Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Heimsfaraldur COVID-19 skollinn á

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Allra augu hafa beinst að kórónuveirunni, SARS-CoV-2, og örri útbreiðslu hennar. Meira en 119.000 hafa sýkst í heiminum og yfir 4200 látist. Síðustu daga hefur tilfellum fjölgað hratt víða og er nú svo komið að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur gefið út að um heimsfaraldur sé að ræða. Þekking á veirunni er enn takmörkuð. Hér á landi hyggjast Kári Stefánsson og Íslensk erfðagreining framkvæma víðtæka skimun fyrir kórónuveirunni til að kortleggja dreifingu hennar og skilja betur hvernig hún hagar sér sem verður mikilvægt tæki í baráttunni við vágestinn. Til að fá betri sýn á þessi mál ræddi Mannlíf við Kára og tvo lækna sem standa í framlínunni í baráttunni við veiruna.

Dreifist með miklum hraða um Evrópu

Nicola Montano, prófessor og forstöðumaður lyflækninga við háskólasjúkrahúsið í Mílanó, segir að það geti þurft endurtekin próf til að greina COVID-19 ef grunur leikur á að einstaklingur sé smitaður. Sýni séu oft ekki nægilega góð og það þurfi jafnvel 3-4 sýni áður en greining fáist. Mynd / Læknablaðið

Á Íslandi hafa 103 manns greinst með kórónuveiruna, þegar þetta er skrifað og 700 eru í sóttkví. Tilfellum á Spáni fjölgaði um tæplega 2000 á fjórum dögum í vikunni og í Danmörku hefur orðið mikil aukning á skömmum tíma. Tilfellum í Wuhan, þar sem veiran er talin eiga upptök sín, hefur hins vegar snarfækkað og virðist fólk þar vera komið með ónæmi. Ítalía hefur orðið sérlega illa fyrir barðinu á kórónaveirunni því yfir 12.000 manns hafa smitast og 827 látist. Allir sem hafa látist hafa verið aldraðir eða með undirliggjandi sjúkdóma. Ítalir hafa sett 16 milljónir manna í norðurhluta landsins í sóttkví og lokað á samkomur og hefur náðst góður árangur við að hefta útbreiðslu veirunar á svæðum sem fyrir nokkru voru hættusvæði.

Nicola Montano er prófessor og forstöðumaður lyflækninga við háskólasjúkrahúsið í Mílanó. Mannlíf ræddi við hann um ástæður þess hve hratt kórónuveiran hefur breiðst út og hvað hann telji að verði að gera til að stöðva útbreiðsluna.

Fjöldi smitaðra einkennalítill

Aðspurður um hvers vegna Ítalía hafi orðið svo illa úti á skömmum tíma vegna kórónuveirunnar svarar Nicola að í upphafi hafi stjórnvöld ekki verið með skipulagða áætlun til að mæta faraldrinum, þrátt fyrir ábendingar lækna. Ítalir hafi einblínt á fólk sem kom frá Kína. „Það var svo 38 ára maður, líkamlega mjög vel á sig kominn, sem kom á bráðamóttöku í bæ nálægt Mílanó. Hann var með háan hita og kvef en var sendur heim og sagður með flensu. Næsta dag kom hann aftur, var kominn með lungnabólgu og greindist þá með COVID-19,“ segir Nicola. „Þá kom í ljós að hann hafði umgengist fólk sem hafði verið í Kína. Það fólk reyndist hins vegar neikvætt þegar prófað var fyrir kórónuveirunni. Þá hófum við að prófa mjög marga, m.a. fólk almennt sem var með lungnabólgu. Við fundum marga sem reyndust vera jákvæðir fyrir veirunni. Það varð til þess að við gátum gert okkur betur grein fyrir sjúkdómnum og hvernig hann dreifðist. Svæðið þar sem þessi fyrrgreindi maður greinist var sett í sóttkví og tveimur vikum síðar var svæðið orðið hreint. Á Ítalíu hefur fjöldi einstaklinga með lítil sem engin einkenni greinst með COVID-19 og eru taldir hafa smitað aðra.“

„Mér finnst líklegt að veiran sé miklu útbreiddari og finnist í þeim sem eru með lítil eða engin einkenni.“

- Auglýsing -

Þróunin í öðrum löndum lík og á Ítalíu

Mat Nicola er að mikill fjöldi úti í samfélaginu á Ítalíu sé þegar smitaður, jafnvel hundruð þúsunda. ,,Við teljum að allt að ein milljón kunni að vera smituð á Ítalíu því útbreiðsla veirunnar hefur verið mjög hröð en þegar tölfræðin er borin saman við Kína þá er um að ræða mjög svipaða útbreiðslu miðað við fólksfjölda.“

Spurður um hvort hann telji að þróunin verði svipuð í öðrum löndum Evrópu og á Ítalíu svarar Nicola: ,,Án efa. Í öllum löndum. Við lifum í heimi þar sem fólk er á ferð og flugi. Spánn er um viku á eftir okkur, veiran dreifist mjög hratt þar. Sama er að segja um Frakkland, Þýskaland og fleiri lönd. Enginn vafi er á að heimsfaraldur er í uppsiglingu,“ segir hann. ,,Dánartíðnin er það sem skiptir mestu máli hér. Miðað við þekkingu okkar í dag er COVID-19 með aðeins hærri dánartíðni en inflúensa.“

- Auglýsing -

Hvernig gengur á sjúkrahúsum að eiga við kórónuveiruna, þarf starfsfólk að vinna lengur og hefur það smitast þar? „Veiran leiðir ekki til hærri tíðni alvarlegra veikinda en fer með svo miklum hraða vegna skorts á ónæmi gegn þessari nýju veiru í samfélaginu að fjöldi þeirra sem leita á spítala er mjög mikill á skömmum tíma. Því verða heilbrigðisstarfsmenn útsettir fyrir veirunni. Starfsfólk bráðadeilda og smitsjúkdómalæknar eru hópar sem eru útsettari en aðrir. Álagið á spítölum er mikið og við þolum ekki slíkt álag nema í stuttan tíma.“

Róttækar aðgerðir þarf

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gaf út að einstaklingar sem smitast af kórónuveirunni fengu ákveðin einkenni eins og háan hita og fleira, er það raunin?
„Hér fá 85% mjög væg einkenni, 15% þurfa að leggjast á spítala og dánartíðni er 3%. Fyrir hverja fimm sjúklinga sem eru á gjörgæslu eru 50 í einangrun eða þurfa sérstaka meðhöndlun.“

Nicola telur að þegar tilfelli eru farin að koma úr samfélaginu, þar sem smitið kemur í gegnum þriðja aðila frá upphafslindinni, þurfi að prófa alla sem hafa einhver einkenni um öndunarfærasýkingu. Ekki nægi að meta eingöngu þá sem hafa átt samskipti við smitaða einstaklinga. Hann segir að það geti þurft endurtekin próf til að greina COVID-19 ef grunur leikur á að einstaklingur sé smitaður. Sýni séu oft ekki nægilega góð og það þurfi jafnvel 3-4 sýni áður en greining fáist. Slíkt hafi komið berlega í ljós.

Þá segir Nicola að það borgi sig að vera viðbúinn því versta og gera allt til fækka smitum. Það feli í sér róttækar aðgerðir eins og að banna samkomur og viðburði þar sem fólk kemur saman. „Það er eini möguleikinn til að draga úr smiti.“

Stífari ráðstafanir hérlendis

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómalækninga á Landspítala, segir að ef niðurstaða úr skimuninni verði sú að það sé fjöldinn allur af smituðum einstaklingum úti í samfélaginu þá sé íslenska þjóðin óvarin fyrir veirunni og allar forsendur fyrir því að hraði útbreiðslunnar geti verið sá sami og t.d. á Ítalíu og Spáni. Mynd / Læknablaðið

Mannlíf hafði samband við Má Kristjánsson, yfirlækni smitsjúkdómalækninga á Landspítala, og spurði hvort búast mætti við að í ljós komi, þegar Íslensk erfðagreining færi að skima, að útbreiðsla veirunnar hér sé meiri en hefur verið talið. Már segir að ef niðurstaða úr skimuninni verði sú að það sé fjöldinn allur af smituðum einstaklingum úti í samfélaginu þá sé íslenska þjóðin óvarin fyrir veirunni og allar forsendur fyrir því að hraði útbreiðslunnar geti verið sá sami og t.d. á Ítalíu og Spáni. „Hins vegar erum við í litlu samfélagi sem er vel upplýst og ríkur skilningur á aðgerðum stjórnvalda og það gæti orðið okkur til bjargræðis við að tempra hraða útbreiðslunnar sem allar aðgerðir miða að,“ segir Már. Hann telur að aðgerðirnar hafa tekist ágætlega en bendir á hversu hratt hlutirnir gerast. „Við sáum fyrsta smitið fyrir um hálfum mánuði en smitum fjölgar og við erum að sjá þriðju gráðu smit, þ.e. í gegum þriðja aðila frá upphafslindinni, sem er táknrænt fyrir dreifingu veirunnar í samfélaginu og undanfari þess að hún dreifir sér hraðar. Vonandi verður þetta ekki með viðlíka hraða og á Ítalíu og Spáni.“ Már segir að hér hafi verið stífari ráðstafanir en sést hafi í flestum öðrum löndum og að fólk taki almennt tilmælunum alvarlega.

Hversu mikilvæg telur hann að skimunin fyrir veirunni sé fyrir næstu skref og við að varpa ljósi á hvernig hún hegðar sér og dreifir sér? „Ég held að það sé mikilvægt að reyna að finna þetta út og ef niðurstaðan úr skimuninni verður sú að það sé fjöldinn allur af ógreindum einkennalausum einstaklingum úti í samfélaginu þá mun það gjörbreyta vörnum sóttvarnarlæknis sem byggja á sóttkví og einangrun fólks.“ Og hann tekur fram að það að setja útsetta í sóttkví hafi þá jafnvel engan tilgang.

„Ef niðurstaðan úr skimun verður sú að það sé fjöldinn allur af ógreindum einkennalausum einstaklingum úti í samfélaginu þá mun það gjörbreyta vörnum sóttvarnarlæknis sem byggir á sóttkví og einangrun fólks.“

Hvernig er Landspítalinn í stakk búinn til að taka við sjúklingum sem þurfa þá að leggjast inn eða fá aðhlynningu? „Við erum með viðbragðsáætlun um að hagnýta þær bjargir sem við höfum; lyf, tæki, mannskap og innra skipulag. Við höfum ekki endalaust þanþol en reynum að draga úr fjölda einstaklinga sem eru veikir á hverjum tíma. Ef 10% veikjast alvarlega er mikilvægt að draga úr fjölda þeirra á hverjum tíma og lengja frekar veikindatímann,“ útskýrir Már.

Aðspurður um hvort líklegt sé að þróunin hér verði á endanum svipuð og á Ítalíu eða í öðrum löndum á meginlandi Evrópu, svarar Már: „Dánartíðni á Ítalíu er 3% en rétt innan við 1% í Suður-Kóreu. Ég tel að tölurnar endurspegli hvernig þjóðunum hefur gengið að glíma við farsóttina. Við viljum vera Suður-Kóreu megin á þessum ás og höfum farið svolítið eftir því sem þeir gera; að draga þetta á langinn, beita stífum sóttvörnum, hagnýta bjargir sem við höfum á spítalanum og senda fólk heim í sóttkví. Ég held að þetta ásamt handþvotti og að fara í hvívetna að fyrirmælum Landlæknis ætti að gera gott,“ segir Már.

Líklegt að veiran sé útbreiddari

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, tekur undir með Nicola Montano og telur líklegt að ályktun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, byggð á reynslunni í Kína, sé röng um að allflestir sem veikist af veirunni hafi nokkuð greinileg einkenni.

Eins og komið hefur fram ætlar Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, að láta skima fyrir kórónuveirunni hér á landi. Spurður hvort hann telji að veiran geti hugsanlega verið útbreiddari en talið hefur verið, að fólk geti verið með mjög væg einkenni og að útbreiðslan sé því meiri, segir hann að það séu engin gögn til að styðja þá skoðun. „En mér finnst líklegt að veiran sé miklu útbreiddari og finnist í þeim sem eru með lítil eða engin einkenni,“ segir Kári og tekur fram að skimunin verði unnin undir stjórn sóttvarnarlæknis og í samvinnu við Landspítalann.

Kári tekur undir með Nicola Montano og telur líklegt að ályktun Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, byggð á reynslunni í Kína, sé röng um að allflestir sem veikist af veirunni hafi nokkuð greinileg einkenni. „Mér finnst líklegt að þetta sé rangt en hef engin gögn enn þá til að styðja þá skoðun.“ Hann segir að ályktunin hafi líklega verið eðlileg fyrir nokkrum vikum en svo sé ekki í dag.

Talið er að veiran hafi stökkbreyst en Kári segir að það þýði að auðveldara verði að rekja en ella smit ef veiran hafi stökkbreyst. „Á hinn bóginn getur þá verið erfiðara að þróa bóluefni og eins hitt að veiran gæti fundið sér leiðir fram hjá ónæmiskerfi einstaklinga,“ segir Kári.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -