Arkitektinn, eldri borgarinn og Samfylkingarmaðurinn Finnur Birgisson segist á Facebook hafa verið hugsi eftir áhorf á kvöldfréttir RÚV í gær.
Það var þó ekki efni fréttana sem var honum hugleikið heldur eitt atriði sem varðar útsendinguna: hvers vegna halda íþróttafréttamenn ávallt á spjöldum þrátt fyrir að lesa texta sinn af skjá bak við myndavélina.
Vafalaust er Finnur ekki sá fyrst sem veltir þessu fyrir sér.
„Ég er enn að velta því fyrir mér hver sé hugsunin á bak við það að láta íþróttafréttamennina alltaf halda svona á þessu spjaldi þegar þeir eru í mynd. Líklegasta skýringin finnst mér vera sú að þetta eigi að veita þeim öryggiskennd og gera þau afslappaðri, þ.e. að spjaldið hafi svipaðan tilgang og snuðið hjá litlu börnunum.
Hvað haldið þið – er þetta líkleg skýring?,“ spyr Finnur og deilir myndinni hér fyrir neðan.