Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.8 C
Reykjavik

Hannes Oddsson skipstjóri stóð andspænis dauðanum: „Óli bjargaði lífi okkar í raun og veru“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hannes Oddssson var skipstjóri á vélbátnum Mumma sem fórst á Vestfjarðamiðum Tveir komust af. Fjórir drukknuðu. Hann og hinn sem komst af biðu lengi í björgunarbáti í brjáluðu veðrinu. „Hann var alltaf slöngufullur af sjó; fengum alltaf þakið yfir okkur í hvert skipti. Ég sagði við Óla „nú bíðum við og heyrum þegar brotið kemur“. Um leið og við heyrðum það skella á bátnum þá hentum við okkur út í síðuna og veltum honum svoleiðis.“ Hannes segir að slysið komi endalaust upp í hugann. Hann hélt þó áfram á sjónum en hafið togaði snemma í hann. Átta ára gamall byrjaði hann á sjónum og tæplega sextugur hætti hann.

 

 

„Við vorum ekkert lengi á kilnum því það kom brot og sópaði okkur af honum,“ segir Hannes Oddsson, fyrrverandi skipstjóri, í viðtali við Reyni Traustason þegar hann lýsir því þegar vélbáturinn Mummi ÍS 366 frá Flateyri sökk undan Vestfjörðum í október árið 1964. Fjórir menn fórust og tveir komust af, Hannes og Olav Öyahals vélstjóri. „Ég var á sundi og sá skipið langt í burtu á hvolfi og vissi ekkert um Óla þá. Ég synti og þá sá ég Óla dálítið langt frá mér. Svo kom bjarghringur fljótandi og ég kallaði á Óla og benti honum á hringinn af því að hringurinn var það langt frá mér og stefndi beint á Óla. Og rétt á eftir sáum við kistu koma; það höfðu tvær kistur verið uppi á þaki.“ Það var annars vegar kista með björgunarbáti í og hins vegar matarkista. „Þær voru nákvæmlega eins. Maður vissi ekki hvort það væri brauðkistan eða hin. Óli bjargaði lífi okkar í raun og veru. Hann var með vasahníf; hnífurinn sem hafði verið í kistunni hafði dottið úr og það þurfti að skera upp bandið sem var utan um lokið.“

Það var mikill léttir hjá félögunum þegar í ljós kom að um var að ræða kistuna með björgunarbátnum í.

„Að draga línuna út 24 metra; maður dró hana út í kafi bara. Maður var allur orðinn flæktur í þessu. Svo var hamagangur að reyna að opna bátinn.“ Þeir þurftu að taka á. Spyrna í bátinn. Þarna höfðu þeir verið á sundi í um 15 mínútur.

- Auglýsing -

Sjórinn ískaldur.

„Maður verður ekki beint var við það þegar maður er í þessum aðstæðum. Sjávarhitinn hefur verið bara nokkrar gráður. Fjórar fimm gráður.“

Þið hafið verið ungir og sterkir.

„Já, það er það sem bjargaði okkur.“

- Auglýsing -

Það gekk vel að komast í björgunarbátinn í kolvitlausu veðrinu. Þeir ákváðu að nota kistuna sem rekankeri.

„Við hnýttum kistuna í gúmmíbátinn. Svo var þetta orðinn svo mikill sjór að við ákváðum að skera hana frá því hún hefði getað sprengt bátinn. Það voru naglar alls staðar út úr þessu.“

Hannes er spurður hvort hann hafi verið sannfærður um að þeim yrði bjargað eftir að hann komst í björgunarbátinn.

„Nei, við höfðum ekki tíma til að hugsa um það. Það var svo brjálað veðrið að við þurftum að sitja uppi alla nóttina.“ Og þeir þurftu að ríghalda í þakið svo vindurinn tæki það ekki af.

Svo valt báturinn sex sinnum þessa dimmu nótt og félagarnir komu sér upp tækni til að koma honum á réttan kjöl.

Ég sagði við Óla „nú bíðum við og heyrum þegar brotið kemur“.

