Listahópurinn BrimRót hefur flækst inn í deilur fyrrverandi hjóna sem bæði vildu fá inni í vinnuaðstöðu hópsins í menningarhúsinu Gimli á Stokkseyri. Formaður hópsins segir það skýrt að lögmaðurinn Páll Ásgeir Davíðsson hafi komið í húsið talsvert á undan Bergljótu Arnalds rithöfundi og að hann hafi ekki beitt sér fyrir því að hún missti vinnuaðstöðu sína líkt og Bergljót hefur haldið fram. Hópurinn vísaði Bergljótu frá vegna ágangs hennar.
Alda Rose Cartwright, formaður listahópsins, tekur undir að það hafi í raun verið Páll Ásgeir sem kom inn í húsið á undan Bergljótu en áður sagði hún að þessu hafi verið öfugt farið. „Hann fékk afdrep hjá okkur nokkrum mánuðum á undan Bergljótu. Það er því rangt sem síðast kom fram að hann hafi vitað af Bergljótu í húsinu. Honum var ekki vísað á dyr heldur dró sig til baka að eigin frumkvæði um leið og hann áttaði sig á því að hún væri þarna líka í húsnæðinu og væri ósátt,“ segir Alda Rose.
„Á engum tímapunkti beitti Páll sér fyrir því að Bergljót missti vinnuaðstöðu sína, þvert á móti leitaði hann lausna með okkur til þess að þau gætu verið bæði þarna á sitt hvorum tímanum. Páll þurfti eingöngu afdrep hjá okkur þá 2-4 daga á mánuði sem hann keyrði og sótti barnið í skólann og Bergljót nýtti ekki húsnæðið alla daga.“