Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.1 C
Reykjavik

Hatarar séu þátttakendur í „áróðursmaskínunni“ þvert á eigin hugmyndir um sérstöðu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Hatari, sem telja sig hafa einhvers konar sérstöðu vegna óljósra yfirlýsinga um mótmæli, taka þannig með beinum þætti í áróðursmaskínunni,“ segir í yfirlýsingu frá Sniðgöngum Eurovision í Ísrael sem birt var á Facebook í gærkvöldi. Í gær birtust myndskeið í fjölmiðlum frá upptökum á póstkorti fyrir beina útsendingu keppninnar.

„Hefð er fyrir því að spila stutt myndskeið á undan atriðum í Eurovision, sem eru gjarnan notuð til að kynna landið sem heldur keppnina fyrir áhorfendum. Ísrael hefur lagt mikla vinnu í póstkortin í ár, en formaður Kan sjónvarpsstöðvarinnar hefur kallað þau fullkomið tækifæri til að sýna 200 milljón áhorfendum „fagurt andlit Ísrael“,“ segir í tilkynningunni. Sniðgöngum Eurovision í Ísrael segir landið nota póstkortin sem tækifæri til að sýna hernumin og innlimuð svæði Ísraels. „Þema póstkortanna í ár er „dansandi Ísrael“, en þau eru tekin upp á völdum stöðum sem Ísrael vill sýna áhorfendum, meðal annars í Golan-hæðum. Við sjáum þannig með skýrum hætti hvernig Eurovision skapar tækifæri til að sýna ólöglega innlimuð og/eða hernumin svæði á borð við Golan-hæðir og palestínsku Austur-Jerúsalem sem hluta af Ísrael. Þetta er aðeins eitt af fjölmörgum dæmum um hvernig keppnin er notuð í áróðursskyni og í pólitískum tilgangi af Ísrael.“

Vilja nýta dagskrárvaldið til að gagnrýna stefnu Ísrael

Meðlimir Hatara sögðu í viðtali við Stundina síðastliðinn febrúar að fráleitt væri að Ísland taki þátt í keppni sem haldin er í ríki sem traðki á mannréttindum fólks. „Gagnrýnin á okkur er skiljanleg og til marks um að fjölmörgum Íslendingum svíður meðferðin á Palestínumönnum. Okkur finnst sjálfsagt að svara henni af virðingu og án þess að snúa svarinu upp í grín, sem við gerum vanalega í framkomu okkar við fjölmiðla. Það er ekkert öfgakennt við að tala fyrir sniðgöngu á keppninni. Við erum sammála þeim sjónarmiðum sem þar liggja að baki. Páll Óskar gerði til að mynda vel með því að sniðganga keppnina opinberlega. Þar með nýtti hann áhrif sín sem opinber persóna og nafntogaður Eurovision-spekúlant til að halda á lofti gagnrýnu samtali um Ísrael og sniðgöngu,“ hefur Stundin eftir Höturum.

Ísland og Ísrael voru miklar vinaþjóðir

Árið 1947 var Ísland eitt þeirra landa sem ljáðu skiptingu bresku Palestínu stuðning sinn. Svæðinu yrði skipt í ríki gyðinga annars vegar og ríki araba hins vegar. Tillagan var borin upp og samþykkt 29. október 1947. Ísland og Ísrael áttu náin og vinsamleg samskipti næstu árin og lengi vel voru Íslendingar meðal helstu stuðningsmanna Ísraelsríkis. Í sáttanefnd um Palestínu var Thor Thors, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, en hann var framsögumaður niðurstöðu nefndarinnar.

Af fréttaflutningi íslenskra fjölmiðla á fimmta áratug síðustu aldar má greina að Íslendingar hafi verið nokkuð stoltir af þætti sínum, og Thor Thors, í stofnun Ísraelsríkis. „Enginn vafi er á því, að nefnd sú, sem sendiherrann hefur nú verið kosinn í, er hin mikilvægasta,“ segir Morgunblaðið um málið. Óvíst er hvort sú túlkun blaðsins eigi sérstaklega við rök að styðjast enda var fjöldinn allur af nefndum stofnaðar um skiptingu bresku Palestínu milli gyðinga og araba. Íslendingar tóku veru sína í Sameinuðu þjóðunum afar alvarlega á fimmta áratugnum enda þátttaka okkar í ráðinu talin hluti af viðurkenningu annara þjóða á Íslandi sem sjálfstæðu ríki.

Vísir 12. nóvember 1964, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra ræðir við blaðamenn um för sína til Ísrael.

Skilyrðislaus vinátta

Sú var tíðin að vinsemd Íslands og Ísrael var slík að tekið var eftir. Íslensk stjórnvöld sýndu Ísrael strax mestu vinsemd og raunar mun meiri vinsemd en stjórnvöld annara Norðurlanda. Árið 1949 greiddu Íslendingar atkvæði með aðild Ísrael að Sameinuðu þjóðunum en Danir og Svíar sátu hjá. Þá höfðu sendiherrar þjóðanna tveggja skipst á trúnaðarbréfum þegar árið 1951. Vakin er athygli á samstarfi Íslands og Ísrael í lokaritgerð Jakobs Snævars Ólafssonar lokaritgerð til BA-gráðu frá árinu 2013 er fjallað um samskipti Íslands og Ísrael frá stofnun landsins. Jakob segir að Guðmundur Í. Guðmundsson utanríkisráðherra hafi eftir heimsókn sína til Ísraels árið 1960 vakið athygli Norðurlandaþjóða á hugmyndum Ísrael um að Norðurlönd myndu beita sér í auknu mæli í Afríku til að vega upp á móti áhrifum stórveldanna. Hugmyndin hlaut ekki hljómgrunn.

Landhelgisdeilur

Ísraelar ljáðu Íslandi stuðning sinni í Landhelgismálinu, það er að segja, þegar Íslendingar vildu færa eigin landhelgi í 12 mílur. Árið 1958 blésu Sameinuðu þjóðirnar til hafréttarráðstefnu í Genf, Sviss. Engar stórvægilega breytingar voru samþykktar á ráðstefnunni en Ísland ákvað í kjölfarið að færa eigin landhelgi út í 12 mílur. Viðbrögð Breta létu ekki á sér standa. Þeir mótmæltu ákaft og sendu herskip til þess að verja togara sína gegn íslensku varðskipunum. Hófst nú þorskastríð milli Íslands og Bretlands. Ísrael greiddi atkvæði með málstað Íslendinga á hafréttarráðstefnu nokkru síðar. Deila Íslendinga og Breta stóð til ársins 1961. Ísrael var heilt á litið mótfallið öllu takmörkuðu aðgengi að fiskimiðum. Þau töldu hins vegar að gera yrði undantekningu fyrir þjóðir sem lifðu nánast eingöngu á fiskveiðum.

- Auglýsing -

Aðdáun á báða bóga

Ásgeir Ásgeirsson, forseti Íslands, ávarpaði árið 1966 ísraelska þingið, Knesset. Ásgeir var þá fyrsti erlendi þjóðhöfðinginn til að hlotnast sá heiður. Heimsókn Ásgeirs stóð yfir í níu daga og var öll hin vinalegust. Ásgeir fór einnig fyrir vígsluathöfn nýrrar götu í Jerúsalem að viðstöddu fjölmenni. Ferðalag Ásgeirs var ekki fyrsta heimsókn Íslenskra ráðamanna til Ísrael en áður hafði Gísli Þ. Gíslason menntamálaráðherra heimsótt Ísrael í opinberum erindagjörðum árið 1965. Ráðherrarnir Bjarni Benediktsson og Guðmundur Í Guðmundsson höfðu sömuleiðis farið í heimsókn til landsins. Birgir Finnsson, þá forseti sameinaðs Alþingis, ávarpaði ísraelska þingið árið 1966, líkt og Ásgeir hafði gert. Samskipti ríkjanna voru ekki aðeins góð heldur ríkti gagnkvæm virðing og áhugi ríkjanna á milli. Íslendingar voru stoltir af þætti sínum í stofnun Ísrael og dáðust af elju Ísraela við uppbyggingu hins nýja ríkis. Þá virðast íslenskir ráðamenn almennt hafa verið stuðningsmenn zionisma og gerðu ekki athugasemdir við hugmyndafræðina. Ásgeir heiðraði á sínum tíma Theodor Herzl, upphafsmann stefnunnar, þegar hann lagði blóm að leiði hans. Bjarni Benediktsson gerði hið sama árið 1964.

Umfjöllun í Vikunni um Ísrael árið 1973.

Skilyrtur vinskapur

Almennt naut Ísraelsríki velvildar vesturríkjanna en eftir sex daga stríðið, árið 1967, fjölgaði ályktunum þar sem gjörðir Ísrael voru fordæmdar. Í áðurnefndri ritgerð Jakobs Snævar Ólafssonar segir að það hafi ekki verið fyrr en árið 1973 sem Ísland greiddi atkvæði með ályktun gagnrýnni á aðgerðir Ísrael. Íslendingar áttu það til að sitja hjá við kosningar vegna ályktana sem vörðuðu stöðu Jerúsalem eða ályktanir þar sem því var haldið fram að Ísrael bryti mannréttindi Palestínumanna. Í ályktunum þar sem ýtt var á Ísrael að draga til baka af herteknu svæðunum var sama uppi á teningnum; Ísland hélt sig til hlés.

Ísland gegn Ísrael

Árið 1971 greiddu íslensk stjórnvöld atkvæði með ályktun þar sem aðgerðir Ísrael gagnvart Palestínumönnum voru gagnrýndar. Ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar stefndi að sjálfstæðari utanríkisstefnu frá stórveldunum en þar til hafði verið raunin. Ætlunin var meðal annars að styðja betur við bakið á þjóðum þriðja heimsins. Undir lok ársins kom upp ágreiningur innan fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Innan hópsins þótti nokkrum Hannes Kjartansson, fastafulltrúi Íslands ganga gegn stefnu ríkisstjórnarinnar með stuðningi sínum við Ísrael. Hann mun hafa mótmælt því og sagt að alltaf hefði ríkt samhugur um að styðja við bakið á Ísrael. Hagsmunir Íslands á alþjóðavettvangi blönduðust svo inn í málin. Árið 1973 greiddu íslensk yfirvöld atkvæði með ályktun sem gagnrýndi notkun Ísraela á náttúruauðlindum svæða sem þeir höfðu hertekið í sex daga stríðinu árið 1967. Stríðið var á milli Ísraels annars vegar og Egyptalands, Jórdaníu og Sýrlands hins vegar. Stríðið var háð milli 5.–10. júní. Írak, Sádi-Arabía, Súdan, Túnis, Marokkó og Alsír lögðu einnig til hersveitir til stuðnings aröbum. Atkvæði Íslands með ályktuninni var afar óvenjulegt. Það var þó ekki svo að virðing við mannréttindi Palestínubúa ræki Íslendinga áfram í málinu. Sjálfir stóðu Íslendingar í baráttu yfir eigin náttúruauðlindum og höfðu af þeim sökum áður fengið samþykkta ályktun um yfirráð þróunarríkja á eigin náttúruauðlindum. Sú ályktun var í meginatriðum sú sama og ályktun um auðlindir hertekinna svæða. Fulltrúar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum töldu sig þar af leiðandi ekki geta annað en samþykkt ályktunina. Hætt er við að hefðu Íslendingar ekki stutt ályktunina um auðlindir herteknu svæðanna að erfiðlega hefði gengið fyrir stjórnvöld að treysta á stuðning þróunarríkja í landhelgisdeilu Íslendinga. Áður höfðu Ísraelsmenn stutt Ísland í landhelgisdeilu landsins en nú var svo komið að Ísrael sat hjá í málinu. Stuðningur Ísrael við landhelgiskröfur Íslands var því liðin tíð. Árið 1974 sat Íslands aftur á móti hjá þegar samskonar ályktun um auðlindir herteknu svæðanna var afgreidd á þingi Sameinuðu þjóðanna. Ný ríkisstjórn hafði í millitíðinni tekið við en sú stjórn hafði minni áhyggjur af sjálfstæði utanríkisþjónustu gagnvart Bandaríkjunum.

- Auglýsing -

Ísland viðurkennir Palestínu

Diplómatísk samskipti Íslands og Ísrael eru í dag fremur köld. Árið 2012 tók Shimon Peres, þá forseti Ísrael, það sérstaklega fram að samskipti Íslands og Ísrael væru í kaldara lagi er hann tók við trúnaðarbréfi sendiherra Íslands gagnvart Ísrael. Hann bætti við að færi væri til að bæta úr því. Viðurkenning Alþingis á sjálfstæði Palestínu ári áður hafði ekki orðið til þess að sætta Ísraelsmenn sérstaklega. Þá virðist Össuri Skarphéðinssyni, fyrrverandi forsætisráðherra, hafa verið einstaklega lítið í mun að ganga í augun á Ísrael. Árið 2011 fór Össur í heimsókn til Miðausturlanda en forðaðist samskipti við Ísrael í þeirri ferð. Það vakti viðbrögð í Ísrael en Manfred Gerstenfeld formaður Miðstöðvar um almannatengsl í Jerúsalem skrifaði afar harðorða grein um hroka Össurar gagnvart Ísraelsmönnum. Össur gaf lítið fyrir þá gagnrýni. Frægust er þó ræða Össurar á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, frá september árið 2012, þar sem utanríkisráðherra fór hörðum orðum um Ísrael. Í ræðunni ávarpaði hann Netanyahu og kallaði eftir því að hann rífi niður aðskilnaðarvegg Ísraela á Vesturbakkanum.