„Hann var alltaf slöngufullur af sjó; fengum alltaf þakið yfir okkur í hvert skipti. Ég sagði við Óla: „Nú bíðum við og heyrum þegar brotið kemur“. Um leið og við heyrðum það skella á bátnum þá hentum við okkur út í síðuna og veltum honum svoleiðis. Ég var í peysu og hún var komin „hingað“ af því að hún var búin að hlaupa svo mikið.“

Hvað töluðu þið um?

„Við? Það var svo brjálað veður að nóttin fór í það að halda öllu og bjarga sér í bátnum. Veltingnum.“

Bara halda lífi.

„Já.“

Hannes segir að þeir hafi farið 60 mílur; þá rak 60 mílur. Það samsvarar um 100 kílómetrum.

Óli var með sjóstakk og við skárum hann í sundur til að breiða ofan á okkur.

„Svo þegar fór að líða að morgni fór hann að hægja. Það var ennþá ansi mikill sjór. Við sáum til lands. Við sátum í bátnum og okkur var svo kalt. Óli var með sjóstakk og við skárum hann í sundur til að breiða ofan á okkur. Svo dimmdi allt í einu í bátnum; það varð bara svartamyrkur. Þá vorum við inni í hvelfingu í röstinni“

Straumhnútur. Röstin er versta svæðið sem til er upp á þessa hnúta að gera.

„Já.“

Þið hafið ekkert verið smeykir við að lenda uppi í Látrabjargi?

„Jú. Ég var búinn að hugsa það um nóttina þegar byrjaði að velta að við værum að fara upp í Blakkinn eða eitthvað. Við hefðum ekki lifað það af.“

Honum til léttis hafa þeir farið suður með bjarginu.

„Já, við vorum töluvert langt frá landi þegar við fórum yfir röstina.“

Hannes er spurður hvað hann haldi að þeir hafi verið langt undan þar.

„Ekki langt. Við vorum þarna í straumhnútunum. Það er annaðhvort að fara nógu grunnt eða nógu djúpt.“

Hann segir að þeir hafi þá farið um fimm til sex mílur. „Við vorum komnir langt út á Breiðafjörð. Þá var ég orðinn pottþéttur á að okkur yrði bjargað því að þetta var netavertíðin og við hefðum lent innan um bátana fyrir rest.

Óli var búinn að skjóta upp tveimur rakettum og við heyrðum í flugvél og hann var alltaf aðeins of seinn; hún var komin fram hjá. Svo var flugmanninum litið aðeins aftur með vélinni og þá sá hann seinni flaugina.

Maður var hálfrænulaus og hafði ekkert sofið í þennan tíma síðan maður fór í róðurinn.

Fljótlega eftir að flugvélin var búin að sjá okkur kom breskur togari á svæðið.“
Þeim var bjargað. Þetta hafði verið leitarvél.

„Maður var hálfrænulaus og hafði ekkert sofið í þennan tíma síðan maður fór í róðurinn,“ segir Hannes sem hafði verið vakandi í um tvo sólarhringa.

„Svo tók varðskipið við okkur.“

Og það var haldið til Flateyrar.

Hannes var skipstjórinn, karlinn í brúnni, sem missti skipið og menn. Hvernig fór þetta með hann?

„Alveg rosalega illa.“

Þetta hefur alltaf búið með honum síðan en hann fór þó fljótlega á sjóinn aftur.

Þetta kemur endalaust upp í hugann.

Hann hugsar um mennina sem hlutu vota gröf.

„Þetta kemur endalaust upp í hugann.“

Það var engin áfallahjálp í boði.

„Það var ekkert svoleiðis. Það var ekki búið að finna það upp einu sinni.“

 

Á forsíðu Morgunblaðsins 13 . október 1964 segir meðal annars:

„Þessir menn fórust með vb. Mumma:

Pálmi Guðmundsson, 57 ára, lætur eftir sig sex börn og eitt fósturbarn á aldrinum 10 ára til tvítugs. Hann lætur einnig eftir sig aldraða móður. Hann var búsettur á Flateyri.

Martin Tausen, 59 ára, færeyskur, lætur eftir sig börn í Færeyjum og einn son á Flateyri, þar sem Martin hafði verið búsettur í tíu ár.

Þórir Jónsson, 41 árs, lætur eftir sig unnustu og uppkominn son. Hann átti heima á Flateyri.

