Eftir // Vilhjálm Birgisson
Nú liggur fyrir að aðgerðapakkar vegna COVID til stuðnings fyrirtækjum hefur til þessa kostað skattgreiðendur 80 milljarða. Ekki gagnrýni ég stuðning stjórnvalda til að hjálpa fyrirtækjum m.a. við að halda ráðningarsambandi við starfsfólk.
En ég vil rifja upp að í upphafi á CVOID faraldrinum í fyrra barðist ég sem fyrrverandi fyrsti varaforseti ASÍ fyrir því að sett yrði þak á neysluvísitöluna tímabundið til að verja heimilin fyrir hugsanlegu verðbólguskoti vegna snarminnkandi gjaldeyrisinnstreymi vegna ferðamanna sem myndi hafa áhrif á gengi íslensku krónunnar.
Óþolandi að ætíð séu heimilin látin reka á reiðanum
Krafan byggðist á að setja þak á neysluvísitöluna við neðri vikmörk á verðbólgumarkmiði Seðlabankans sem er 2,5%. Þetta fékk ekki hljómgrunn hjá stjórnvöldum að verja verðtryggðar skuldir heimilanna. Núna tæpu ári eftir að ég lagði þessa hugmynd fram hefur verðbólgan farið úr 2,8% í 4,3% sem er hækkun um 1,5%.
Ef stjórnvöld hefðu nú tekið þátt í að verja heimilin fyrir þessu verðbólguskoti þá væru verðtryggðar skuldir heimilanna 32 milljörðum minni en þær urðu vegna aðgerðaleysis stjórnvalda við að verja heimilin.
Það er óþolandi að ætíð séu heimilin látin reka á reiðanum þegar kemur að því að fá stuðning frá ríkisvaldinu en þegar kemur að því að verja fjármagnsauðvaldið og fyrirtækin þá stendur ekki á neyðarfundum stjórnvalda, skítt með heimilin þeim má fórna enn og aftur á blóðugu altari verðtryggingarinnar!
Vilhjálmur Birgisson
Höfundur er formaður Verkalýðsfélags Akranes.