Heimildarmyndin Greta, sem fjallar um leið Gretu Thunberg frá því að vera óþekkt skólastelpa í Stokkhólmi til þess að verða heimsfrægur aktífisti, verður frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum sem haldin verður 2. til 12. september.
Leikstjórinn Nathan Grossman byrjaði að fylgja Gretu eftir þegar hún hóf að berjast fyrir umbótum í loftslagsmálum með verkföllum fyrir loftslagið aðeins fimmtán ára gömul. Á nokkrum mánuðum urðu verkföllin sem hún stóð fyrir að alheimshreyfingu og Greta varð skyndilega á allra vörum. Myndin fylgir henni alveg þar til hún ávarpaði allsherjaþing Sameinuðu þjóðanna í fyrra og tökumenn festa á filmu siglingu hennar yfir Atlantshafið, fundi með heimsleiðtogum og skemmtilegar uppákomur eins og þegar Arnold Schwarzenegger lánaði henni rafmagnsbíl til að komast ferða sinna innan Bandaríkjanna á umhverfisvænan hátt.
„Það er mjög vel við hæfi að myndin verði frumsýnd í Feneyjum,“ segir Cecilia Nessen, annar framleiðandi myndarinnar í samtali við Aftonbladet. „Þær eru einn þeirra staða sem munu verða verst úti ef ekki er gripið til aðgerða í loftslagsmálum nú þegar,“ bætir hún við. Spurð hvað Gretu sjálfri finnist um að myndin verði sýnd á Feneyjahátíðinni segir Cecilia að þær hafi bara rætt það stuttlega en Gretu hafi litist mjög vel á það.
Kvikmyndahátíðin í Feneyjum er fyrsta kvikmyndahátíðin sem haldin verður með hefðbundnu sniði síðan takmarkanir vegna heimsfaraldursins skullu á og verður, eins og áður sagði, haldin dagana 2. til 12. september næstkomandi ef allt gengur eftir.