Laugardagur 11. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Heilandi að taka þátt í sögu annarra

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur hjálpar fólki að skrifa sig frá erfiðum tilfiningum.

Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur leiðbeinir fólki sem vill losa sig frá erfiðum tilfinningum með skapandi skriflegri tjáningu á ritmennskunámskeiði við Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði. Hún trúir á gagnsemi þess og segist sjálf hafa grafið eftir eigin sorg þegar hún skrifaði Tímaþjófinn.

„Við byrjum á því að skrifa um og fjalla um erfiðleika og skugga en svo fikrum við okkur í áttina að ljósinu, skrifum um það sem er jákvætt og þakkarvert og reynum að byggja á því til framtíðar,“ segir Steinunn.

„Markmiðið er að lífsbyrði þátttakenda léttist með því að þeir nái að tjá sig um erfiðar hugsanir og tilfinningar í rituðu máli.  Með því að vinna úr þessum erfiðu tilfinningum skriflega þá næst önnur nálgun heldur en með einungis þráðbeinni munnlegri tjáningu – sem er auðvitað óhjákvæmileg líka á svona námskeiði,“ útskýrir Steinunn þegar blaðamaður grennslast fyrir um námskeiðið. „En eitt af því undraverða sem ég hef séð á fyrri námskeiðum er svo hvernig hópurinn verður að uppbyggingarafli sem er mjög sterkt.“

Þessi aðferð, að skrifa sig frá erfiðum tilfinningum, hefur sýnt sig að hún beri árangur?  „Ég fann það auðvitað ekki upp að ritmennska gæti hjálpað fólki til að ná tökum á andlegum sársauka og til þess að vinna úr áföllum, erfiðleikum og sorg.  Þannig að aðferðin er má segja viðurkennd, heilt yfir. Hins vegar hef ég fundið út mína eigin útgáfu og útfærslu. Og það hlýtur að vera leitun að leiðbeinanda sem hefur mína löngu reynslu af ritstörfum, hálf öld, takk,“ segir hún og kveðst þess utan eiga í sínum reynslubanka ýmislegt nýtilegt, allt frá háskólanáminu til alls konar lífsreynslu, sem sé að hluta til afskaplega sársaukafull. „Og mér mundi auðvitað ekki detta í hug að leiðbeina á svona námskeiði nema af því að ég er opin fyrir öðrum og mig langar einlæglega til þess að verða náunganum til gagns og gamans.“

„… mér mundi auðvitað ekki detta í hug að leiðbeina á svona námskeiði nema af því að ég er opin fyrir öðrum og mig langar einlæglega til þess að verða náunganum til gagns og gamans.“

En hefur aðferðin langvarandi jákvæð áhrif á andlega heilsu fólks? „Ja, eitt get ég sagt með vissu í ljósi þess að ég hef gert þetta áður og það er að skammtímaáhrifin á námskeiðunum hafa verið ótrúlega upplyftandi og upplífgandi.  Sumir hafa viljað koma aftur, þar á meðal ein eldri kona sem hafði þau orð við mig að námskeiðið væri einstakt, maður færi „út úr sinni sögu.“  Og þetta var eitt af því góða sem ég sá ekki fyrir að er „heilandi“ ef ég má nota það orð að taka þátt í sögu annarra.“

Gróf eftir sinni eigin sorg

Þegar hún er spurð hvort hún hafi sjálf skrifað til að losa sig frá erfiðri reynslu eða erfiðum tilfinningum segist Steinunn ekki eiga gott með að svara þeirri spurningu. Hún hafi fyrst byrjað að skrifa í kringum tólf eða þrettán ára aldur í tilfinningaumróti og þyngslum unglingsáranna. Sé hún að skrifa sig frá einhverju sé það ósjálfrátt. Það sé ekki tilgangurinn með skrifunum, hvort sem það er í ljóði eða skáldsögu.

- Auglýsing -

„En ég hef séð það á prenti oftar en einu sinni að Alda Ívarsen í Tímaþjófnum sé einhver harmrænasta persóna í seinni tíma bókum á íslensku. Og ég get alveg fullyrt að ég hafi grafið eftir minni eigin sorg þegar ég bjó Öldu til,“ viðurkennir hún.

En hvernig stóð eiginlega á því að þú fórst að af stað með þetta námskeið? „Þetta byrjaði nú þannig að mér bauðst að vera fyrsti staðarrithöfundur við Háskólann í Strassborg, flytja þar fyrirlestra og kenna skapandi skrif. Í fyrstu umferð komu fimmtán úrvalsnemendur með mjög ólíkan bakgrunn og þarna mynduðust mögnuð tengsl bæði þeirra á milli og milli mín og hópsins. Nokkrir voru ákaflega feimnir í byrjun, en í pakkanum var meðal annars að allir þurftu að standa upp og lesa upphátt.

„Ég hvet þátttakendur til þess að nota húmor í skrifunum þegar líður á námskeiðið, enda er húmor sammannleg tækni til þess að lifa af erfiðleika,“

Smám saman varð ég vitni að hreinasta undri, já ég kalla það bara undur, því ég var svo uppnumin og hissa þegar nemendurnir sem mest voru til baka fóru að blómstra. Og þá laust þeirri hugmynd niður í kollinn á mér hvort fólk sem glímir við erfiðleika, er niðurdregið, gæti í hópi og með leiðbeinanda mögulega skrifað sig frá erfiðum tilfinningum.“

- Auglýsing -

Fikrum okkur í áttina að ljósinu

Að sögn Steinunnar koma þátttakendur á Ritmennskunámskeiðið á NLFÍ í Hveragerði að morgni föstudagsins 2. febrúar og stendur námskeiðið þar til síðdegis á sunnudegi, 4. febrúar. Innifalið er gisting í tvær nætur, aðgangur að sundlaug, tækjasal og allur matur á staðnum. Þátttakendur skrifa meðan á námskeiðinu stendur og farið er yfir textana í hópnum.  „Við byrjum á því að skrifa um og fjalla um erfiðleika og skugga en svo fikrum við okkur í áttina að ljósinu, skrifum um það sem er jákvætt og þakkarvert og reynum að byggja á því til framtíðar. Ég hvet þátttakendur til þess að nota húmor í skrifunum þegar líður á námskeiðið, enda er húmor sammannleg tækni til þess að lifa af erfiðleika,“ segir hún og bætir við að frá hennar bæjardyrum séð sé námskeiðið haldið við kjöraðstæður þar sem þátttakendur hverfa úr amstri hversdagsins, á þennan einstaka stað sem Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði sé.

En nú er þetta helgarnámskeið, er ekki viðbúið að þeir sem sækja það þurfi að halda áfram með vinnuna að því loknu? „Ég legg til að fólkið mitt byrji hversdaginn sinn á því að skrifa, þó ekki sé nema eina línu.  Svo er það undir hverjum og einum komið hvernig hann vinnur úr lífsreynslunni á námskeiðinu og leiðbeiningunum,“ svarar hún og segir það út af fyrir sig magnað að senda þátttakendur heim léttari á brún eftir námskeiðið.

Texti / Roald Eyvindsson
Myndir / Sigtryggur Ari Jóhannsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -