Sunnudagur 15. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Hanna Katrín Friðriksson: „Þegar ég var krakki þurftu foreldrar mínir að safna réttum á borðið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Matgæðingur Mannlífs þessa vikuna er hin stórsnjalla Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, en hún ætlar að deila með okkur sínum matarhefðum og uppáhaldsréttum.

„Pabbi minn var danskur og matarhefðir á æskuheimili mínu í Breiðholti tóku mið af því. Ég ólst til dæmis upp við jólahlaðborð með fjölskyldunni löngu áður en það varð alsiða í íslensku jólahaldi. Ég held enn í þann sið að á annan í jólum er jólahlaðborð með fjölskyldunni. Þegar ég var krakki þurftu foreldrar mínir að safna réttum á borðið svo vikum og jafnvel mánuðum skipti þar sem vinir og ættingjar sem áttu leið til Danmerkur voru beðnir að kippa einhverju góðu með sér á jólahlaðborðið. Stundum löglega, oftar samt ekki. Svo var þetta geymt eins og gull þar til kom að jólum. Nú orðið fæst þetta meira og minna hér heima, en það er samt sitthvað sem ég reyni að sækja sérstaklega til föðurlandsins.“

Hrifnari af forréttum
Hönnu þykir ferskur og léttur matur bestur og er til dæmis hrifnari af forréttum en aðalréttum og pantar gjarnan tvo slíka á veitingastöðum. Hún segist hins vegar ekki geta borðað mjúkan mat eins og til dæmis búðinga eða grauta. „Ég ræð varla við kartöflumús ef það eru ekki kartöflubitar í henni.“

Hanna Katrín á sér marga góða rétti, en flestir eiga það sameiginlegt að vera einhvers konar fiskmeti. Hörpuskel á steinseljubeði er hennar allra mesta uppáhald.

„Ég bragðaði réttinn fyrst fyrir mörgum árum í Moggamatarklúbbnum mínum, en hann skipar vinahópur sem kynntist á ritstjórn Morgunblaðsins fyrir lifandi löngu. Einn úr klúbbnum, Steingrímur Sigurgeirsson, hafði þá fengið réttinn á veitingastaðnum Lameloise í Búrgúndarhéraði í Frakklandi. Uppskriftina fengu þau hjón, Steingrímur og María, svo í uppskriftabók staðarins. Þau reka Vinotek.is og þaðan er uppskriftin fengin, þó ég kunni hana reyndar utan að enda er hún mikið notuð á mínu heimili. Galdurinn er að nota heilan helling af steinselju til að búa til maukið. Svo mælir Steingrímur með góðu Chardonnay-víni, helst Búrgundarvíni, með réttinum. Ég hlýði því alltaf!“

Konan mín er frábær kokkur
Hanna Katrín segist vera ágætis kokkur þó svo að hún eldi samt eiginlega aldrei. Ástæðan er fyrst og fremst sú að Ragnhildur, konan hennar, er bæði frábær kokkur og hefur mjög gaman af því að elda. Ragnhildi finnst gott að slappa af við matseldina eftir langan og jafnvel erfiðan dag, en Hanna Katrín kýs frekar að fara út að hlaupa.

- Auglýsing -

Þegar kemur að veislunum segist Hanna Katrín vera: „mjög líkleg til að leggja á borðið blini með silungahrognum, söxuðum rauðlauk og sýrðum rjóma. Ef ég hef tíma geri ég blini-ið sjálf, annars kaupi ég það tilbúið. Og svo er auðvitað allra best að hafa gott freyðivín eða kampavín með.“

Týpískur dagur í lífi Hönnu byrjar á því að hún fær sér gott og sterkt kaffi um leið og hún fer á fætur. „Hrökkbrauð með osti fylgir með ef ég hef tíma. Í hádeginu finnst mér best að borða eitthvað mjög létt og svo legg ég meira upp úr kvöldmatnum. En það er engin regla á þessu hjá mér og ég er langt frá því að vera vanaföst þegar kemur að mat.“

Hörpuskel á steinseljubeði

Uppskrift:

- Auglýsing -
  • hörpuskel, stór og væn
  • 6 bréf af steinselju
  • 1 dl rjómi
  • 100 g smjör
  • salt og pipar

Aðferð:

Hitið vatn í stórum potti. Bætið 1-2 teskeiðum af salti í vatnið. Þegar það bullsýður er steinseljunni allri bætt út í pottinn. Sjóðið í 4-5 mínútur. Síið vatnið frá og skellið steinseljunni strax í kalt vatnsbað. Síið kalda vatnið frá og maukið steinseljuna í matvinnsluvél.

Hitið rjómann í potti. Þegar hann byrjar að sjóða er hitinn lækkaður og smjörinu hrært saman við. Þegar smjörið hefur bráðnað í rjómanum er steinseljumaukinu hrært saman við. Bragðið til með salti og pipar.

Steikið hörpuskelina í 2-3 mínútur á hvorri hlið á pönnu. Saltið og piprið.

Setjið steinseljumaukið á diska og hörpuskelina ofan á. Ég set 3-4 á hvern disk, fer eftir stærð.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -