Harry Bretaprins og Meghan Markle, nú hertogahjónin af Sussex, gengu í það heilaga síðustu helgi í Windsor. Mörg hundruð milljónir manna fylgdust með herlegheitunum og gekk allt eins og í sögu.
Sjá einnig: Stjörnurnar fjölmenntu í konunglega brúðkaupið.
Á opinberum brúðkaupsmyndum, sem Kensington-höll hefur sett á netið, sést hvernig Harry heiðrar minningu móður sinnar, Díönu prinsessu heitinnar, á myndunum.
Á einni myndinni situr Harry í smaragðsgrænum sófa og Meghan situr á gólfinu fyrir neðan hann. Þau eru umkringd börnum í konungsfjölskyldunni, þar á meðal börnum Vilhjálms og Kate Middleton.

Díana heitin sat í þessum sama sófa þegar myndir voru teknar af konungsfjölskyldunni eftir skírn Harrys árið 1984. Þá hélt Díana á syni sínum, eins og sést hér fyrir neðan:

Harry lagði í raun mikið upp úr því að hafa móður sína með í anda á stóra daginn og týndi til að mynda eftirlætisblóm hennar í brúðarvönd Meghans.
