Sunnudagur 24. nóvember, 2024
-1.4 C
Reykjavik

Helga Vala svarar fyrir sig: „Þetta er bara lygi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar Alþingis, ræðir einkalífið, störf sín og þá gagnrýni sem hún hefur fengið í viðtali við Mannlíf.

Það vakti athygli á hátíðarfundi Alþingis í júlí 2018, þegar Íslendingar fögnuðu 100 ára fullveldisafmælinu, að Helga Vala stóð upp þegar Pia Kjærsgaard, forseti danska þjóðþingsins, steig á svið. Helga Vala segist hafa gert það vegna þeirrar hörðu innflytjendastefnu sem Pia og flokkur hennar rekur.

„Ég valdi að senda skýr skilaboð um að mannfjandsamleg stefna hennar væri mér ekki að skapi en hún hefur grafið undan mannréttindum ákveðinna hópa í heimalandi sínu. Ég hafði enga rödd þarna til þess að mótmæla en ég gat gert það með því að yfirgefa svæðið undir ræðu hennar.“ Helga Vala hefur verið gagnrýnd fyrir að mæta til veislu um kvöldið þrátt fyrir þetta og segist fegin að fá að svara þeirri gagnrýni „Veislan var ekki afmæli Piu né á nokkurn hátt henni til heiðurs. Um var að ræða 100 ára afmæli fullveldis sem er stór viðburður í sögu okkar. Hún var aukaleikari og ég kaus að hlusta hvorki á hana að deginum né um kvöldið. En hún átti hvorki hátíðina á Þingvöllum né hófið og því sýndi ég því tilefni virðingu mína.“

„Mér finnst erfiðara þegar fólk er beinlínis að ljúga upp á mig eða segja að ég sé til dæmis ómerkilegur iðjuleysingi sem mæti aldrei í vinnu.“

Helga Vala segist ekki hafa tekið gagnrýni á sig vegna þessa nærri sér. „Mér fannst þetta ekkert mál. Þetta voru bara gusur sem ég tek venjulega lítið hátíðlega. Mér finnst erfiðara þegar fólk er beinlínis að ljúga upp á mig eða segja að ég sé til dæmis ómerkilegur iðjuleysingi sem mæti aldrei í vinnu því bæði ég og mínir nánustu vita að vinnudagarnir eru langir og helgarfríin fá. Í tengslum við umræðu um flóttafólk er því til dæmis haldið fram að ég reki enn lögmannsstofu og græði á flóttamönnum. Þetta er bara lygi. Ég hætti í lögmennsku eftir að ég fór á þing, hætti störfum sem talsmaður flóttafólks 2014 og þau verk sem ég tók að mér eftir 2014 voru í sjálfboðavinnu, skrifstofustjóra stofunnar til mikillar armæðu.“

Lestu viðtalið við Helgu Völu í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -