Föstudagur 25. október, 2024
3.2 C
Reykjavik

Hélt að það yrði meira átak að fara frá Eyjum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég hef aldrei upplifað þetta áður og þetta var mjög áhugaverður tími fyrir mig persónulega. Vissulega svolítið flókinn því ég hélt alltaf að ræturnar væru orðnar það djúpar að það yrði mikið átak að fara frá Vestmannaeyjum, það hefur ekki orðið enn þá,“ segir Elliði Vignisson sem nýverið tók við stöðu bæjarstjóra í Ölfusi eftir að hafa verið bæjarstjóri í Vestmannaeyjum í 12 ár. Elliði segir að vissulega hafi hann verið farinn að huga að breytingum enda kominn niður í fimmta sæti á lista eftir að hafa leitt hann til stærsta sigurs flokksins í bæjarfélögum af þessari stærð í sögu flokksins.   Flokkurinn fékk 73 prósent atkvæða og fimm af sjö bæjarfulltrúum í kosningunum 2014 og ekkert benti til annars en að Vestmannaeyjar yrðu áfram slíkt vígi Sjálfstæðisflokksins.

En háværar deilur innan flokksins um röðun á framboðslista urðu til þess að flokkurinn klofnaði. H-listinn spratt fram og náði ásamt E-listanum að fella meirihluta Sjálfstæðisflokksins, þótt ekki hafi munað nema fimm atkvæðum. Skyndilega stóð Elliði á krossgötum. Bæjarstjórastóllinn var farinn og í fyrsta skipti í 14 ár var hann ekki lengur bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum. Elliði var horfinn úr forystu Vestmannaeyjabæjar og fram undan voru stórar persónulegar ákvarðanir.

 

Uppsöfnuð óánægja finnur sér farveg

Þótt deilurnar innan flokksins hafi opinberlega snúist um hvaða leið ætti að fara við röðun á framboðslista telur Elliði að dýpri ástæður hafi legið þar að baki. „Það var enginn málefnalegur ágreiningur en á móti kemur að við vorum búin að vera við stjórnvölinn í tólf ár og höfðum gengið þannig fram að auðvitað höfum við valdið truflunum í viðtækjum einhverra á þessum tíma. Við fundum það mjög að ákveðnir hópar voru að leita sér að farvegi fyrir persónulega óánægju frekar en eitthvað annað. Það var kannski byggt hús of nálægt einum, aðrir töldu sig ekki hafa fengið nægileg verkefni í útboðum á vegum Vestmannaeyjabæjar, fólk hafði ekki fengið vinnu sem það sótti um hjá bænum eða jafnvel misst vinnuna og taldi sig þess vegna eiga eitthvað sökótt við bæjarfélagið og svo framvegis. Þessi óánægja fann sér farveg í þessum svokallaða H-lista sem náði því sem til þurfti. Þótt Sjálfstæðisflokkurinn sé eftir sem áður með eitt mesta fylgi á landinu í Eyjum þá dugði fylgi H-listans til að fella meirihlutann og það verður ekki af þeim tekið.“

Elliði segir að einmitt sá hópur sem talaði um að það skorti upp á lýðræðisleg vinnubrögð innan flokksins hafi sjálfur átt erfitt með að sætta sig við lýðræðislega niðurstöðu. Kosið hafi verið um þrjár mismunandi leiðir og fékk tillagan um uppstillingu meirihluta en féll eigi að síður þar sem tvo þriðju hluta þurfti til. Þá hafi verið kosið um prófkjör, sem þeir sem síðar stofnuðu H-listann studdu, og fékk sú tillaga minnihluta atkvæða. „Þá voru greidd atkvæði um svokallaða röðun og hún fékk langmesta fylgið. Þetta var bara lýðræðisleg niðurstaða og þessi hópur fór þá að gera því skóna að það hefði eitthvað verið að hræra með atkvæði og beita fólk þvingunum, það var alltaf fráleit umræða. En niðurstaðan var þessi, að innan fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins sem stjórnar framboðsmálum flokksins, var ekki vilji fyrir prófkjöri. Ekki einu sinni einfaldur meirihluti. Á því féll sú hugmynd. Sjálfur talaði ég fyrir leiðtogaprófkjöri. Það fékk eitt atkvæði, bara mitt atkvæði. Þannig að ekki var vilji til að fara í það og svo greiddi fólk bara atkvæði samkvæmt sinni sannfæringu og það varð niðurstaðan.“

- Auglýsing -

 

Talar ekki um Pál Magnússon

Deilurnar mögnuðust enn frekar eftir að niðurstaða kosninganna varð ljós og beindist reiði sjálfstæðismanna fyrst og fremst að Páli Magnússyni, þingmanni flokksins í kjördæminu. Hann var sakaður um að hafa stutt framboð H-listans á bakvið tjöldin og þannig unnið markvisst gegn eigin flokki í bænum. Fór svo að Páll var rekinn úr fulltrúaráði flokksins í Vestmanneyjum vegna „fordæmalausrar framgöngu“ hans í kosningunum, eins og það var orðað í ályktun. Elliði er fljótur til svara þegar hann er spurður út í framgöngu Páls. „Ég ætla ekki að tjá mig um Pál Magnússon í þessu viðtali. Ég ætla ekki að falla í þá gryfju að ræða þetta út frá einstökum persónum. Það er til sálfræðihugtak sem heitir stóra eignunarvillan og hún er kölluð það af því að hún er svo algeng. Hún felst í því að ætla persónum of stórt hlutverk. Oftast nær liggur skýringin í einhverju öðru en einstökum persónum. Við eignum einstökum persónum árangur og eignum einstökum persónum líka árangursleysi þegar allt aðrir þættir geta legið að baki. Þannig að mér finnst það hvorki sanngjarnt gagnvart mér né Páli Magnússyni að ég fari að ræða um meintar persónulegar deilur á milli okkar.“

- Auglýsing -

Elliði bætir við: „Svo er það annað hvernig þingmenn ganga fram. Það er annað en persóna þingmannsins. Þetta er í eina skiptið, þótt ég sé búinn að vera á hátt í á annan áratug í pólitík og fylgst vel með þá man ég aldrei eftir því áður, að það léki vafi á því hvort að þingmaður myndi styðja framboð síns flokks. Það er ekkert óeðlilegt að fólk hafi velt vöngum yfir því.“

 

Var staðráðinn í að hætta í pólitík

Elliði er keppnismaður mikill og segist hann fyrst og fremst hafa orðið tapsár þegar niðurstaðan lá fyrir. „Alveg sama í hverju maður er, þá er maður í hlutunum til þess að vinna.“ Engu að síður var hann kominn í þá stöðu að vera atvinnulaus og þurfti, eftir 12 ár á bæjarstjórastóli, að taka ákvörðun um framtíðina. „Það kom mér svolítið á óvart að ég upplifði svona … mér liggur nærri að kalla það frelsi. Allt í einu fannst mér ég standa frammi fyrir gríðarlegum tækifærum. Fyrstu vikurnar var ég mjög einbeittur að skipta úr pólitíkinni, úr stjórnmálum, yfir í einkageirann. Hann togaði fast í mig.“

Elliði átti í ýmiskonar samtölum við fólk um starf og stöður í einkageiranum og var hann kominn að því að stökkva á áhugavert tækifæri þegar pólitíkin togaði aftur í hann. „Ég fór að fá áhugaverð símtöl frá fulltrúum víða um land um hvort ég hefði áhuga á að taka að mér bæjar- og sveitarstjórastöður. Þau voru af öllum stærðum og gerðum. Það varð til þess að ég fór að skoða þennan möguleika. Þrátt fyrir að vera hálfpartinn búinn að lofa mér að verða ekki fimmtugur án þess að hafa unnið að marki í einkageiranum, þá stend ég núna frammi fyrir því að verða fimmtugur á næsta ári og vera búinn að vera opinber starfsmaður nánast alla ævi. Það var ekki það sem ég ætlaði mér.“ Elliði er því, rétt eins og margir af helstu málsvörum einkaframtaksins á Íslandi, á mála hjá hinu opinbera. „Það vill nú oft verða að sumum okkar er fórnað handan víglínu til þess að reyna að hafa áhrif,“ segir hann og hlær.

Það kom Elliða þægilega á óvart hversu auðvelt það reyndist að flytja frá Eyjum. Það hjálpaði til að börnin eru uppkomin og því ekki jafnerfitt að rífa upp ræturnar. En það gætti þó innri togstreitu. „Það helltist yfir mig um tíma ákveðinn valkvíði. Skyndilega varð ég kvíðinn og andstuttur og hugsaði, hvað ef ég vel rangt? Ég er með öll þessi tækifæri fyrir framan mig, ég get farið inn í mjög spennandi tækifæri í einkageiranum, ég get valið um mjög ólík og mismunandi tækifæri innan sveitarfélagageirans. Hver verður líðan mín og hvaða stefnu tekur líf mitt ef ég vel rangt?“

 

Sestur að í Elliðahöfn

Ekki er að heyra á Elliða að hann hafi tekið ranga ákvörðun þegar hann þekktist boð um að gerast bæjarstjóri í Ölfusi, víðfemu tveggja þúsund manna sveitarfélagi á Suðurlandi þar sem Þorlákshöfn er stærsti þéttbýliskjarninn. Kannski viðeigandi í ljósi þess að Þorlákshöfn hét áður Elliðahöfn og gantast Elliði með að „leiðrétta þau mistök“ í framtíðinni. „Ég er með málfrelsi og tillögufrelsi í bæjarstjórn og aldrei að vita að ég mani mig upp í að flytja þá tillögu á ný.“

Það er margt við Ölfus sem heillar Elliða og nefnir hann sterkt samfélag með hátt þjónustustig og mikil tækifæri til atvinnuuppbyggingar. „Ég er líka landsbyggðarmaður í eðli mínu. Ég er mjög hrifinn af hugmyndum þeirra sem voru að taka hér við og treysti mér vel til að vinna með þeim. Ég treysti þeim líka mjög vel til að vinna með mér sem er oft flóknara heldur en fyrir mig að vinna með öðrum. Ég er orðinn nógu gamall til að vita hvernig ég er. Ég fer hratt yfir og get verið mjög fylginn mér og gengið hart fram.“

Aðlögunin hefur gengið vel. Fjölskyldan hefur komið sér fyrir í Ölfusinu er þó enn sem komið er með annan fótinn í Eyjum þar sem eiginkona hans, Bertha Ingibjörg Johansen, rekur fataverslun og dóttir þeirra, Bjartey Bríet, sækir nám í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum. Sonur þeirra, Nökkvi Dan, spilar handbolta með norska úrvalsdeildarliðinu Arendal og stundar samhliða því nám í stærðfræði við Háskóla Íslands. „Það tekur einhvern tíma fyrir Berthu og Bjartey að losa sig fullkomlega frá sínum skuldbindingum þannig að þær eru dálítið á víxl hér í Ölfusinu og í Eyjum. Það gengur bara ljómandi vel að sníða þetta saman og þær eru sem betur fer strax orðið mikið hér enda líður okkur alveg ofsalega vel hérna enda þetta er gott samfélag og nóg um að vera. Ég reyni síðan að vera duglegur að heimsækja Eyjar, sérstaklega til þess að að rækta vini og heimsækja fjölskylduna.“

 

Stórhuga Ölfusingar

Elliði fer á flug þegar talið berst að atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu. Mýgrútur hugmynda er á teikniborðinu og er bæjarstjórinn bjartsýnn fyrir hönd sveitarfélagsins. Fyrst nefnir hann orkuna en innan marka sveitarfélagsins er að finna stærsta jarðorkusvæði landsins sem og einhverjar mestu vatnsbirgðir landsins í jörðu. „Íbúar hér segja gjarnan að ef þú tekur stórt skrúfjárn og rekur ofan í jörðina, þá færðu upp heitt vatn. En ef þú rekur lífið skrúfjárn ofan í jörðina færðu kalt vatn. Það er algjörlega einstakt, jafnvel á heimsvísu, að hafa aðgang að öllu þessu kalda og heita vatni.“ Sér Elliði fyrir sér mikla framþróun í orkubúskap þar sem áhersla verður lögð í fullvinnslu orkunnar. „Ekki bara fullvinnslu orkunnar, heldur fullvinnslu þeirra efna sem fylgja varmanum. Það er til dæmis komnir upp mjög öflugir hátækniiðngarðar á Hellisheiði og þar ætla menn að nota ýmsar lofttegundir, til dæmis til þörungaræktar og ýmsar fleiri hugmyndir. Þar ætlum við okkur stóra hluti.“

En vatnið verður ekki eingöngu notað til orkuöflunar því hvorki fleiri né færri en þrjú baðlón á stærð við Bláa lónið eru á teikniborðinu. Grey line og Heklubyggð ehf. stefna að því að hefja framkvæmdir við eitt slíkt við skíðaskálann í Hveradölum og þá eru tvö önnur baðlón í skipulagsferli hjá sveitarfélaginu en að þeim standa innlendir og erlendir fjárfestar. „Ferðaþjónustan er gríðarlega sterk hérna því nánast hver einasti útlendingur sem hingað kemur fer í gegnum sveitarfélagið í gegnum þjóðveg 1. Reykjadalurinn tekur við 250-300 þúsund ferðamönnum á ári og það eru uppi stórhuga áform um að nýta sérstöðu þessa svæðis.“

 

Hef aldrei minnst á Kínverja

Á undanförnum árum hafa verið uppi hugmyndir um að byggja upp stórskipahöfn í Þorlákshöfn og hafa þingmenn kjördæmisins reglulega lagt fram tillögur þess efnis. Á dögunum greindi Morgunblaðið svo frá því að forsvarsmenn sveitarfélagsins ættu í viðræðum við kínverska aðila um milljarða fjárfestingu á hafnarsvæðinu. Elliði segir áhuga vissulega fyrir hendi, bæði meðal innlendra og erlendra fjárfesta. „Ég hef aldrei minnst á Kínverja, það hafa blaðamenn gert og þeir gera það á eigin ábyrgð. Við höfum aldrei minnst á neitt þjóðerni í þessu samhengi enda skiptir það ekki öllu. Við finnum bara áhuga einkaaðila til að koma að þessu verkefni með okkur og við byrjum þar, á því að þreifa fyrir okkur hversu víðtækur þessi áhugi er og hverjir eru með hugmyndir sem að samrýmast best þessu samfélagi.“

Elliði telur að stórskipahöfn í Þorlákshöfn komi til með að gjörbreyta landslaginu í vöruflutningum til og frá landinu. Sú þróun sé nú þegar hafin eftir að vöruflutningaskipið Mykines hóf að sigla til hafnarinnar og styttir þar með siglingaleiðina frá höfuðborgarsvæðinu til Evrópu um allt að sólarhring. „Til dæmis fer stór hluti af öllum bílum sem koma inn til landsins í gegnum höfnina hérna, hér er líka mikill ferskflutningur og þetta er bara toppurinn á ísjakanum ef höfnin fær að þróast áfram.“

Elliði sér til dæmis fyrir sér að framkvæmdirnar gætu fylgt svipuðu rekstrarmódeli og Hvalfjarðargöngin, það er að fjárfestarnir standi straum af framkvæmdunum og eftir ákveðinn tíma, þegar fjárfestingin hefur borgað sig, eignast sveitarfélagið höfnina á ný. „Það er ekkert lögmál að sveitarfélög eða hið opinbera reki hafnir. Þetta er bara atvinnutæki. Er það eðlilegt fyrirkomulag að þegar sveitarfélög fara í að nýta atvinnutækifæri og styrkja innviði eins og hafnir, að þá sé í raun og veru verið að leggja rekstur grunnskóla og leikskóla undir? Ef það gengur illa með fjárfestingu við höfnina að þá þurfi að stytta opnunartíma á bókasafni eða hækka gjaldskrárnar í sundlaugunum?“

 

Oft verið hundósáttur við flokkinn

Talið berst nú að Sjálfstæðisflokknum þar sem Elliði hefur alið manninn frá því hann hóf afskipti af stjórnmálum. Hann hefur verið áberandi í starfi flokksins og ekki hikað við að segja sínar skoðanir umbúðalaust þótt þær kunni að stuða fólk, jafnvel eigin flokksmenn. „Ég hef mikinn áhuga á Sjálfstæðisflokknum og ég styð hann en ekki óháð því hvað hann gerir. Ég hef alla tíð haldið með ÍBV, Chelsea og Utah Jazz en það er alveg óháð því hvað þau gera. Þetta eru bara lið sem ég valdi mér að fylgja. Ég get kvartað yfir árangrinum og fundist að það eigi að skipta ákveðnum leikmanni inn á eða út af en ég held alltaf með mínu liði. Skuldbinding mín við Sjálfstæðisflokkinn er ekki þannig. Ég styð Sjálfstæðisflokkinn með ráðum og dáð og vinn fyrir hann á meðan ég hef þá trú að þetta sé það stjórnmálaafl sem er líklegast til að vinna hugsjónum mínum framgang. Að þessu sögðu, þá er ég tilbúinn til að vinna áfram með Sjálfstæðisflokknum eins og ég hef gert síðustu 20 árin og ekki séð eftir einni mínútu sem hefur farið í það. En oft hef ég orðið hundósáttur við flokkinn og finnst hann í sumum þáttum þurfa að fara að hugsa sinn gang.“

Þar horfir Elliði til hinna klassísku frelsismála þar sem honum finnst flokkurinn ekki ganga nægilega vasklega fram. „Það er lykilatriði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í dag, að láta af forræðishyggju og ganga fastar fram í innleiðingu á hvers konar frelsi. Og frelsismálin þurfa ekki alltaf að vera stærstu efnahagslegu mál þjóðarinnar.

Eitt grundvallarmál er t.d. að ríkið dragi sig í hlé í af neytendamarkaði. Að það hætti afskiptum á sölu á vörum svo sem ilmvatni, Tobleron og saltpillum í nafni ISAVIA. Svo ekki sé nú minnst á hið sjálfsagða frelsi til að kaupa bjór og vín eins og hverja aðra neytendavöru. Af hverju er frelsi í rekstri fjölmiðla ekki meira? Af hverju þurfa einkareknir fjölmiðlar að glíma á hverjum einasta degi við ríkisbákn? Af hverju hagar ríkið málum sínum þannig að þeir eru búnir að taka sér leyfi að byrja að prenta dagblað og rukka alla sem eru með bréfalúgu, rétt eins og þeir senda út útvarp og rukka alla sem mögulega geta haft viðtæki í gegnum nefskatt. Það er ekkert frelsi í þessu. Ég vil geta valið hvort ég versla við fjölmiðil eða ekki. Á sama hátt þarf ríkið líka að láta sem mest af inngripum í atvinnulífið.  Í hvert skipti sem umræða sem þessi kemur upp þá hljómar alltaf eitthvert bergmál í samfélaginu: „Er þetta nú stærsta málið? Væri ekki nær að ræða fátækt?“ Hugtakið frelsi er svo mikilvægt fyrir okkur öll í okkar daglega lífi og þess vegna eigum við ekki að láta hrekja okkur út í horn í þessari umræðu.“

Elliði vill meina að þetta hafi ekkert að gera með þá staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið í samstarfi við „ófrjálslyndari“ flokka. Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið í samstarfi með öllum flokkum og ekkert í þessa átt hafi verið áorkað. „Því miður er það sem gerist að þegar þingmenn verða ráðherrar, þá verða þeir svo miklir embættismenn. Þetta á ekki við um einn flokk umfram aðra. Þeir fara að hugsa eins og framkvæmdastjórar sem er gott og blessað en þeir verða að standa fyrir eitthvað pólitískt. Ég er ekki að tala fyrir útópískri frjálshyggju, heldur þann sjálfsagða rétt að t.d. skíra barnið þitt því nafni sem þú telur best hæfa og eigir það ekki undir einhverri ríkisnefnd. Sjálfstæðisflokkurinn vill vera trúr þessu en honum hættir eins og öllum öðrum flokkum til þess að fara út úr þessu.“

 

Hefur ekki áhuga á þingmennsku

Fyrir hverjar þingkosningar sprettur nafn Elliða upp í tengslum við mögulegt framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann hefur hins vegar aldrei látið tilleiðast þrátt fyrir góða möguleika, enda Sjálfstæðisflokkurinn gríðarlega sterkur í kjördæminu og sjálfur á Elliði sterkt bakland í Eyjum og víðar í kjördæminu. Elliði segist einfaldlega ekki hafa haft áhuga á þingmennsku. „Ég hef aldrei útilokað það en áhugi minn hefur aldrei legið í þessa átt. Mér hefur fundist mörgum sveitarstjórnarmönnum sem fara inn á þing ekki líða neitt sérlega vel þar. Sérstaklega þegar menn hafa verið bæjar- og sveitarstjórar, að koma inn á þing og sjá hlutina gerast á þeim hraða sem þar er, það er svolítið erfitt fyrir fólk sem er kannski búið að vera í tugi ára í þannig umhverfi að ef þú vilt að eitthvað gerist á morgun, þá hefurðu raunhæfa möguleika á að það gerist á morgun. Þú getur strax byrjað að hafa áhrif.“

Fyrir þingmenn er þetta erfiðara, segir Elliði, og fólk er gjarnt á að gera ósanngjarnar kröfur til þeirra. Sjálfur segist Elliði hafa verið í þeim hópi. „Fólk vill að þingmennirnir reddi málum. Reddi hjúkrunardagheimili fyrir veika ömmu, reddi brú yfir fljót og reddi námsbókum fyrir þá sem hafa ekki efni á þeim og svo framvegis. Þingmenn eru löggjafinn, þeir hafa mjög takmörkuð úrræði þegar að þessu kemur. Við höfum langtum meiri úrræði hvað þetta varðar í sveitarstjórn. Þannig að ég hef hingað til ekki stefnt inn á Alþingi og geri það ekki í dag.

Myndir / Hákon Dagur

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -