Jón Grétar Jónasson Sigríðarson vinnur nú að heimildarmynd um vin sinn Hauk Hilmarsson sem féll í árás Tyrklandshers á Kúrda í Afrin héraði í Sýrlandi árið 2018. Sandra Guðrún Guðmundsdóttir tók nýlega viðtal við Jón Grétar í Fréttablaðinu þar sem hann talar um tilurð myndarinnar og vináttu sína við Hauk.
Þeir félagar kynntust þegar Haukur hóf störf í skógræktarfyrirtæki föður Jóns Grétars þegar þeir voru ungir drengir.
„Hann var nokkrum árum eldri en ég og maður lærði mikið af honum og hann var eins konar fyrirmynd,“ segir Jón Grétar um fyrstu kynni sín af Hauki.
Þeir Haukur voru ekki í stöðugum samskiptum þrátt fyrir að hafa kynnst ungir en Jón Grétar hafði samband við Hauk þegar þeir höfðu ekki hist í rúm átta ár og bað hann að taka þátt í gerð heimildarmyndar sem hann vildi gera um Hauk.
„Á þessum tíma er Haukur að snúa lífi sínu við. Hann var búinn að enda á eins konar vegg og var mjög ósáttur við sjálfan sig. Ég get í raun ekki ljóstrað upp neinu meira um hann og okkar samband án þess að ljóstra upp plottinu í myndinni. Við fórum mjög djúpt ofan í hans tilveru. Myndin mun svara stórum spurningum eins og af hverju hann fór til Sýrlands og nákvæmlega hvað það var sem hvatti hann áfram,“ upplýsir Jón Grétar.
Þeir voru báðir ansi uppteknir á þessum tíma og voru því ekki í miklu sambandi eftir að þeir kláruðu fyrstu tökurnar.
„Síðast þegar ég heyrði í Hauki lá honum eitthvað á hjarta sem hann þurfti að ræða við mig í persónu en ég hafði ekki tíma fyrr en vikuna eftir og það hentaði ekki Hauki. Það samtal átti ég við hann rétt áður en hann fer fyrst til Sýrlands og ég mun aldrei vita hvort hann hefði rætt þær fyrirætlanir við mig ef við hefðum hist. Mér finnst rosalega erfitt að hugsa til þess eftir á, um ef og hefði,“ segir Jón Grétar með trega.
„Ég man rosalega vel þegar ég heyrði það í útvarpsfréttum að Íslendingur hefði fallið í Sýrlandi. Ég man hvernig hjartað sökk í mér, því þó hann hafi ekki verið nafngreindur þá vissi ég samstundis að þetta væri Haukur. Ég eyddi síðan einhverjum svefnlausum nóttum grátandi í að hlusta á samtölin sem við áttum.“
Stefna myndarinnar hefur breyst, þar sem Haukur er nú talinn af en ári eftir hvarf hans ákvað Jón Grétar að halda áfram með myndina.
„Aðaláherslurnar sem breytast eru að myndin mun snúast mikið um fortíð Hauks, en hann vildi ekki að myndin sem við vorum að vinna upprunalega saman fjallaði mikið um það sem hann gerði fyrir árið 2014,“ segir Jón Grétar.
„Það var gríðarlega erfitt fyrir mig að klára handritið að þessari mynd. Mér tókst að lokum að setja saman sterka frásögn sem er knúin áfram af Hauki sjálfum. Myndinni verður skipt upp í sex kafla og gæti í raun verið sex þátta sería. Ég er með nokkra klukkutíma af viðtölum við Hauk og eitthvað af myndefni. Myndin verður blanda af nýjum upptökum og upptökum sem ég tók með Hauki, en kjarninn mun alltaf koma frá Hauki sjálfum. Þetta er hans saga og það mun enginn geta sagt hana betur heldur en hann sjálfur.“
Að mati Jóns Grétars eiga Íslendingar fáar hetjur á borð við Hauk Hilmarsson. Þess vegna vilji hann segja sögu hans.
„Það eru ekki margir sem helga stærstan hluta líf síns því að aðstoða aðra. Haukur var vissulega umdeildur og með pólitískar skoðanir sem ekki hugnast öllum en sá Haukur sem ég þekkti var tilbúinn að gera sitt besta til þess að hjálpa þeim sem minna mega sín,“ segir Jón Grétar.
Allt viðtalið má sjá hér.
Styrkja má gerð myndarinnar á síðu Jóns Grétars á Karolina Fund