Vikan var heldur betur viðburðarík hjá popparanum og lögreglukonunni.
Góð vika- Helgi Björnsson
Fáir hafa sennilega átt betri viku en söngvarinn og leikarinn Helgi Björnsson sem þann 17. júní var bæði sæmdur fálkaorðunni og útnefndur borgarlistamaður Reykjavíkurborgar 2020. Helgi sagði í viðtölum eftir útnefninguna að hann væri eiginlega bara feiminn vegna þessarar upphefðar en þetta yrði honum hvatning til betri verka, bæði sem manni og listamanni. Hinn íslenski Mick Jagger sagðist ekki enn vera kominn á toppinn heldur væri hann rétt að byrja og ætti mikið eftir.
Helgi er nú á tónleikaferð um landið með hljómsveit sinni Reiðmönnum vindanna og stefnir að því að halda sextán tónleika víða um land í júní í framhaldi af hinum geysivinsælu stofutónleikum Heima með Helga, sem þjóðin beinlínis elskaði að horfa og hlusta á í samkomubanninu.
Slæm vika -Íris Heimisdóttir
Lögreglukonan Íris Heimisdóttir hefur sannarlega átt betri vikur en eftir samskipti við Rúmenana tvo sem gripnir voru vegna gruns um þjófnað og reyndust vera smitaðir af COVID-19, greindist hún með sjúkdóminn eftir fjóra daga í sóttkví. „Þessum Þjóðhátíðardegi gleymi ég seint þar sem ég fagna honum ekki í faðmi fjölskyldu og vina heldur með sjálfri mér og kórónuveirunni,“ sagði Íris Edda í færslu á Facebook og óhætt að taka undir að flestir hafa væntanlega átt betri þjóðhátíðardag en hún. Hún segir það hafa verið óvænt og erfitt að greinast með veiruna nú þegar útlit var fyrir að faraldurinn væri á niðurleið og hún hafi aldrei átt von á því að smitast við það eitt að sinna starfi sínu. Ekki bætir úr skák að lögreglumenn eru enn samningslausir og endar Íris færsluna á kveðju frá samningslausa ríkisstarfsmanninum.