Miðvikudagur 8. janúar, 2025
-9.2 C
Reykjavik

Helgi svarar Samherja: ,,Ljúga upp í opið geðið á alþjóð“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fjölmiðlakonan Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks, birti fyrir skömmu varnarræðu Helga Seljan, fréttamanns RÚV, við ásökunum Samherja í dag á hendur honum um fréttafölsun. Hún kallar framsetningu útgerðarfyrirtækisins drullumokstur til þess eins gerðan að sverta mannorð Helga í stað þess að svara því sem skipti máli. Spurningum um starfsemi fyrirtækisins í Namibíu.

Í yfirlýsingu Helga vísar hann ásökunum um falsanir alfarið á bug. Hér að neðan eru svör fréttamannsins við ásökunum Samherja.

,,Skýrslan og ásakanir um falsanir

Fyrir það fyrsta eru ásakanir um falsanir gagna alrangar. Sömuleiðis útleggingar á samtali mínu við Jón Óttar Ólafsson, starfsmann Samherja.

Skýrsla um samanburð á útflutningsverði á karfa til Þýskalands, sem sýndi að Samherji seldi fyrirtækjum sínum þar í landi afla eigin skipa á lægra verði en gerðist og gekk í viðskiptum annarra, var sannarlega til og gerð af Verðlagsstofu skiptaverðs. Eins og fram kom í Kastljósi, þegar vitnað var til hennar og hún sýnd. Það, hvers vegna núverandi starfsmaður Verðlagsstofu hafnar því núna, 8 árum eftir birtingu þess í sjónvarpi, að það hafi verið gert, er með nokkrum ólíkindum, þó ekki sé fastar að orði kveðið. Skjalið var sannarlega gert af þáverandi forstjóra Verðlagsstofu skiptaverðs, og lagt fram í Úrskurðarnefnd útvegsmanna og sjómanna. Það var jafnframt tilefni athugasemda Verðlagsstofu við Samherja, rannsókn, eins og það var orðað af Verðlagsstofu sjálfri. Rétt eins og núverandi forstjóri Verðlagsstofu staðfestir í raun í þessum samskiptum sínum við Samherja, nú í apríl.

Það er ekki bara rangt, heldur einkar bíræfið hvernig því er haldið fram í „þætti“ Samherja að umrætt skjal hafi verið falsað. Raunar kallast þessar kenningar þeirra á í myndbandinu. Það er ýmist sagt falsað, eða því breytt. Hvort tveggja er rangt. Sundurklippt ummæli um að átt hafi verið við skjalið, vísa eingöngu til þess að áður en það var birt voru persónugreinanlegar upplýsingar, sem hefðu getað vísað á heimildarmann, afmáðar af því. Það að snúið sé út úr því með þeim hætti sem gert er, segir alla söguna um raunverulegan tilgang þessarar myndbandagerðar Þorsteins Más og félaga.

- Auglýsing -
Þorbjörn Þórðarsson, lögmaður og fyrrum fréttamaður Stöðvar 2, hefur aðstoðað Samherja undanfarin misseri.

Að Samherji hafi haft í höndunum hljóðupptöku af fundi okkar Jóns Óttars í sex ár, en birti hana fyrst núna, segir sitt um hversu raunverulegt sönnunargagn um samsæri af minni hálfu sé að ræða.

Það er einnig rangt að Kastljós hafi ekki gengið úr skugga um hvaðan og hvers eðlis skýrsla Verðlagsstofu var, og ekki gengið úr skugga um að skjalið væri sannarlega frá Verðlagsstofunni komið. Verðlagsstofa vildi ekki staðfesta neitt opinberlega, en það er hreinn útúrsnúningur að halda því fram að það þýði að skýrslan hafi ekki verið unnin á hennar vegum, því það var sannarlega staðfest. Um þetta allt má til dæmis lesa í eftirfarandi bréfi (sjá fyrsta komment að neðan) sem undirritað er af þremur starfsmönnum Verðlagsstofu skiptaverðs, og send var á stjórn stofnunarinnar, vegna fyrirspurnar Kastljóss. Þar er jafnframt staðfest að „mál“ tengt Samherja sé til skoðunar innan stofnunarinnar og áhersla lögð á að þögn ríki um málið af hendi stjórnarinnar, enda geti annað orðið til að „tefja og jafnvel skaða mál sem eru til rannsóknar/meðferðar hjá Verðlagsstofu og úrskurðarnefnd“

Umrædd skýrsla, sem var 3 blaðsíður og undirrituð af þáverandi forstjóra Verðlagsstofu skiptaverðs, var sannarlega borin undir Seðlabankann, sem óskaði eftir og fékk afrit af henni.

