Heimir Hilmarsson er 53 ára, einstæður faðir fimm barna á aldrinum 5 – 26 ára. Hann hefur verið heilsuhraustur alla tíð, og í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra hljóp hann fyrir Krabbameinsfélagið. Á þeim tíma var hann hins vegar farinn að finna til verkja í mjöðminni, en hristi það af sér án þess að gera sér grein fyrir að krabbamein var farið að hrjá hann.
Þann 20. desember greindist Heimir með fjórða stigs lungnakrabbamein sem hafði dreift sér í lærbein og gert honum ófært um að ganga. Hann var búinn að fara nokkrum sinnum til læknis út af fætinum og öðrum verkjum en engar myndir voru teknar og hann var aðeins greindur með tognun á mjöðm og stoðkerfisverki, að sögn elstu dóttur hans.
„Við fórum upp á Neyðarmóttöku í Fossvogi 20. desember þar sem pabbi var búinn að vera á hækjum í um þrjár vikur og okkur leist ekkert á blikuna og báðum vinsamlegast um að það yrði tekin mynd af fætinum og var það þá gert um leið,“ segir Helena Rós, elsta dóttir Heimis í færslu sem systkinin hafa skrifað á Facebook.
„Margir sérfræðingar skoðuðu myndina áður en næstu skref voru ákveðin. Myndin sýndi meinvarp efst í lærbeininu og mjaðmarlið og fjögur brot í liðnum. Efsti partur lærleggs var því eins og egg með brotinni skurn sem ekki mátti við neinu. Næsta myndataka var lungnamynd sem sýndi æxli í vinstra lunganu sem eru upptökin af krabbameininu og það hefur einnig breiðst út í önnur bein svo sem rifbein, herðablað og viðbein.“
Krabbameinið ekki skurðtækt
Krabbameinið er ekki skurðtækt en á aðfangadag var ákveðið að fjarlægja meinvarpið í mjöðminni og setja gervilið í staðinn. „Pabbi gat því labbað. Hann var á spítala í 11 daga, en fékk að fara heim í leyfi á aðfangadagskvöld til að vera með fjölskyldunni og fór svo í aðgerð á jóladag þar sem meinvarpinu var smúlað út og nýjum mjaðmarlið var komið fyrir. Á gamlársdag kom pabbi heim á nýrri mjöðm tilbúinn að hefja slaginn við „krabbamennina“ eins og litla fimm ára systir okkar kallar meinið.“
Það sem tekur við hjá Heimi er lyfjameðferð á Landspítalanum. „Jákvæðni, von og hugrekki og við biðjum Guð um styrk til að hjálpa okkur í gegnum þetta verkefni.“
Systkinin stofna söfnunarreikning
Elstu systkinin þrjú eru alsystkini, systur 23 og 26 ára og bróðir 18 ára, og yngstu tvö eru fimm og sjö ára, börn Heimis og seinni barnsmóður hans. Fyrri barnsmóðir hans, á einnig tvö börn með seinni manni sínum. Systkinahópurinn er því stór og samrýndur.
„Við systurnar búum í Aarhus í Danmörku, sem er mjög erfitt en við reynum að fara fram og tilbaka eins oft og við getum,“ segir Helena Rós í samtali við Mannlíf. „Átján ára bróðir okkar býr hjá pabba, og yngstu tvö eru viku hjá honum og viku hjá mömmu sinni.“
Systkinin hafa nú opnað söfnunarreiknng fyrir föður sinn til að hjálpa honum í gegnum erfiða tíma. „Okkur þætti svo vænt um að þeir sem geta leggi pabba hjálparhönd,“ segir Helena Rós í samtali við Mannlíf. „Pabbi er fimm barna einstæður faðir og yngstu tvö af okkur systkinunum eru 7 ára og 5 ára sem vilja ekkert meira en að lækna pabba, bara eins og við öll.“
„Þetta er rosalega mikið sjokk fyrir okkur öll þar sem pabbi er rosalega hraustur og frískur maður sem hljóp í Reykjavíkurmaraþoninu í sumar með merki frá Krabbameinsfélaginu á handleggnum án þess að vita að hann væri með 4. stigs krabbamein. Hann var slæmur í mjöðminni þá en ákvað að hrista það af sér og hlaupa samt. Hann reykir ekki og hefur ekki drukkið áfengi í 31 ár.“
Þeir sem vilja leggja Heimi og börnum hans lið geta lagt inn á reikning hans:
Kennitala 170766-5559
Reikningur 545-14-002499