Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur að samfélagið hér á landi verði að bregðast við í verki við hvers konar hatursorðræðu sem og afleiðingum hennar. Þingmaður Samfylkingarinnar, Helga Vala Helgadóttir, hefur áhyggjur af því að slík orðræða sé stunduð í þingsalnum.
Katrín mælti á Alþingi fyrir þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu, en í tillögunni er lögð áhersla á að efla fræðslu og vitundarvakningu varðandi hatursorðræðu í samfélaginu og afleiðingar af slíkri orðræðu.
Vísaði Katrín til þeirra fordóma og hatursorðræðu sem hinsegin ungmenni hafa þurft að líða.
„Þegar við sjáum slíkt bakslag verða í orðræðunni þá tel ég það vera skyldu okkar að bregðast við í verki vegna þess að löggjöfin ein og sér er ekki nægjanleg. Það er menningin sem þarf að breytast með. Raunar höfum við oft um það dæmi að þegar framsækin löggjöf er samþykkt að það verður bakslag í kjölfarið,“ sagði forsætisráðherra.
Í tillögu hennar er gert ráð fyrir því að embættismönnum og kjörnum fulltrúum í bæjar- og sveitarstjórnum verði boðið á námskeið er fjallar um afleiðingar hatursorðræðu.
Áðurnefnd Helga Vala spurði Katrínu hvers vegna það væri ekki gert ráð fyrir þingmönnum í þessu samhengi.
„Ég verð að segja að ég hef miklar áhyggjur af því hvernig við leyfum okkur að tala hérna inni. Hvernig við leyfum okkur að kynda undir ýmiss konar skautun og hatursorðræðu beinlínis. Ekki kynda undir heldur beinlínis ástunda hatursorðræðu hér í þingsal. Það leyfa ákveðnir þingmenn sér það að mínu mati,“ sagði Helga.
Forsætisráðherra sagðist líta svo á maĺið að það væri Alþingis að ákveða hvort þingmönnum yrði einnig boðið upp á slíkt námskeið er málið fer til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd.
„Ég myndi fagna því ef þingnefndin tæki þá afstöðu að það væri rétt að slíku námskeiði yrði sérstaklega beint líka að kjörnum fulltrúum á þingi. Ég held að það þurfi að vera ákvörðun þingsins sjálfs en ekki framkvæmdarvaldsins að koma með þau tilmæli,“ sagði Katrín að lokum.