„Í dag eru 2.445 dagar síðan fullvalda þjóð gekk til kosninga” sagði Helga Vala Helgadóttir, þinkona Samfylkingarinnar, í umræðum um störf þingsins í gær. Þá var hún að tala um þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs sem fór fram 20. október 2012.
„Nærri 70% kjósenda lýstu því yfir að hin nýsamda stjórnarskrá skyldi lögð til grundvallar nýrri stjórnarskrá” sagði Helga og benti á að allri undirbúningsvinnu væri fyrir löngu lokið. „Þessi nýja stjórnarskrá okkar fór í gegnum ritrýni Feneyjanefndar og var fullunnin í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem skilaði frumvarpi um nýja stjórnarskrá inn í þingsal vorið 2013.”
Helga ræddi andstöðuna gegn gegn frumvarpi um nýja stjórnarskrá en Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur voru harkalega á móti. „Þá hófst mikið málþóf stjórnarandstöðuflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks” sagði hún og bætti við: „Svo merkilega vill til að sá flokksleiðtogi sem stýrt hefur málþófi hér á Alþingi undanfarnar vikur gegn orkupakka þrjú, leiddi einmitt líka málþóf þess tíma í félagi við hæstvirtan ráðherra Bjarna Benediktsson gegn þeirri nýju stjórnarskrá sem þjóðin hafði kosið,” sagði Helga.
Þar átti hún við Sigmund Davíð sem í andstöðu við þriðja orkupakkann hefur talað um að með samþykkt hans sé þrengt að fullveldinu og yfirráð okkar yfir náttúruauðlindum. Í hinni nýju stjórnarskrá var að finna auðlindaákvæði sem tryggði sameign og yfirráð íslendinga á auðlinum.
„Ég legg til að við klárum málið því að annað er ekki sæmandi fullvalda þjóð” sagði Helga í lok ræðunnar.