Haraldur Ingi Þorleifsson, stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno og einn ríkasti maður landsins, býðst til að borga lögfræðiskostnað allra þeirra sem Ingólfur Þórarinsson, oftast kallaður Ingó Veðurguð, mun stefna.
Líkt og Mannlíf greindi frá hefur hæstaréttardómarinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson tekið að sér mál Ingós og boðað að fjöldi stefna verði gefinn út á hendur áhrifavöldum, blaðamönnunm og öllum þeim sem hafa sakað Veðurguðinn um kynferðisbrot.
Sjá einnig: Ingó Veðurguð í viðtali við Mannlíf: „Ég ætla ekki að láta eyðileggja mannorð mitt“
Á Twitter brást Haraldur við með færslu. Þar segir hann:
„Ég skal borga lögfræðikostnað fyrir alla sem þurfa í þessu máli. Ef þið þekkið fólk sem þarf hjálp sendið þau endilega til mín.“
Kæran kemur í kjölfar þess að Aðgerðahópurinn Öfgar birti 32 nafnlausar sögur sem fjölluðu um meint brot Ingó gegn fjölda kvenna. Samfélagsmiðlar hafa logað og fjöldi fólks lagt orð í belg.
Fyrirtæki Haraldar, Ueno var selt til bandaríska samfélagsmiðlarisans Twitter fyrr á árinu. Haraldur er því meðal ríkari manna hér á landi og hefur meðal annars stutt ýmis góðgerðarverkefni líkt og Römpum upp Reykjavík.