Eiginmaður fjölmiðlakonunnar Láru Ómarsdóttur, Haukur Olavsson, vaknaði við slæman verk á gamlársdag, sem reyndist vera hjartaáfall.
„Ég sendi ykkur öllum áramótakveðju þessi áramótin héðan frá Hringbrautinni,“ skrifar Haukur á Facebook í gær, en hann dvelur nú á Landspítalanum.
„Mér fannst árið 2021 svo tíðindalítið og tilbreytingalaust að ég ákvað að skella í eitt stykki hjartaáfall nú í morgunsárið á þessum síðasta degi ársins.“
Haukur segir að allt hafi farið vel, en hann hafi verið búinn í þræðingu tveimur tímum eftir að hann vaknaði við verkinn. Hann segist liggja í góðu yfirlæti á Lansanum og hugsa til allra kæru vina sinna og ættingja.
„Ég minni mig á um leið hversu ótrúlega heppinn ég er að eiga svona frábæra konu eins og hana Láru og þessi yndislegu börn, tengdabörn og barnabörn. Gleðilegt nýtt ár öll sömul. Ég er mjög spenntur fyrir 2022,“ skrifar Haukur að lokum.