bergur Snær hafði verið beittur kynferðisofbeldi og það sem dró hann til sjálfsvígs var áfallastreituröskun sem hann hlaut í kjölfar þess. Sigurþóra segir að það hafi verið erfitt að átta sig á þeim erfiðu aðstæðum sem Bergur Snær var í á sínum tíma. „Við vorum með ungling sem átti klárlega í erfiðleikum og við höfðum áhyggjur af honum. Hann flosnaði upp úr skóla, var að fikta við að reykja marjúana og svona vesen á honum. Síðan kom í ljós að hann hafði lent í mjög alvarlegu kynferðisofbeldi en það uppgötvaðist eftir að við vorum búin að vera að vandræðast með þetta í einhvern tíma.

„Ég hef talað mikið fyrir því að við breytum réttarstöðu þolenda í kynferðisbrotamálum sem er núna í umræðunni.“

Þá fór af stað ótrúlega erfitt ferli þar sem við biðum eftir ákæru á hendur gerandanum en það endaði með því að málið var fellt niður. Við fréttum að það væri búið að leggja fram ákæru á hendur manninum en þær fréttir að mál Bergs Snæs væri ekki á meðal þeirra brota sem ákært var fyrir þurftum við að sækja inn í kerfið eftir miklum krókaleiðum.

Ég hef talað mikið fyrir því að við breytum réttarstöðu þolenda í kynferðisbrotamálum sem er núna í umræðunni. Það er auðvitað algjörlega fáránleg staða fyrir þolendur að vera vitni í máli sem beinist gegn þeim og þeirra eigin líkama. Það er algjörlega galið.

„Það vissu allir og saksóknari meðtalinn að maðurinn var sekur um það sem Bergur Snær kærði hann fyrir.“

Ef við hefðum vitað af því að það stefndi í þessa niðurstöðu hjá saksóknara hefðum við auðvitað brugðist við því. Það vissu allir og saksóknari meðtalinn að maðurinn var sekur um það sem Bergur Snær kærði hann fyrir. Saksóknari bara valdi þann kostinn að sleppa því að ákæra vegna þess að hann var ekki viss um að hann gæti náð fram sakfellingu í kæru Bergs, eins og í hinum málunum sem þessi sami maður var kærður fyrir. Í þeim málum fékk hann fram játningu og því breyttu fleiri mál ekki neinu um þyngd dómsins. Ég get auðvitað ekkert fullyrt en óneitanlega hvarflaði að okkur að þess vegna hafi saksóknara ekki þótt taka því að taka slaginn í máli Bergs Snæs. Það er ömurleg tilhugsun.“

Aðgreinir sorgina og starfið

Sigurþóra segir að þau hafi alltaf verið að bíða eftir að þessu lyki til að komast áfram í því verkefni að vinna með áfallið. „Við vorum búin að gera ýmislegt en það var alltaf eins og Bergur Snær væri að bíða eftir því að klára þetta. Þannig að þetta gerði allt enn erfiðara og endaði með því að allt fór á versta veg. Bergur Snær svipti sig lífi vegna þess að hann missti sjónar á því að það gæti orðið betra.“

Nú eru liðin þrjú ár frá því að Bergur Snær féll frá og aðspurð um sína líðan í dag segir Sigurþóra að hún sé eins og hjá öðrum sem fara í gegnum slíka sorg. „Ég hef fengið mikinn stuðning og styrk. Hef farið sjálf í gegnum áfallameðferð í kjölfarið og það hefur skipt sköpum. Ég er svo heppin að það er ákaflega gott fólk í kringum mig og við vinnum með þetta á hverjum degi. Auðvitað er þetta ekki alltaf auðvelt, sorgin kemur og fer í bylgjum. Tímabilin eru misgóð og miserfið en almennt séð höfum við náð að halda áfram. En svo syrgjum við fjölskyldan drenginn okkar.“

