Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Haukur Guðmann er látinn: „Það er skammt stórra högga á milli“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Haukur Guðmann Gunnarsson endurskoðandi er látinn einungis 69 ára. Hann lést á Landspítalanum þann 19. janúar 2021. Margir syrgja hann en auk vina og vandamanna þá halda KR-ingar nafni hans á lofti. Hann var gjaldkeri stjórnar knattspyrnudeildar KR árin 1981 til 1990 og skoðunarmaður reikninga upp frá því til hinsta. Haukur var sæmdur gullmerki KR með lárviðarsveig og gullmerki KSÍ fyrir störf sín í þeirra þágu. Hann var farsæll í starfi og var meðeigandi KPMG og starfaði þar sem endurskoðandi til ársins 2019.

Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, formaður KR, skrifar minningargrein í Morgunblaðið um Hauk fyrir hönd KR. Þar segir hann félagið hafa verið ótrúlega heppið að eiga jafn traustan mann og Hauk að. „Það er skammt stórra högga á milli, fallinn er frá góður KRingur, Haukur Guðmann Gunnarsson endurskoðandi, en fyrir nokkrum vikum var borinn til grafar föðurbróðir Hauks, Sigurgeir Guðmannsson heiðursfélagi KR. Þau störf sem Haukur hefur í gegnum áratugina unnið fyrir félagið eru ómetanleg. Hann sat í stjórn knattspyrnudeildar KR, var aðalendurskoðandi aðalstjórnar sem og annarra deilda KR í áratugi. Traustari mann var ekki að finna,“ skrifar Gylfi.

Hann segist hafa hitt Hauk fyrir ekki svo löngu og þá hafi verið stutt í brosið. „Haukur var alltaf boðinn og búinn að rétta félaginu hjálparhönd og taldi aldrei það eftir sér og það var sérlega gott að vinna með honum. Slíkir einstaklingar eru hverju íþróttafélagi ómetanlegir og leggja grunn að öflugu íþróttastarfi eins og Haukur gerði fyrir KR. Haukur hlaut gullnælu KR með lárviðarsveig sem veitt er fyrir mikil og góð störf í þágu félagsins. Við KR-ingar vorum heppnir að eiga mann eins og Hauk að. Ég rakst á Hauk fyrir nokkrum mánuðum á förnum vegi og eins og ávallt var stutt í brosið, hláturinn og glettnina í augunum. Ekki hvarflaði það að mér að það yrði í síðasta skipti sem við hittumst,“ segir Gylfi og bætir við að félagið sendi hans nánustu innilegar samúðarkveðjur:

„Við KR-ingar minnumst Hauks með mikilli virðingu og þakklæti fyrir allt sem hann gerði fyrir gamla góða KR og þökkum honum samfylgdina í gegnum tíðina. KR-ingar senda eiginkonu hans, Elínu, börnum, barnabörnum og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.“

Samstarfsfólk hans hjá KPMG sendir fjölskyldu hans einnig samúðarkveðju en Hlynur Sigurðsson skrifar fyrir hönd þeirra. „Við óvænt fráfall Hauks Gunnarssonar kveðjum við starfsfólk KPMG góðan samstarfsmann, vinnufélaga og vin til tveggja áratuga. Haukur kom til starfa hjá KPMG þegar SH Endurskoðun, sem hann starfaði hjá og var annar eigenda að, sameinaðist KPMG rétt fyrir aldamótin. Við sameininguna varð hann einn af meðeigendum KPMG. Haukur lét strax til sín taka innan félagsins sem starfsmaður og hluthafi. Hann hafði sterkar skoðanir á málefnum sem voru efst á baugi hverju sinni, var fylginn sér og rökfastur,“ skrifar Hlynur.

- Auglýsing -

Hann hefur orð á því að líkt og Gylfi hve stutt var í brosið og hláturinn. „Hans glaðlega yfirbragð og eftirminnilegi hlátur smitaði út frá sér til samstarfsfólks, sem líkaði návist hans. Haukur lét sig ekki vanta á mannfögnuðum félagsins og tók fullan þátt í þeim alla tíð. Haukur lét af störfum hjá félaginu fyrir tæpum tveimur árum síðan og þegar hann greindist skömmu síðar með krabbamein tókst hann á við veikindin af æðruleysi og með jákvæðni að vopni eins og honum var einum lagið. Þannig minnumst við hans nú þegar leiðir skilur. Við samstarfsfólk hjá KPMG sendum Elínu og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -