Dagskrá Alþingis gerir ráð fyrir að fundað verði langt fram á kvöld. Það er þrátt fyrir að Hatarar stíga á svið í kvöld til að tryggja Íslandi áframhald í keppninni.
Það er orkupakki þrjú sem líklega verður til umræðu þegar bein útsending frá Tel Aviv hefst. Hatarar eru númer þrettán á svið en veðbankar telja líkurnar Íslandi í hag. Líklegt sé að Hatarar komist áfram og keppi á úrslitakvöldi keppninnar.
Þrátt fyrir að þriðji orkupakkinn sé mörgum mikið hitamál er ólíklegt að umræðurnar nái að trompa áhorfendatölur Eurovision. Keppnin er gríðarvinsæl um alla Evrópu. Raunar er hún langsamlega stærsti tónlistarviðburður í sjónvarpi ár hver.
Áhuginn fyrir keppninni hér á landi er umtalsverður. Árið 2017 horfðu til að mynda 98% þeirra sem horfðu á sjónvarp á annað borð á keppnina. Það þýðir að aðeins 2% þeirra sem horfðu á sjónvarp á meðan á keppninni stóð horfðu á eitthvað annað. Uppsafnað áhorf á keppninar 2017 var 81%
Tekið skal fram að óvíst er hvort gerð verður hlé á þingfundi á meðan keppninni stendur eða hvort samið verður um að fresta þingfundi. Þær upplýsingar fengust hjá þinginu að líklega yrði þingfundur fram eftir kvöldi.
Þingfund má horfa á í beinni útsendingu á vef Alþingis.