Þess má geta að meðal þeirra sem greiddu tillögu Alþingis, um viðurkenningu sjálfstæðis Palestínu, atkvæði sitt var Amal Tamimi, varaþingkona Samfylkingarinnar. Amal er fædd og uppalin í Jerúsalem. Í ævisögu sinni segir Amal frá því að þegar hún þrettán ára var handtekin og ákærð fyrir að kasta steinum í ísraelska hermenn. Að eigin sögn sat Amal í fangelsi í tvær vikur á meðan hún beið réttarhalda og hlaut sex mánaða dóm.

Vinsæll og veit af því

Erfitt getur verið að ímynda sér stuðning við Palestínu og óhug vegna aðgerða Ísrael sem jaðarskoðun. Almennt eru Íslendingar í dag stuðningsmenn Palestínu enda höfum við gengið lengra en önnur vestræn ríki í að viðurkenna stöðu Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki. Sú var þó staðan á Íslandi framan að. Stuðningur og raunar samúð við Palestínu var jaðarskoðun langt til vinstri á meðan Ísrael vakti áhuga og aðdáun Íslendinga. Gríðarleg uppbygging var í Ísrael á áratugunum eftir stofnun. Þeir sem hölluðu til hægri litu gjarnan svo á að Ísrael væri ríki vestrænnar menningar í heimi araba og mikilvægt sem slíkt. Vinstrimenn voru gjarnan hrifnir af sósíalískum áherslum Ísraela. Vinstrimiðlar hér á landi voru afar hrifnir af áherslu Ísrael á samvinnufélög og samyrkjubúskap. Íslendingar tengdu sömuleiðis baráttu ísraelskra gyðinga fyrir eigin ríki við sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.

Þótt breytingin hafi orðið á löngum tíma og sé afleiðing margra þátta er vert að nefna sérstaklega þátt Steingríms Hermannssonar forsætisráðherra og formann Framsóknarflokksins en sem ráðherra var hann afar gagnrýninn á Ísrael í samanburði við forvera sína og tók gjarnan undir málstað Palestínumanna. Leiða má að því líkur að vilji æðsta embættismanns Íslands til að taka upp hanskann fyrir málstað Palestínumenn eigi talsverðan þátt í að færa þá umræðu frá jaðri rökræðunnar út til miðju umræðunnar. Sömuleiðis tók Steingrímur ítrekað upp hanskann fyrir Palestínumenn á meðan hann var utanríkisráðherra og það þrátt fyrir að samstarfsflokkurinn væri oft afar ósáttur við afstöðu Steingríms.

Uppreisn Palestínumanna

Í ævisögu Steingríms segir að viðbrögð Ísraela við uppreisn Palestínumanna á herteknu svæðunum sem braust út árið 1987 hafi orðið til þess að hann ákvað að gagnrýna Ísrael með jafn afgerandi hætti og raun varð. Steingrímur hafði fram að því ekki sýnt stöðu Palestínumanna sérstakan áhuga og hafði raunar sagt að hann skyldi sjónarmið Ísrael. Eftir að Ísraelar brutu að baki uppreisnina af mikill hörku breyttist tónninn. „Mér sýnist ekki unnt að líkja því við neitt annað en hin verstu hryðjuverk,“ sagði Steingrímur, þá utanríkisráðherra, um aðgerðir Ísraelshers í umræðum um málið á þingi. Þá sagði hann að enginn gæti stutt morð á ófrískum konum og gamalmennum. Skömmu síðar lýsti hann því yfir að Frelsissamtök Palestínumanna PLO væru raunar lögmæt fulltrúasamtök Palestínumanna. Steingrímur steig þannig nauðsynlegt skref í átt að því að færa samskipti Íslands og fulltrúa Palestínu á jafnréttisgrundvöll sem sjálfstæð og fullvalda ríki. PLO voru, á þessum tíma, að mati Ísraela hryðjuverkasamtök og því er ljóst að ummæli hans og afstaða til PLO settu samskipti ríkjanna í viðkvæma stöðu. Þorsteinn Pálsson sem þá var forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins tók ekki í mál að hitta eða ræða við PLO. Í ævisögu sinni segir Steingrímur að honum hafi þótt þetta barnaleg afstaða en að hann hafi tímabundið hætt við að hitta Yasser Arafat, formann frelsissamtaka Palestínu, sökum harkalegra viðbragða Sjálfstæðismanna.

Hatari stíga á svið í Tel Aviv þann 14. maí næstkomandi með lag sitt Hatrið mun sigra.

Mynd / Magnús Andersen fyrir Grapevine

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -