Takist ekki að finna samningsflöt milli Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands á samningafundi í dag er tilgangslaust að halda viðræðunum áfram. Þá verða aðrar leiðir farnar. Þetta er mat Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, sem segist ekki ætla að að láta neitt koma í veg fyrir björgun félagsins.
Bogi segir mikilvægt að samningur náist. „Það er mjög mikilvægt að semja við flugfreyjur. Ef við náum ekki að semja þurfum við að skoða aðrar leiðir en við erum ekki komin þangað enn. Við erum bara í því verkefni að bjarga þessu fyrirtæki, takist ekki að semja núna setjum við það á fullt að fara aðrar leiðir.“
Aðspurður um hvort aðrar leiðir hafi nú þegar verið skoðaðar segir Bogi svo vera en að engar viðræður við önnur félög hafi átt sér stað. Hvort samningar við annað íslenskt flugstéttarfélag komi til greina sem ein leiðanna segist Bogi ekki geta tjáð sig um það á þessu stigi. „Auðvitað höfum við skoðað ýmislegt í því samhengi. Við höfum allavega ekki hafið viðræður við neitt annað félag,“ segir hann.
Lestu meira um málið í Mannlíf.