Þingkonan Helga Vala Helgadóttir segir í nýrri grein að „í síðustu viku upplifðum við nýjan veruleika hér á landi þegar upplýst var á blaðamannafundi ríkislögreglustjóra að tveir ungir menn sætu í gæsluvarðhaldi vegna gruns um skipulagningu á hryðjuverkum hér á landi. Lögreglan gaf þær upplýsingar sem hægt var að veita á þessu stigi rannsóknar og áfram hélt umræðan í samfélaginu næstu daga.“
Bætir við:
„Dómsmálaráðherra steig fram með gamalkunnan tón, boðar forvirkar rannsóknarheimildir, einhverjir nefna að auka þurfi við vopnaburð lögreglu og enn aðrir að efla þurfi rannsóknir með störfum lögreglu. Umræða um störf og valdheimildir lögreglu er afar mikilvæg enda verður hvers konar skerðing á frelsi og friðhelgi borgaranna að vera tekin af vandlega yfirveguðu máli og af slíku tilefni að öryggi borgaranna verði ekki fengið með neinum öðrum ráðum.“
Helga Vala bendir á að „fyrir liggur að lögreglunni er gert að draga saman starfsemi sína á næsta ári, aðhaldskrafa er á málaflokknum í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar á sama tíma og lögreglan er undirmönnuð og glímir við æ flóknari og viðameiri verkefni. Um árabil hefur verið kallað eftir auknu fjármagni til löggæslu í landinu án þess að því hafi verið svarað. Þá hefur líka verið kallað eftir meiri stefnumótun í störfum lögreglu, hvar setja skuli áherslur í störfum lögreglu, hvort hægt sé að flýta málsmeðferð flókinna mála eins og kynferðisbrota og annarra ofbeldisbrota sem og hefur verið rætt að skipulögð glæpastarfsemi sé að aukast hér á landi og við því þurfi að bregðast. Ekkert af þessu gerum við án þess að tryggja nægan mannafla og fjármagn inn í málaflokkinn og það áður en tekin er ákvörðun um að heimila allar aðgerðir lögreglu án aðkomu dómstóla.“
Hún segir einnig að í „umræðu síðustu daga hef ég einnig reynt að vekja athygli á því sem umræðan á að snúast um; hvað kom fyrir í lífi ungra manna sem mögulega taka ákvörðun um skipulagningu hryðjuverks? Hvað er það í okkar samfélagi sem elur af sér slíka heift? Það er að mínu mati mál málanna að við skoðum gaumgæfilega hvernig við búum að börnum okkar og ungmennum. Hvernig við sköpum þeim tækifæri til að eiga gott líf umvafin öryggi heimilis og fjölskyldu en ekki síður innan veggja skóla.“
Helga Vala nefnir að „farsældarmálin sem unnin voru meðal annars í þingmannanefnd um málefni barna á síðasta kjörtímabili eru góðra gjalda verð en það verður að fylgja eftir þeim áformum sem þar voru svo þau komist til framkvæmda í verki en verði ekki orðin tóm. Farsældarfrumvörpin innihéldu tæki til að komast að vandanum en færri tæki til að mæta vandanum sem fundinn er. Á því hafði ég orð við meðferð málsins í þinginu. Við þurfum vitundarvakningu í samfélaginu fyrir því hversu mörg börn og ungmenni eru að sýna merki vanlíðunar.“
Hún telur til að árið 2014 hafi 81% barna í efstu bekkjum grunnskóla metið andlega heilsu sína góða eða mjög góða en að í dag meti einungis 57% barna andlega heilsu sína góða eða mjög góða.
Hún spyr:
„Hvað er það í samfélaginu okkar sem veldur þessari niðursveiflu? Það er eitthvað mikið að í ríku samfélagi þegar æ fleiri ungar manneskjur velja það að taka líf sitt áður en á fullorðinsárin er komið og það er furðulítill áhugi stjórnvalda á því mikla böli. Það ríkir líka andvaraleysi yfir því hversu margir ungir menn velja að hætta námi á framhalds- og háskólastigi og ættu tölurnar um útskrifaða úr háskólum landsins, sem sýna 70% kvenstúdenta á móti 30% karlstúdentum, að láta viðvörunarbjöllurnar hljóma um allt samfélag.“
Að mati Helgu Völu er „félagslegt ójafnræði, sem skapast af ójafnri menntun milli kynjanna, skaðlegt samfélagi til framtíðar; eykur á ójafnræði milli kynjanna sem við unnum mikið verk í að lagfæra þegar hallaði á konur á síðustu öld. Þar unnum við sigur en virðumst minna meðvituð um þetta mikilvæga verk í dag. Aukin skautun í samfélaginu, þar sem hópum er egnt saman, gerir ekkert annað en að ýta minnihlutahópum enn frekar út á jaðar samfélagsins. Við verðum að spyrja okkur hvaðan kemur hatrið, hvaðan kemur illskan, hvað kom fyrir unga menn sem mögulega lögðu af stað í skipulagningu á hryðjuverkum í íslensku samfélagi. Það er mál málanna og þar þurfum við samfélagslegt átak.“