Heimir Jónasson lést í dag, 53 ára að aldri. Hann greindist með taugahrörnunarsjúkdóminn Corticobasal Degeneration (CBGD) í janúar árið 2018.
Eftirlifandi eiginkona Heimis, Berglind Magnúsdóttir, greindi frá andláti hans í færslu á Facebook. Heimir skilur eftir sig þrjú börn á aldrinum 14-23 ára.
„Þú ræður ekki hvað kemur fyrir þig en þú ræður hvernig þú tekst á við það,“ sögðu hjónin í viðtali við Fréttablaðið í júlí árið 2018, og sögðu að lífsviðhorfið væri lykilatriði.
Vinir Heimis stofnuðu styrktarsjóðinn Traustur vinur í því skyni að taka við og halda utan um framlög vina hans og velunnara. Samnefnd vefsíða var einnig opnuð þar sem „ætlunin er að auðvelda þér að leggjast á árarnar með okkur í stuðningi við þetta góða fólk,“ eins og segir á heimasíðunni.
Heimir var ráðinn framkvæmdastjóri Markaðsstofu Kópavogs árið 2016, hann starfaði áður sem dagskrárstjóri Stöðvar 2 og einnig sem ráðgjafi í auglýsinga- og markaðsmálum og þjónustaði erlendar fréttastofur og kvikmyndafyrirtæki á ferð um landið. Árin 2011-2016 starfaði hann sem framleiðandi og markaðsráðgjafi fyrir Íslensku auglýsingastofuna og kom að mörgum verkefnum á svið ferðamála í tengslum við Inspired by Iceland og Icelandair ásamt því að starfa sem þjálfari hjá Dale Carnegie.
Mannlíf sendir ættingjum og vinum Heimis innilegar samúðarkveðjur, traustur vinur er fallinn frá.