Miðvikudagur 15. janúar, 2025
8.8 C
Reykjavik

Jenný Bára varð bráðkvödd nóttina eftir jarðarför barnsföður síns: „Maður er búinn að vera dofinn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þetta er búið að vera erfitt og voðalega sárt. Maður er búinn að vera dofinn,“ segir Harpa Hrönn Gestsdóttir sem er að upplifa nístandi sorg en elsta barn hennar af fjórum, Jenný Bára Hörpudóttir, lést 4. desember og lætur hún eftir sig þrjá syni sem eru 15, 16 og 18 ára gamlir, en það eru þeir Elías Aron, Gunnlaugur Arnar og Brynjar Pálmi Árnasynir. Þeir eru allir í skóla.

„Jenný Bára var alltaf að hugsa um drengina sína og reyna að hjálpa þeim eins og hún gat,“ segir Harpa Hrönn en dóttir hennar hafði gengið í gegnum ýmsa erfiðleika í lífinu. Harpa Hrönn segir að sem barn og unglingur hafi dóttir sín verið voðalega brosmild, hjartahlý og hjálpsöm. „Hún var voðalega trúuð og var mikið í æskulýðsstarfi. Hún hafði gaman af öllu kirkjustarfi.“

Faðir drengjanna, Árni Helgi Gunnlaugsson, lést í lok nóvember og segir Harpa Hrönn að hann hafi barist við krabbamein í hálft ár. Þess má geta að feðgarnir komust í fréttirnar í hittifyrra þegar kviknaði í íbúð sem Árni Helgi bjó í við Jórufell og skrifaði hann um þá reynslu á Vísi.

„Árni Helgi var jarðaður 3. desember. Jenný Bára var í útförinni hans og svo keyrði ég hana heim og hún varð bráðkvödd um nóttina.“ Jenný Bára var 39 ára.

Jenný Bára var í útförinni hans og svo keyrði ég hana heim og hún varð bráðkvödd um nóttina

Harpa Hrönn Gestsdóttir
Jenný Bára með sonum sínum um hálfum sólarhring áður en hún lést.

Harpa Hrönn er með opinn hlýjan ömmufaðminn. „Móðursystir og föðursystir eru líka svolítið mikið að hugsa um þá.“

Maður verður að halda áfram með minningu hennar í gegnum lífið

Jólin eru fram undan. „Við ætlum að skiptast á að taka drengina. Við reynum að hafa einhver jól.“

- Auglýsing -

Harpa Hrönn er spurð hvert hún sæki styrk í þessari miklu sorg. „Ég hef verið mikið með sjálfri mér.“

Hvað með framtíðina?

„Maður verður að halda áfram með minningu hennar í gegnum lífið.“

- Auglýsing -

Harpa Hrönn setti fyrir nokkrum dögum eftirfarandi á Facebook-síðu sína:

„Elsku ömmustrákarnir urðu foreldralausir rétt fyrir jól og er búið að stofna styrktar reikning þeim til handa. Rkn 0370 13 008564 kt 130893 2019. Endilega deilið.“

„Maður er að hugsa um að þeir fái bílprófið og geti menntað sig.“

Blessuð sé minning foreldra drengjanna sem eru einungis 15, 16 og 18 ára gamlir eins og þegar hefur komið fram.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -