Laust fyrir klukkan ellefu í morgun var harkaleg handtaka í Ármúlanum í Reykjavík. Dökkleit Honda sást nauðhemla eftir að bifreiðinni var veitt eftirför af lögreglu sem átti erindi við ökumanninn.
Eftir að bifreiðin var stöðvuð steig ökumaðurinn út og æddi í átt að lögreglumönnunum tveimur. Annar lögreglumaðurinn miðaði piparúða að óðum ökumanninum. Í framhaldinu var hann yfirbugaður á vettvangi og honum skellt niður í götuna. Ökumaðurinn öskraði og var hinn versti. Óhljóðin vöktu mikla athygli og bárust um allt nágrennið.
Hér að neðan má sjá myndskeið af atvikinu. Það sýnir ökumanninn yfirbugaðan í jörðinni og hann í framhaldinu leiddan inn í lögreglubifreiðina.
Við eftirgrennslan Mannlífs kom í ljós að eigandi Hondu-bifreiðarinnar er síbrotamaður sem á að baki sér afbrotasögu sem nær allt aftur til ársins 2004.
Uppfært: Ábending barst Mannlífi um að lögreglan miði á manninn piparúða en ekki rafvopni eins og áður kom fram.