Hreinn Sigurvinsson, Sæbóli, Ingjaldssandi í Önundarfirði, 17-18 ára, ógiftur. Á foreldra á lífi á Ingjaldssandi.

Þessir komust af:

Hannes Oddsson, skipstjóri, 25 ára, kvæntur, barnlaus.

Olav Öyahals, 26 ára, kvæntur og á fjögur börn. Olav er Norðmaður, en hefur átt heima hér sl. 10 ár, þar af átta ár á Flateyri.“

 

Stórhættulegt skip

Veiðiferðin sem endaði svona hófst á hádegi á laugardegi. „Það spáði ágætlega. Það var svolítið þungur sjór þegar við fórum þarna út. Svo byrjaði veðrið að versna. Þá var maður hálfnaður að draga og það var komin helvítis bræla þegar við fengum á okkur brot sem henti honum á hliðina.“

Hannes var í brúnni og vissi að það var ekki hægt að gera neitt. Sjór var farinn að flæða inn í brúna og hann komst út um glugga. „Það fyrsta sem ég gerði var að ég fór fram á síðuna á bátnum og dró inn þá sem voru í sjónum. Ég var allur flæktur í línu sem hafði flotið út. Maður var ekkert að hugsa um það. Maður bara sleit þetta úr höndunum á sér; önglarnir voru kræktir í.“

Það komust fimm á kjöl. Einn var niðri í lúkar. Komst aldrei upp.

Tveir bátar úr sama þorpi.

Annars báts frá Flateyri, Sæfells SH 210, var saknað aðfaranótt þessa sama laugardags.

„Þeir sögðu á varðskipinu að þeir væru að leita að öðru skipi en vildu ekki segja okkur hvaða skip það var.“

Tveir bátar úr sama þorpi. Fánar blöktu víða í hálfa stöng.

„Sæfellið var stórhættulegt skip. Þegar ég var stýrimaður á því hafði ég ekki við að smíða til dæmis fiskikassana á dekkinu. Þegar var bræla þá brotnuðu þeir. Hann missti alltaf skrúfuna þegar hann valt. Hún bara fór úr sambandi og svo kom hún inn aftur þegar hann rétti sig.“

Hvorki Sæfellið né þeir sem voru um borð fundust.

 

Það ólgaði blóðið

Hann sem hélt áfram á sjónum eftir að hafa staðið andspænis dauðanum á hafinu fæddist á Akureyri en var ársgamall þegar flutt var til Siglufjarðar. Og hann segist hafa byrjað í sjómennsku átta ára gamall. „Þetta var þannig að ég hafði verið í sveit inni í Fljótum. Það var náttúrlega moldargólf í bænum.“

Hannes talar um hafragrautinn sem hann fékk í sveitinni. „Það var eldað upp á vikuna. Grauturinn var orðinn þannig að þú gast bara skorið hann niður með hnífi. Maður sat yfir þessu í einn og hálfan til tvo tíma þar til maður var rekinn frá borðinu. Síðan hef ég ekki getað litið á þetta.

Mér hundleiddist þarna og strauk og fannst niðri við Ketilás. Það var farið með mig á Siglufjörð. Svo var bróðir pabba í heimsókn; hann var vélstjóri á báti frá Reykjavík. Á síld. 30 tonna bátur ef hann náði því. Með tvo nótabáta. Og ég fékk að vera með; ég var allt sumarið á síldinni.“

Og kunni vel við það?

„Alveg rosalega, maður.“

Þannig að sjómennskan var í blóðinu.

„Bara átta ára polli.

Ég kom ekki heim fyrr en að hausti.

Sumarið eftir var ég alveg óður að reyna að fá pláss á einhverju síldarskipi. Það ólgaði blóðið. Og Stebbi, bróðir mömmu, fékk pláss fyrir mig á Skaftfellingi frá Vestmannaeyjum með toppskipstjóra. Helgi Bergvins hét hann. Frægur aflamaður í Vestmannaeyjum. Og síldin var fyrir utan Siglufjörð. Þannig að það þurfti að taka út og kasta og taka síldina inn aftur. Ég var svo heppinn að hún var horfin, síldin fyrir utan Siglufjörð. Ég kom ekki heim fyrr en að hausti.“

Níu ára gamall. Polli.

