Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum, segir hnífaofbeldi á meðal ungmenna vera vaxandi áhyggjuefni; að lögreglan leiti nú leiða til þess að koma í veg fyrir slíkt á útihátíðum hér á landi sem eru fjölmargar yfir sumartímann.
Óhætt er að segja að öryggisgæsla á útihátíðum sem og öðrum stórum viðburðum hafi breyst með árunum; má rekja það til aukinnar vopnavæðingar í íslensku samfélagi.
Meira en eitt hundrað manns koma að öryggisgæslunni á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og vill lögreglan bæta löggæsluna í það heila, en þetta kemur fram á RÚV.
Einnig að lögreglan hefur verið með starfsmenn í fíkniefnaleit árum saman sem og viðbrögð í tengslum við kynferðisofbeldi; er lögreglan með tiltæka rannsóknarlögreglumenn og móttöku í dalnum sjálfum.
Málmtæki hafa verið notuð við slíkar leitir; Karl Gauti segir það hins vegar nánast ómögulegt að nota slík tæki á alla gesti hátíðarinnar:
„Að öðru leyti er viðbragðið óbreytt á öllum öðrum sviðum. En þessi hnífaburður er bara nýtt og frekar nýlegt, og hefur verið vaxandi á landinu undanfarin ár og við ætlum bara að bregðast við því fyrir fram og reyna að koma í veg fyrir að það berist inn á þessa hátíð. Við höfum ekki orðið var við neitt nema ánægju gesta með það ef að löggæslan er sýnileg. Menn hafa þvert á móti verið að hrósa okkur fyrir það að vera mikið á staðnum og vera mikið á ferðinni inni í dal og í bænum,“ segir Karl Gauti og og bætir við að lögreglan haldi ótrauð áfram að tryggja öryggi gesta á Þjóðhátíð í Eyjum:
„Það er okkar markmið. Að allir komi heilir heim eftir góða skemmtun.“