Skoska eyjan Linga við Hjaltlandseyjar, norður af skoska meginlandinu, er nú til sölu. Ásett verð er 351 þúsund dollarar, rétt tæplega 35,5 milljónir króna.
Eyjan er tæplega 26 hektarar og kemst maður hæglega út í hana á bát frá skoska bænum Walls. Það þýðir að þeir sem setjast að á Lingu eru ekki langt frá siðmenningu, þó einangrunin sé algjör á eyjunni, þar sem enginn býr.
Reyndar hefur enginn búið á Lingu síðan árið 1934 þannig að smáhýsin tvö sem á eyjunni eru þarfnast mikils viðhalds. Nýr eigandi fær hins vegar leyfi til að byggja nýtt smáhýsi og bryggju, svo eitthvað sé nefnt.
Þá gefur byggingarleyfið nýjum eiganda einnig heimild til að setja upp sólar- og vindorkusellur þannig að ljóst er að framtíðin á Linga er mjög umhverfisvæn.
Það er fyrirtækið Vladi Private Islands sem sér um sölu á eyjunni en myndband af þessari náttúruperlu má horfa á hér fyrir neðan.
Texti / Lilja Katrín
[email protected]