Þegar ég kom niður á bryggju þá var báturinn farinn.

Hvernig var hægt að notast við stráklinginn um borð?

„Ég var ekkert að vinna að öðru leyti nema að þvo galla niðri í stíu. Þeir létu mig hafa skrubb og smíðuðu borð fyrir mig og svo skrubbaði ég og fékk einhvern tíkall fyrir eða eitthvað. Svo var það einu sinni á Húsavík að við fórum að landa. Þetta var á laugardegi og ég fór upp í búð að kaupa nammi. Það var þvaga og opið til klukkan 12. Svo loksins komst ég að að kaupa brjóstsykurspoka. Svo kom ég niður á bryggju og ég bauð náttúrlega skipstjóranum mola. Honum fannst hann svo góður brjóstsykurinn að hann sendi mig upp í búð til að kaupa fyrir sig. Svo gerði ég það og ég komst loksins að eftir dúk og disk og þegar ég kom niður á bryggju þá var báturinn farinn.“

Hannes litli var eitthvað að væflast á bryggjunni með brjóstsykurspokann þegar sjómaður á öðrum báti sem lá við bryggju kallaði í hann og spurði hvort hann hafi ekki verið á Skaftfellingi. „Jú,“ sagði níu ára pollinn sem var svo spurður hvort hann vildi ekki fara með þeim báti. Og það gerði hann. „Við vorum rétt komnir út í miðjan flóann þegar við sáum reykjarmökk. Þá var það Skaftfellingur á fullri leið til baka að ná í guttann. Ég var svo hífður á milli.“

Hannes var á Dagnýju sumarið eftir. Aðstoðarkokkur. „Það var þriggja hæða lúkar á þessu skipi. Þetta var tréskip stórt og mikið. Og ég var þarna aðstoðarkokkur 10 ára.“ Hann hlær. „Alltaf þegar átti að fara að vaska upp þá faldi ég mig. „Hvar er helvítis guttinn,“ sagði karlinn alltaf.“

Svo var það Frigg í tvö sumur. „Þá var ég fullgildur háseti 13 ára gamall. Þá kunni ég öll handtök og allt.“

Sjómennskan var hafin.

Hannes nefnir nokkra báta sem hann hefur verið á. Skip.

„Ég var á togara frá Akureyri, Jörundi, í sex mánuði. Svo var ég mikið á Elliða. Ég hætti á honum þetta haust sem hann fórst til að fara á námskeið á Ísafirði.“

Hvað gerðist þegar hann fór niður?

„Suðunagli. Þetta var boltað saman eða hnoðað saman, skipið, eins og var gert í þá daga. Og það var farið að gefa sig.“

Elliði fór niður úti á Öndverðarnesi. Allir um borð björguðust nema tveir. „Það var talað um að þeir hafi getað komist í björgunarbát en að leitarskipið hafi keyrt á þá. Þeir voru eitthvað illa farnir.“

Hannes hafði verið 23 ára gamall þegar hann var á Elliða. Svo var hann stýrimaður á Freyjunni. „Þetta var litla Freyja, þrjátíu og eitthvað tonn.“

Einhvern tímann fór hann á vertíð í Vestmannaeyjum.

Hannes Oddsson
Það var annars vegar kista með björgunarbáti í og hins vegar matarkista. „Þær voru nákvæmlega eins. Maður vissi ekki hvort það væri brauðkistan eða hin.“

Eins og túristi

Hannes var stýrimaður á Kristjáni þegar hann hitti þann sem hafði verið skólastjóri þegar hann tók 120 tonnin og spurði Hannes hann hvort hann gæti fengið pláss hjá honum sem stýrimaður. Tveimur mánuðum síðar hringdi maðurinn í Hannes og spurði hvort hann vildi koma sem stýrimaður á Hvalvíkina. „4.500 tonna dall. Ég sagði að ég þyrfti að hugsa mig um í einn sólarhring. Svo vorum við Erna vakandi alla nóttina,“ segir hann en þau, hann og konan, voru að velta því fyrir sér hvort hann ætti að taka starfinu. Og hann sló til. Þetta var 1975.

Hann þurfti að fljúga frá Ísafirði til að fara svo um borð í Hvalvíkina.

„Það var allt á kafi í snjó og heiðin var lokuð. Ég man ekki hver fór með mig á snjósleða. Við vorum búnir að keyra töluvert langt upp í heiði þegar við föttuðum að töskurnar hefðu dottið af og þurftum að snúa við. Það var búið að hringja á Ísafjörð og segja að ég væri væntanlegur í flugið og hvort þeir gætu ekki beðið og þeir þurftu að bíða í á annan tíma. Svo þegar ég var kominn inn í vélina og búið var að ganga frá farangrinum þá sagði ég að ég ætti víst að vera aðstoðarflugstjórinn. Ég hélt að það myndu allir yfirgefa vélina,“ segir Hannes sem segist hafa verið svolítill prakkari.

Svo hófst ferillinn í fraktinni. Og sá ferill stóð yfir í 10 ár.

Ég smyglaði sígarettum en ekkert til að selja af því að maður reykti.

Smyglaði hann einhverju?

„Ég er bara svo saklaus í mér. Ég smyglaði sígarettum en ekkert til að selja af því að maður reykti. Og þá kostaði kartonið 300 krónur. Og vodkaflaskan eitthvað svipað. Þegar ég var fyrsti stýrimaður þá var ég með möppur; ég þurfti að halda bókhald yfir ýmislegt og þar inni í möppunum var ekkert nema sígarettukarton.“

Hann segir smyglarasögu.

„Það var togari á Siglufirði sem var að koma í land og einn kallinn hafði verið að tala við konuna. Hún sagði að svarta María, það var löggubíllinn, væri á ferðinni. Og þeir héldu að þetta væru tollararnir og grýttu öllu draslinu í sjóinn úti á firði.“ Hann hlær. „Þá var þetta bara löggan á rúntinum.“

Hvernig var lífið á fraktinni? Engin áföll?

Þetta var bara heill mánuður í Miðjarðarhafinu.

„Þetta var æði, maður. Þetta var svo flott að það var eins og maður væri túristi. Þegar ég byrjaði voru það 50 kílóa pakkarnir, saltfiskpakkar, sem var bara staflað í lestina. 3.500 tonn eða eitthvað. Og það tekur bara 17 daga að losa. Þú ert kannski úti í Grikklandi, Aþenu, að losa og svo áttu frí annan hvorn dag sem stýrimaður; þá fór maður til Capri að dúlla sér allan daginn. Með ferju. Svona var þetta í Portúgal og á Spáni. Stundum var búið að vera í 17 daga að losa saltfisk. Svo fór maður í aðra höfn á Spáni að taka salt og þá var 11 daga bið þar til hægt var að lesta. Þetta var bara heill mánuður í Miðjarðarhafinu.“

Hannes segist hafa verið á Hvalvíkinni í á annað ár. „Þá komum við aldrei heim. Við vorum alltaf að sigla erlendis.“

Frúin hefur ekki verið ánægð með það.

„Hún kom og var kokkur. Stóð sig rosalega vel í því.“

Hvað tók svo við eftir Hvalvíkina?

„Eftir Hvalvíkina fór ég yfir á Eldvík. Þetta er hörku fleyta.“

Þetta er engin sjómennska í sjálfu sér að vera á frökturum.

„Jú, við vorum að tala við þessa gæja sem voru á varðskipunum og kölluðum þá tuskukallana. Þeir voru alltaf að gera hreint.

Hannes hætti á sjónum tæplega sextugur.

„Þetta voru orðnir svo langir túrar hjá mér og Erna ein og svona.“ Hann vildi verja tímanum með konunni.

Myndi hann endurtaka þetta allt; sjómennskuna?

„Ég myndi örugglega gera það. Maður myndi kannski lifa öðruvísi lífi.“

Hannes Oddsson
„Þetta var æði, maður. Þetta var svo flott að það var eins og maður væri túristi.“

Hægt er að sjá allt viðtalið hér.

Viðtalið er endurbirt. Það var tekið í maí s.l.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -