Sex ökumenn voru handteknir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna á höfuðborgarsvæðinu; þrír urðu að gista fangageymslur vegna brots gegn lögreglusamþykkt Reykjavíkur þar sem þeir sköpuðu ónæði á miðborgarsvæðinu vegna ölvunar.
Þrjár líkamsárásir voru skráðar á tímabilinu; af þeim voru tvær tengdar skemmtanahaldi.
Lögregla var kölluð til í þremur aðskildum verkefnum í vesturbæ Reykjavíkur þar sem tilkynnt var um einstaklinga í annarlegu ástandi með hníf. Einn var handtekinn og gistir fangageymslur vegna rannsóknar slíks máls. Naut lögreglan aðstoð sérsveitar Ríkislögreglustjóra við úrlausn verkefnanna.
Lögregla ætlaði sér að ná tali af manni vegna rannsókn máls í 101 Reykjavík. Sá tók hins vegar til fótanna þegar lögregla reyndi að ræða við hann. Lögreglumenn náðu til hans eftir skamma eftirför en kom þá í ljós að hann var ekki grunaður um neitt brot og gat hann sjálfur ekki gefið góðar skýringar á því af hverju hann hljóp frá lögreglu.
Aðili var handtekinn eftir innbrot í bílasölu og tókst honum að hafa á brott með sér tvo kassa fulla af bíllyklum. Hann var handtekinn skammt frá staðnum og tókst lögreglu að endurheimta lyklana.
Lögreglumenn í Hafnafirði sátu við umferðareftirlit hluta vaktar. Einn var mældur á 151kmh þar sem hámarkshraði er 80 og tveir á 120kmh.