Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir að besta leiðin til að sýna Hong Kong-búum stuðning sé að leyfa þeim að setjast að á Íslandi.
„Þetta eru ákjósanlegir borgarar, harðduglegir og skapandi, eins og þeir hafa sýnt í gegnum tíðina,“ segir Hannes meðal annars, í færslu á Facebook.
Tilefni skrifanna er frétt á mbl.is sem prófessorinn deilir með Facebokk-færslunni. Þar er greint frá hörðum viðbrögðum Evróusambandsins við nýjum öryggislögum sem tóku gildi í Hong Kong í maí, en þau kveða meðal annars á um bann við uppreisnaráróðri, landráði og sjálfstæðisumleitunum sjálfstjórnarhéraðsins Hong Kong. Fordæmir Evrópusambandið lögin og segir að það muni hafi neikvæðar afleiðingar í för með sér ætli kínversk stjórnvöld að takmarka mannréttindi íbúa Hong Kong. Sambandið hefur ekki farið nánar út í það hvað það þýði.
Hannes segist hins vegar vera þeirrar skoðunar að besta leiðin til að sýna Hong Kong-búum stuðning sé einfaldlega að leyfa þeim að setjast á Vesturlöndum af fyrrgreindum ástæðum. „Svíþjóð ætti að gera það,“ skrifar hann með vísan í orð sænska utanríkisráðherrans Anne Linde, sem segir Evrópusambandið íhuga aðgerðir vegna ástandsins í Hong Kong sem hún muni styðja, „og Ísland sömuleiðis,“ bætir hann við.
Af orðum prófessorsins má skilja að mikill happafengur sé að fá Hong Kong-búa til landsins.