Fjórar borgarhátíðir fá 10 milljónir í styrk frá Reykjavíkurborg næstu þrjú árin.
Tilkynnt hefur verið um hvaða borgarhátíðir urðu fyrir valinu hjá menningar-, íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur sem fá styrk frá Reykjavíkurborg næstu þrjú árin.
Hinsegin dagar – Reykjavík Pride, Hönnunarmars, Iceland Airwaves, RIFF – Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, Myrkir músíkdagar og Reykjavík Dance Festival eru hátíðirnar sem hljóta styrk.
Hinsegin dagar – Reykjavík Pride, Hönnunarmars, Iceland Airwaves og RIFF – Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík hljóta tíu milljónir króna hver á ári.
Myrkir músíkdagar og Reykjavík Dance Festival hljóta fimm milljónir króna hvor á ári og eru þær nýjar í hópi borgarhátíða er fram kemur á vef Reykjavíkurborgar.
Þar segir að hlutverk borgarhátíða sé meðal annars að „efla menningu og mannlíf í Reykjavík en þær þurfa jafnframt að uppfylla ýmis önnur skilyrði, svo sem að vera aðgengilegar og sýnilegar, vera með alþjóðlega tengingu og uppfylla kröfur um fagmennsku og gæði“.
Þess má geta að menningar-, íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur hafði umsögn frá faghóp til hliðsjónar þegar hátíðirnar voru valdar. Faghópurinn var skipaður fulltrúum frá Bandalagi íslenskra listamanna, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum verslunar og þjónustu og menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar.