„Það var alltaf rödd í höfðinu á mér sem sagði: „Þú lítur ekki vel út, þú ert ekki með fullkominn líkama“,“ segir ung kona að nafni Laura Baylis í viðtali við BBC í þættinum Plastic Surgery Undressed. Þátturinn er tileinkaður fegrunaraðgerðum.
Þegar Laura kom sem gestur í þáttinn var hún að íhuga að gangast undir aðgerð sem kallast liposculpture. Aðgerðin snýst um að flytja fitu frá einum líkamshluta yfir á annan.
Laura lýsti því í samtali við BBC að stríðni nokkurra skólafélaga hennar hafi valdið því að hún fór að íhuga fegrunaraðgerðir fyrir nokkrum árum.
Í þættinum Plastic Surgery Undressed fékk Laura að fylgjast með lækni framkvæma liposculpture-aðgerð en þá snerist henni hugur. „Ég held að þessi aðgerð sé ekki fyrir mig. Ég ætla frekar að mæta í ræktina og borða hollt. Það eru ýmis möguleikar í boði sem ég get látið reyna á áður en ég fer í aðgerð. Ég hélt að aðgerðin væri lykillinn að því að finna hamingju,” viðurkenndi Laura.
Síðar í þættinum var sagt frá því að eftir að Laura tók ákvörðum um að láta fegrunaraðgerðir eiga sig fór hún til sálfræðings til að vinna á rót vandans. „Mér er farið að líða mun betur í eigin skinni,” er haft eftir henni í umfjöllun BBC.