Stjórnvöld í Bretlandi hafa í samráði við heilbrigðisyfirvöld ákveðið að draga úr upplýsingaflæði um útbreiðslu kórónaveirunnar Covid-19 í Bretlandi. Ákvörðunin hefur verið harðlega gagnrýnd þar sem minni upplýsingar geri fólki erfiðara fyrir að leggja sitt af mörkum til að draga úr útbreiðslu veirunnar.
Fjöldi greindra tilfella af kórónaveirunni hefur aukist um sjötíu prósent í Bretlandi undanfarna tvo daga og nú er svo komið að yfirvöld hafa ákveðið að gefa ekki upplýsingar um hvar tilfellin hafi greinst nema einu sinni í viku, á föstudögum.
Greind tilfelli á Bretlandseyjum eru nú orðin níutíu og almenningur og sérfræðingar óttast að með minni upplýsingagjöf verði útbreiðslan enn hraðari þar sem fólk fái ekki upplýsingar um þá staði þar sem veiran hefur greinst og viðhafi því ekki viðeigandi varúðarráðstafanir.
Þrír af þeim sem haf greinst með veiruna hafa hvorki ferðast utanlands né verið í nánum samskiptum við ferðalanga sem vekur ótta við að veiran sé þegar búin að búa um sig í breskum borgum og bæjum.
Ýmsir í forystusveit lýðheilsumála og smitsjúkadómafræðum hafa harðlega andmælt þessari ákvörðun og bent á að með því að draga úr upplýsingagjöf séu yfirvöld að ýta undir dreifingu á fölskum fréttum sem fólk hafi ekki möguleika á að meta hvort hafi sannleiksgildi ef það fái ekki daglegar fréttir af því hvernig ástandið sé í raun og veru.