Framhaldsskólakennarinn Hanna Björg Vilhjálmsdóttir vakti gríðarlega athygli með harðorðum pistli um meint ofbeldi íslenskra landsliðsmanna í knattspyrnu.
Hanna sakar KSÍ um kvenfyrirlitningu og heldur því fram að landsliðsmenn í hafi gerst sekir um kynferðis- og heimilisofbeldi, og sagði þöggun KSÍ alvarlega.
Sjá einnig: Segir tvo þjóðþekkta Íslendinga hafa nauðgað sér ítrekað: „Ég skila skömminni, FOKKIÐ YKKUR “
Mannlíf hefur sent KSÍ fjölda tölvupósta með fyrirspurnum um orðróm um ofbeldishegðun íslenskra landsliðsmanna í allt sumar, án nokkurs árangurs, en eftir að grein Hönnu birtist sá KSÍ sig loksins knúið til að senda frá sér yfirlýsingu.
KSÍ vísaði ásökununum algjörlega á bug og neituðu því alfarið að sambandið legði stund á það að þagga niður ofbeldismál eða að það hylmi yfir með meintum gerendum.
Hanna var síður en svo sátt við yfirlýsingu KSÍ og gefur minna en ekki neitt fyrir hana:
Hefur Hanna nú svarað yfirlýsingu KSÍ með liðsinni meðlima úr hópnum „Öfgum,“ og meðlimum úr hópnum „Aktívistar gegn nauðgunarmenningu.“
Þar má lesa að „KSÍ varpar frá sér allri ábyrgð. Vönduð forysta er auðmjúk, hugrökk, horfist í augu við eigin mistök, með skýra sýn á markmið, ábyrg, trúverðug, traust, með gott siðvit og tilfinningagreind.“
Vísað er til áðurnefndrar yfirlýsingar KSÍ frá því á þriðjudag, þar sem fram kom að KSÍ kallar málflutning grein Hönnu ekkert annað en „dylgjur.“
Hanna segir:
„KSÍ varpar frá sér allri ábyrgð í yfirlýsingu sinni og kallar málflutning minn ,,dylgjur”. Þetta er áhugavert í ljósi þess að þolendur kynferðisofbeldis eru gjarnan sagðir með dylgjur þegar þeir stíga fram og segja frá ofbeldinu. KSÍ hvorki svarar fréttafólki né sýnir minnsta áhuga á að vita yfir hvað upplýsingum ég bý yfir um ofbeldi af hálfu landsliðsmanna. Gefur þess í stað út einhliða yfirlýsingu um að það séu dylgjur að halda því fram. Ekki snefill af samkennd eða skilningi. Skeytingarleysið er algert. KSÍ sýnir engan vilja til að axla ábyrgð, enga auðmýkt, samkennd, tengsl við raunveruleikann og sannleikann. Auðvitað vissu Guðni (Bergsson, formaður KSÍ) og forysta KSÍ af umræddu kynferðisofbeldi. Það eru of mörg sem vita að Guðni segir ósatt í yfirlýsingunni til að unnt sé að halda öðru fram.
Frá því að greinin mín um KSÍ og kvenfyrirlitningu birtist sl. föstudag hefur rignt yfir mig skilaboðum og símtölum. Öll á einn veg; stuðningur, hvatning og staðfestingar um ofbeldi af því tagi sem er tíundað í greininni. Eina undantekningin var aðili sem hafði áhyggjur af því að allt landsliðið lægi undir grun. Þar er þó hvorki við mig né þolendur að sakast heldur KSÍ sem þegir og gerendur sem hafa fengið tækifæri til að stíga fram og axla ábyrgð, en ekki gert. Í mínum huga eru viðbrögð KSÍ sorgleg. Börn og ungmenni eiga meira skilið en að alast upp við það gildi og menningu að ofbeldi sé ekki ámælisvert. Að fyrirmyndir þeirra og átrúnaðargoð séu ofbeldismenn og enginn geri neitt í því. Það er hörmulegt og hættulegt. Ef KSÍ ætlar að halda því fram að það sé ekki hægt, má benda á leið Borgarleikhússins í sambærilegum aðstæðum. Þar var staðið með þolendum. Annað hvort stendur KSÍ með þolendum eða ekki. Sýndarjafnrétti dugar ekki. Ef samfélagið lætur þessi viðbrögð KSI óátalin þá er erum við ekki tilbúin til að uppræta kynferðislegt ofbeldi gegn konum og öðrum kynjum. Misréttið, ofbeldið og kúgunin heldur áfram.“