Helgi Hallgrímsson, fyrrverandi vegamálastjóri lést síðastliðinn fimmtudag á líknardeild Landspítalans. Hann var 87 ára að aldri og lætur eftir sig eiginkonu og fjögur börn, þau Ásmund, Gunnar, Hallgrím og Nínu. Sá fyrstnefndi minnist föður síns með fallegum minningum á Facebook.
„Elsku pabbi minn kvaddi þennan heim og hélt í sumarlandið á fimmtudaginn. Og þá er ekki laust við að minningarnar sæki á og ólíkustu myndir koma upp í hugann. Pabbi að ferja okkur tvíburabræður yfir Stóra-Langadalsá á hestbaki til að komast á næsta veiðistað. Bílferðir upp í Hamragil til að fara á skíði, allar helgar allan veturinn. Hláturinn við eldhúsborðið í Glaðheimum þegar fíflagangurinn náði hæstu hæðum – og pabbi að fussumsveia hlæjandi yfir dellunni,“ segir Ásmundur.
Helgi fæddist 22. febrúar 1933 á Selstöðum við Seyðisfjörð. Hann lauk náimi við MR 1952, lauk síðan verkfræðiprófi frá HÍ og síðar prófi frá frá Tækniháskólanum í Kaupmannahöfn 1958. Að námi loknu hóf hann störf hjá Vegagerðinni þar sem hann starfaði náænast allan sinn ferill og frá árinu 1992 gegndi hann embætti vegamálastjóri þar til hann hætti störfum 2003. Þá vann Helgi ötult við uppbyggingu skíðasvæðis ÍR í Hamragili en hann lék einmitt handbolta með félagi og síðar Þrótti Reykjavík.
Eftirlifandi eiginkona Helga er Margrét G. Schram, fyrrverandi leikskólakennari og kennari við Kennaraháskólann. Börn þeirra eru Hallgrímur Helgason rithöfundur, Nína Helgadóttir, verkefnastjóri hjá Rauða Krossinum, Ásmundur Helgason, einn af eigendum Gráa kattarins við Hverfisgötu og Gunnar Helgason, leikari og rithöfundur.
Ásmundur minnist föður síns sem hlýlegum sem alltaf var til í að aðstoða aðra. Hann rifjar áfram um minningarnar: „Gamli við heimaskrifborðið að halda áfram að reikna út legu vega og brúarstæða á kvöldin á Háaleitisbrautinni. Keyrt út á Seltjarnarnes alla miðvikudaga yfir veturinn til að fara með körlunum í sportið. Allir í yfir upp í sumarbústað – og gamli hlaupandi hringinn á fullu gasi. Kallarnir í blokkinni að hengja út jólaseríurnar, sem var ekkert smámál – þá voru jólin komin. Pabbi að leggja sig í sófanum fyrir kvöldmat og litlir gaurar að skríða upp í til hans. Ferðalög um landið á sumrin með appelsínugult tjald og sólstóla, kók í gleri í skottinu. Pabbi að aðstoða ungt fólk í sinni fyrstu sameiginlegu íbúð, við að skafa og mála. Pabbi í startinu á Svigmóti ÍR; einn, tveir, gjörðu svo vel. Aðstoð við heimalærdóminn, sem hann hélt áfram að veita barnabörnunum sínum. Pabbi að vekja syfjaða unglinga. Alltaf var hann hlýlegur, rólegur og góður. Góða ferð elsku pabbi,“ segir Ásmundur.