Í kjarafréttum Eflingar kemur fram að heimili láglauna barnafjölskyldna ná ekki endum saman jafnvel þó þau bæti við sig umtalsverðri aukavinnu. Óvenju lágur húsnæðiskostnaður, með lakari gæðum, þarf einnig að koma til ef forða á hallarekstri. Þetta sýnir úttekt á afkomu láglaunafólks sem greinir helstu afkomustærðir í lífi þess: Laun, lífeyrisiðgjöld, skatta, barna- og húsnæðisbætur og framfærslukostnað.
Einstæða foreldra á lágmarkslaunum með eitt barn undir 7 ára aldri vantar um 83.000 kr. á mánuði til að ná endum saman í janúar 2022. Með því að hækka tekjurnar með aukavinnu úr 368.000 kr. á mánuði í 450.000 krónur lækkar hallinn einungis í um 33.000 krónur. Óvenju ódýrt húsnæði þarf til viðbótar til að forðast halla.
Hjón eða sambúðarfólk með tvö ung börn á tvennum lágmarkslaunum (736.000 kr.) er með halla upp á 89.360 kr. á mánuði, þegar búið er að draga iðgjöld til lífeyrissjóða og tekjuskatt frá tekjum og bæta við barna- og húsnæðisbótum. Ef þau bæta við sig umtalsverðri aukavinnu (2×21,5 klst. á mán.) þá lækkar hallinn niður í tæplega 10.000 krónur á mánuði. Meira þarf því til að ná endum saman.