Spurð hvort vinnan við að koma Berginu á laggirnar hafi hjálpað Sigurþóru í hennar sorg segir hún að það sé þá óbeint. „Ég hef viljað aðskilja þetta tvennt. Það sem ég er að gera með Berginu geri ég af hugsjón en auðvitað óbeint vegna þess sem ég lenti í. En það er ótengt sorgarferlinu með drenginn minn. Ég vil aftengja þetta tvennt; sorgina og það sem ég er að gera hér. Það sem ég er að gera hér skiptir máli og mun vonandi skipta máli fyrir mörg ungmenni og vonandi bjarga líðan og jafnvel lífum, þannig að auðvitað skiptir það máli fyrir mig persónulega. Gerir það að verkum að mér gengur betur að lifa frá degi til dags. En ég forðast að setja þá tengingu að andlát Bergs Snæs hafi haft einhvern tilgang. Það hafði engan tilgang. Hann hefði átt að fá að lifa. Átt að fá að vera hér með okkur.“

Missti meðvirknina

Kynferðisbrotamál hafa verið mikið í umræðunni síðustu ár og Sigurþóra hefur tekið virkan þátt í þeirri umræðu. Aðspurð um hvernig hún sjái fyrir sér að þessi málaflokkur muni breytast til hins betra, bendir hún á að stýrihópur forsætisráðherra um heildstæðar úrbætur varðandi kynferðislegt ofbeldi sé að vinna að skýrslu um þessi mál en Svala Ísfeld Ólafsdóttir, sem vakið hefur athygli á stöðu brotaþola, er meðal annarra í hópnum. Niðurstöður skýrslunnar og tillögur til úrbóta gætu leitt til breytinga á gildandi löggjöf og lagaframkvæmd.

„Ég veit ekki hvernig útfærslan verður en þetta miðar að því að þolendur kynferðisbrotamála verði aðilar að málum, fái aðgang að gögnum og geti fengið upplýsingar um gang mála. Eins varðandi niðurfellingarnar að þá hefur verið í gangi tilraunaverkefni á Akureyri þar sem niðurfellingar eru tilkynntar í viðtali en ekki bara með bréfi inn um lúguna sem er auðvitað hræðileg vinnuregla sem ég get ekki skilið hverjum datt í hug að framkvæma með þeim hætti. Það er svo galið.”

En skyldi þessi erfiða lífsreynsla hafa breytt Sigurþóru sem manneskju. „Já, hún hefur gjörbreytt mér. Það hefur stundum verið haft á orði við mig og ég held að það sé rétt að „gamla Siggan hafi soldið komið aftur,“ að ég hefði fundið aftur kjarnann í sjálfri mér. Maður nefnilega breytist í gegnum lífið en við þetta áfall sem ég fór í gegnum missti ég aðeins meðvirknina sem ég var búin að koma mér upp í gegnum árin.

Þegar maður stendur í þeim sporum að það versta sem getur gerst hefur gerst þá missir maður getuna til þess að reyna að eltast við það sem öðrum finnst. Ég fór að segja já og meinti já, sagði nei og meinti nei. Án þess að hafa samviskubit yfir því. Vonandi er þannig betra að eiga í samskiptum við mig þegar fólk veit nákvæmlega að hverju því gengur, án þess að ég sé með einhver leiðindi,“ segir Sigurþóra og brosir út í annað og bætir við að líkast til sé hún hugrakkari í dag. „Ég hefði aldrei farið af stað með eitthvað svona hérna áður.“

Engum vísað burt

Bergið Headspace opnar væntanlega í næsta mánuði ef allt gengur eftir. Aðspurð hvernig Sigurþóra sjái fyrir sér að tekið verði á móti ungmenni, sem líður ekki vel þannig að það gengur þarna inn, segir hún að fyrsta skrefið fyrir viðkomandi sé að hitta ráðgjafa. „Hér verða ráðgjafar með menntum og reynslu af því að eiga samtal við þá sem á þurfa að halda. Við erum núna að búa til samtalsramma um það hvað er í gangi í lífinu hjá viðkomandi og hvernig er best að snúa sér. En við leggjum áherslu á að leyfa þeim sem hingað koma að stjórna því hvað viðkomandi vill ræða við okkur og hvað ekki. Í rauninni getur þú líka bara komið hingað inn og þagað í smástund ef þú vilt.

„Það hefur stundum verið haft á orði við mig og ég held að það sé rétt að „gamla Siggan hafi soldið komið aftur,“ að ég hefði fundið aftur kjarnann í sjálfri mér.“

En við erum samt með viðtalsramma þar sem við reynum að átta okkur á hvað er í gangi. Átta okkur á því hvort það er eitthvað alvarlegt sem að steðjar og reyna að meta hluti á borð við sjálfsvígshættu og annað. Ráðgjafinn setur sig á par við ungmennið og ræðir málin, kemur jafnvel með hugmyndir að næstu skrefum en það er samt ungmennisins að ákveða framhaldið. Það er alltaf hægt að koma aftur. Það er eðlilegt að viðkomandi þurfi að koma inn og þreifa á okkur og komi svo aftur og vinni sig áfram í rólegheitunum. En við finnum út úr því í sameiningu að það þurfi til dæmis að takast á við neyslu þá getum við hjálpað viðkomandi að komast inn í það ferli eða á aðra staði innan kerfisins. Stóra málið er að hér er engum vísað burt og við erum reiðubúin að vinna með öllum í samvinnu við þá. Allt hér á að vera á forsendum þeirra sem hingað koma.“

Markmiðið að vera samfélag

Sigurþóra minnir á að það eigi ekki að kosta neitt fyrir fólk að leita til Bergsins en auðvitað kosti slíkur rekstur peninga. Það þarf að borga húsaleigu og svo verði fjögur til fimm stöðugildi við starfsemina. „Fjármögnunin til þessa er fyrst og fremst í styrkjum frá ríkinu og Reykjavíkurborg en það dugar ekki til. Við munum því leita til fleiri sveitarfélaga á næstunni, auk þess að leita til almennings og fyrirtækja. Þetta kostar allt sitt eins og til dæmis að breyta húsnæðinu í samræmi við okkar þarfir en þar höfum við verið að fá margar góðar gjafir frá fyrirtækjum, lækkun á verði og að hluta til sjálfboðavinnu frá iðnaðarmönnum.

En við þurfum að fá inn aukið fjármagn, margt smátt gerir eitt stórt og við vonum að almenningur muni bregðast vel við. Við höfum ótal oft séð þessa þjóð standa saman um slíkt þegar á reynir og ég vona að við munum njóta slíks stuðnings við þetta málefni af því að það skiptir máli. Allt fjármagn sem við náum inn til viðbótar verður hægt að nýta í ráðgjafa til þess að vinna með unga fólkinu okkar sem vonandi skilar sér og það er góð fjárfesting.“

„Mig langar til þess að Bergið verði staður sem unga fólkið upplifir með jákvæðum hætti, talar um með jákvæðum hætti og treystir.“

Þegar rætt er um framtíð Bergsins og þær væntingar sem Sigurþóra hefur til starfseminnar stendur ekki á svari. „Mig langar til þess að Bergið verði staður sem unga fólkið upplifir með jákvæðum hætti, talar um með jákvæðum hætti og treystir. Að við verðum fólkið sem nær að taka utan um hópinn og að við búum til samfélag hérna. Að krakkarnir okkar geti komið hingað og haldið áfram að vera hérna og þá jafnvel hjálpað öðrum. Unnið með samfélagsleg verkefni út á við og að við séum þannig miðstöð sem býður ekki bara einhverja þjónustu sem aðrir þiggja, heldur að við séum samfélag þar sem við erum til staðar hvert fyrir annað. Að við séum að gera þetta saman.“

Myndir / Aldís Pálsdóttir
Förðun / Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur YSL á Íslandi

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -