„Ekki ætlar fjórða valdið, fjölmiðlar þessa lands, að láta hana komast upp með það að segja að þetta hafi bara verið mistök þar sem liðin eru átta ár síðan það átti að skrá Flokk fólksins sem stjórnmálasamtök?“ skrifar Davíð Bergmann í aðsendri grein á Vísi þar sem hann fordæmir framgöngu Ingu Sæland og stjórntök hennar á Flokki fólksins sem hefur frá upphafi verið skráður sem félagasamtök.
Flokkur fólksins uppfyllir ekki skilyrði til þess að þiggja styrki frá ríkinu til að halda úti stjórnmálastarfi en hefur samt þegioð 240 milljónir króna af almannafé. Inga Sæland jhefur viðurkennt brotið og segist ekki munu fá styrki í ár þar sem ekki tekst að halda landsfund tímanlega til að fullnægja kröfum um skráningu. Hún ætlar þó ekki að endurgreiða 240 milljónirnar.
Davíð Bergmann, sem fylgir Miðflokknum að málum, spyr í grein sinni hvaða leikrit þetta sé og hvort „svona flokkur“ geti setið í ríkisstjórn Íslands.
Er þetta ekki skjalafals?
„Það kæmi mér ekki á óvart að þarna sé einhver bókhaldsleikfimi í gangi. Félagasamtök, en samt að þiggja ríkisstyrk sem stjórnmálaflokkur úr ríkissjóði? Er þetta ekki skjalafals og á það að líðast þegar fólk er komið á þing, og hvað þá í ríkisstjórn? Með réttu ætti að rannsaka þetta mál ofan í kjölinn,“ skrifar Davíð.
Hann telur að Inga og flokkur hennar muni þurfa að mæta örlögum sínum þegar næst verður kosið.
„Það tromp að ætla grenja framan í sjónvarpsvélarnar til að búa sér til pólitískt framhaldslíf og halda áfram að reka þetta eignarhaldsfélag fyrir sig og sína held ég að muni ekki selja næst en maður skal ekki útiloka þann möguleika því síðasta fíflið er ekki fætt hér á landi“.
Davíð rifjar upp svikin kosningaloforð og að Inga hafi sagt það sjálf í kosningabaráttunni að það ætti ekki einu sinni að hringja í hana nema bætur yrðu skatta- og skerðingarlausar upp að 450.000 krónum.
„Blekið er varla orðið þurrt þegar eignarhaldsfélag „félagasamtök“ Ingu Sæland er búið að selja sál sína, stefnur og hugsjónir bara til þess eins að komast að kötlunum,“ skrifar Davíð og segir að stefnan um Evrópusambandið hafi farið út um gluggann þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir brosti til Ingu. Það sama hafi verið sagt um Borgarlínuna en öll prinsipp séu fokin út í veður og vind og Flokkur fólksins standi ekki fyrir annað en innistæðulaus loforð.