Harry Bretaprins og eiginkona hans, leikkonan Meghan Markle, hafa ákveðið að draga sig í hlé frá konungsfjölskyldunni og freista þess að öðlast fjárhagslegt sjálfstæði. Þetta kemur fram í tilkynningu sem var send á breska fjölmiðla rétt í þessu.
Í tilkynningunni kemur m.a. fram að eftir margra mánaða íhugun þá hafi þau ákveðið að breyta til á nýju ári og leggja drög að nýju og framsæknu hlutverki innan þeirrar stofnunar sem konungsfjölskyldan er.
Hertogahjónin hyggist draga sig til baka sem „hátt settir“ meðlimir fjölskyldunnar. Skilja má yfirlýsinguna þannig að þau hyggist hverfa frá hefðbundnum störfum, opinberum embættisskyldum sem nánustu ættingjar drottningarinnar sinna, og lifa „hefðbundnara“ lífi.
Meðfram þessum breytingum munu Harry og Meghan fara að dvelja meira í Bandaríkjunum en þau ítreka þó að þau muni áfram halda heiðri skildu sína gagnvart drottningunni, samveldinu og þeim málefnum sem þau hafa stutt.
Þau segjast munu greina nánar frá tilhöguninni í fyllingu tímans og halda áfram að eiga samráð við drottninguna, Karl Bretaprins og Vilhjálm hertoga af Cambridge.