- Auglýsing -

Fréttablaðið

Vinnubrögð Fréttablaðsins í málinu sæta – ólíkt vinnubrögðum Samherja – furðu. Bornar eru fram einhliða- og án nokkurs möguleika á andmælum, ásakanir sem eru ekki bara alrangar, heldur líka grafalvarlegar. Einu viðmælendur Fréttablaðsins í fréttinni eru launaðir starfsmenn Samherja auk forstjóra Samherja.

Fréttablaðið bar efni forsíðufréttarinnar í dag aldrei undir mig, eða ásökunina sem í henni felst. Þetta eru einu samskipti mín við Ara Brynjólfsson, blaðamann Fréttablaðsins um málið frá í gær. (Sjá komment nr. 2) Hér nefnir hann aldrei efnisatriði málsins, þá staðreynd að hann hafði augljóslega séð þáttinn sem hann vísar til og ætlaði sér að skrifa um efni hans frétt, fullkomlega gagnrýnislaust.

Þorrablótið á Reyðarfirði

Á undanförnum árum hefur Samherji, eða fulltrúar þess fyrirtækis ítrekað flutt furðusögur af Þorrablóti Reyðfirðinga í hinu svokallaða Seðlabankamáli. Því hefur verið haldið fram að þar hafi ég hitt sjómann sem ekki bar sig vel vegna hlutaskipta um borð í einu skipa Síldarvinnslunnar í Neskaupsstað, dótturfélags Samherja. Sú frásögn er uppspuni frá rótum. Síðastliðið haust, stuttu fyrir umfjöllun Kveiks um starfsemi Samherja í Namibíu og rétt eftir að Samherja var ljóst að um málið yrði fjallað í fjölmiðlum, birtist svo ný frásögn. Í þetta sinn af því að ég hefði haft uppi yfirlýsingar um að „taka niður Þorstein Má“. Aftur var farið með rangt mál. Nú er trommað upp með ítarlegri útgáfu af sömu sögu, og aftur er hún röng. En í þetta sinn er kallaður til fótgönguliði úr hópi viðskiptafélaga Þorsteins Más, og hann kynntur til sögunnar sem fyrrum lágt settur millistjórnandi dótturfélagsins í Neskaupstað. Sá maður er Jóhannes Pálsson.

Frásögn Jóhannesar svíður kannski mest af því sem þarna fer fram. Jóhannes hef ég þekkt síðan ég var barn. Jóhannes var nágranni minn og fjölskyldur okkar vinafólk. En Jóhannes Pálsson var líka og er meðeigandi Þorsteins Más Baldvinssonar í eignarhaldsfélaginu Snæfugli, sem er stór eigandi Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Ummæli hans verða því að skoðast í því ljósi, rétt eins og ummæli annarra þeirra sem eru til viðtals í „þætti“ Samherja og eiga það allir sameiginlegt að hafa atvinnnu af því að gæta með einum eða öðrum hætti hagsmuna fyrirtækisins. Um frásögn Jóhannesar Pálssonar vil ég segja eftirfarandi: Það að ég hefði farið að segja Jóhannesi frá því „að ég væri með stórt mál“ gegn Samherja í smíðum, ætlaði mér að „tak’ann“ eða „ná honum“ vitandi um augljós tengsl þessara manna og sameiginlega hagsmuni er eins og allir hljóta að sjá, galið. Enda alrangt. Samtal okkar Jóhannesar í umrætt sinn sneri að hvort hann hefði í störfum sínum fyrir Síldarvinnsluna orðið var við að afurðakaup Samherja af skipum Síldarvinnslunnar færu fram á lægra verði en gekk og gerðist, eins og frásagnir sjómanna fyrirtækisins og kvartanir til Verðlagsstofu sögðu til um. Eftir á að hyggja voru það auðvitað mistök af mér að ræða þetta málefni, jafnvel með þessum fyrirvörum, við gamlan fjölskylduvin eins og Jóhannes, einkum við þessar aðstæður. Það hvarflaði hins vegar ekki að mér að hann myndi, átta árum síðar, stíga fram og ljúga upp í opið geðið á alþjóð, til þess eins að taka þátt í þessum furðuleiðangri viðskiptafélaga síns, Þorsteins Más Baldvinssonar.“

Að endingu þetta: Það dylst engum hver raunverulegur tilgangur þessarar herferðar er. Hann er tvíþættur: Að reyna að hafa af blaðamönnum æruna með atvinnurógi af versta tagi og það sem skiptir jafnvel meira máli – að dreifa athyglinni frá þeirri staðreynd að Þorsteinn Már Baldvinsson og starfsmenn hans sæta nú rannsókn í stóru sakamáli og hafa til þessa ekki svarað lykilspurningum um framferði fyrirtækisins á erlendri grund.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -