Íbúar í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði voru í háska í nótt eftir að eldur braust út. Þegar slökkvilið kom á staðinn um klukkan hálf þrjú í nótt var íbúðin alelda og þrír íbúar í sjálfheldu á svölum hússins. Slökkviliðsmenn brugðu skjótt við og náðu að bjarga fólkinu úr háskanum á elleftu stundu.
Á Facebook-síðu slökkviliðsins segir að eldurinn hafi komið upp í rafhlaupahjóli í íbúðinni. Íbúðiðn er nánast ónýt eftir brunann og ljóst má vera að fólkið var í mikilli hætti. Slökkviliðsmenn minna á að fara varlega þegar verið er að hlaða hlaupahjól.
„Við minnum enn og aftur fólk á að nota rétt hleðslutæki fyrir hlaupahjólin og hlaða þau ekki nema einhver sé vakandi yfir hjólunum og helst ekki í íbúðarrýmum,“ segir í færslu slökkviliðsins.