Haraldur vísar til frétta um að fyrirtækin Alvotech og Arion banki hafi hug á því að stofna leikskóla eða einhvers konar dagvistunarúrræði fyrir börn starfsmanna sinna. Formaðurinn varar við hugmyndunum.
„Margar áleitnar spurningar vakna þegar svona umræða fer af stað. Gallarnir eru margir og nægir að nefna forgang fyrir börn starfsfólks fyrirtækjanna sem sveitarfélög, sem gera samning við slík einkafyrirtæki, setja sem kröfu. Við það skapast ójafnræði sem erfitt er fyrir sveitarfélög að rökstyðja. Hingað til hefur verið sátt innan samfélagsins um að leikskólarnir séu byggðir upp á samfélagslegum grunni, líkt og grunnskólarnir“.
Haraldur spyr hvernig umræðan væri ef Alvotech og Arion banki hygðust stofna grunnskóla og spyr hvort hér sé að raungerast einhver allsherjar stefnubreyting á þeim samfélagssáttmála sem ríkt hefur um skólakerfið.
„Þessi hugmynd fyrirtækja að setja á laggir leikskóla sprettur upp úr þeim vanda sem ofvöxtur leikskólakerfisins hefur skapað. Leikskólastigið hefur þróast hratt sem skólastig og í raun allt of hratt til þess að geta staðið almennilega undir sér. Ákvarðanir samfélagsins um að taka sífellt inn yngri og yngri börn án þess að hugsa málið fyllilega til enda hefur aukið á vandann og komið okkur öllum í erfiða stöðu. Að ætla á ofurhraða að brúa bilið milli leikskóla og fæðingarorlofs með leikskólum myndi setja aukinn þrýsting á kerfi sem þolir ekki meiri þrýsting,“ skrifar Haraldur Freyr.
Grein Haraldar er að finna í heild sinni hér.